14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

Almennar stjórnmálaumræður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Núv. ríkisstj. hefur haft þrjú ár til þess að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í lag. Núv. ríkisstj. hefur nákvæmlega ekkert gert. Það liggur ekkert eftir hana sem máli skiptir. Verðbólgan æðir áfram og þarf ekki að rekja þá sögu.

Ég held að endalok þessa þings séu með einhverjum óvenjulegasta hætti sem þm. hafa orðið vitni að um langt árabil og senn lýkur störfum núv. ríkisstj., sem er um margt einhver óvenjulegasta ríkisstj. sem hefur verið við völd í þessu landi. Ég held að menn verði að átta sig á því, og alþjóð ekki síður en þm. og kannske miklu fremur, að efla verður það sem við Alþfl.-menn höfum kallað þjóðarsátt. Það er ekkert annað sem gildir. Það er alveg ljóst, að sú upplausn og sá órói, sem nú ríkir í þjóðfélaginu, er ekkert annað en eldsmatur þeirra afla sem geta komið þjóðfélaginu á kaldan klakann. Ég held að við verðum að líta á það sem raunverulega skiptir máli núna.

Við björgum engu með látlausum deilum. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir sem við okkur blasa og taka mark á þeim. Við verðum að horfast í augu við það, að langtímaskuldir þjóðarinnar nema nú tæplega 100 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn og sú lánsfjáráætlun, sem hér átti að afgreiða, en varð því miður ekki afgreidd og mun það koma mjög illa við atvinnuvegi þjóðarinnar, bætir við 15 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu í erlendum skuldum. Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel að nú dugi ekkert annað en sátt á milli þéttbýlis og dreifbýlis, sem óábyrgir menn hafa stuðlað að ósátt með. Ég er þeirrar skoðunar, að hér verði maður að standa með manni, ef við eigum að ná árangri Við getum ekki leyft okkur það áfram að standa í óvígum fylkingum hver á móti öðrum. Slíkt gengur ekki til lengdar. Ég held að við mættum á þessari stundu huga að ýmsum fornum dyggðum, sem hafa gefist þjóðinni vel, að aðhaldi og nýtni og sparnaði, sem ég tel að ríkið verði að hafa forgöngu um. Það er hægt að spara og það geta margir sparað, en það geta ekki allir sparað. Sumir hafa lítið annað en tekjur fyrir nauðþurftum.

Ég held líka á þessari stundu að við megum ekki gleyma þeim sannindum að öflugur atvinnurekstur í landinu er hagsmunir launþega og það eru hagsmunir launþega, að atvinnureksturinn geti gengið og það eru líka hagsmunir atvinnurekstrarins að launþegar hafi lífvænleg kjör. Við verðum að snúa við blaðinu, eins og við höfum kallað það og sagt, Alþfl.-menn, og hefja nýja sjálfstæðisbaráttu í efnahagslegu tilliti. Annað dugar ekki. Frá árinu 1978 höfum við þráfaldlega klifað á því að það yrði að taka hér upp gjörbreytta efnahagsstefnu. Við endurtókum þetta 1979. Við endurtókum það við stjórnarmyndunarviðræður 1980. Það var ekki tekið mark á orðum okkar, því miður. Við sögðum þá við þjóð og þing að við stefndum á vit kreppu. Þau orð hafa sannast. Kreppan er að ganga í garð.

Nú, fyrir þær kosningar sem fram undan eru, erum við ennþá sannfærðari um að tillögur okkar eru í fullu gildi og við munum berjast fyrir þeim. Ég held, herra forseti, af því að mér er naumt skammtaður tíminn, að ég hljóti að hafa það að mínum lokaorðum að reyna að efla með þjóðinni bjartsýni á orkulind sem fæstir hafa talað um. Það er orkulindin sem felst í þjóðinni sjálfri, í þekkingu, þrautseigju, dugnaði og krafti við það að takast á við erfiðleikana. Þjóðin hefur áður staðið saman í miklum erfiðleikum. Ég vil minna á landhelgisstríðin, sem þjóðin hefur háð. Þar stóð hún saman sem einn maður. Ég er sannfærður um að ef við hefðum getað orðið sammála um nýja og gerbreytta efnahagsstefnu gætum við með sameiginlegu átaki brotist út úr þeim vítahring sem við erum nú í og stofnar öllum atvinnurekstri og kjörum allra launþega í stórfellda hættu.

Ég vil að endingu segja þetta við fólkið í þessu landi og þm.: Við skulum hætta þessu svartagallsrausi og við skulum taka upp bjartsýni á landið okkar og þjóðina okkar, því að landið er góð móðir þó að hún sé stundum hörð.