14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

Almennar stjórnmálaumræður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Nú erum við Íslendingar þjóð á tímamótum. Undanfarinn áratug hefur sífellt sigið meira á ógæfuhliðina í íslenskum efnahagsmátum. Snúningur verðbólgu- og vísitöluhringekjunnar hefur orðið hraðari með hverju árinu, uns nú stefnir í fullkomið óefni. Við erum komin í ógöngur eftir þriggja ára samstjórn Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. Þjóðfélagið er búið að þrautreyna allar þær leiðir sem þeir hafa upp á að bjóða. Þeirra ráð hafa reynst okkur óráð. Þess vegna þarf nú að fara nýjar leiðir, taka upp nýja stefnu. Það bjóðast nefnilega betri leiðir.

Alþfl. hefur markað skýra stefnu, gerbreytta efnahagsstefnu frá því sem nú er, nýja atvinnustefnu, afkomutryggingu heimilanna, lífskjaratryggingu, nýja sókn til farsældar og framfara.

Hvað, hlustendur góðir, hefur einkennt undanfarin þrjú ár, samstjórnarár þeirra Svavars, Steingríms og Gunnars? Vaxandi verðbólga, verðhækkanir upp úr öllu valdi, kjararýrnun, afkomu íslenskra heimila og atvinnuöryggi þorra fólks er nú stefnt í hættu.

Ríkisstj. missti starfhæfan meiri hluta á miðju síðasta sumri. Stjórnarfarslegt þrátefli og sjálfhelda hafa sett svip á þingstörfin í vetur. Alþingi hefur sætt ámæli fyrir. En sökin er forsrh. og stjórnarflokkanna, sem virtu leikreglur lýðræðis og þingræðis að vettugi valdanna vegna. Þeir hafa sannarlega fengið að spreyta sig, en þeir féllu á prófinu.

Þegar slíkt ástand skapast, sem hér hefur ríkt undanfarna mánuði, þá hefur það auðvitað sín áhrif um gervallt þjóðfélagið. Þá myndast jarðvegur sem skrum og gaspur geta blómstrað í. Innihaldslausar upphrópanir fá hljómgrunn. Auðveldast af öllu er að tala eins og hver vill heyra, oft meiningar- og merkingarlaust þegar betur er að gáð. Þetta getur vissulega haft hættu í för með sér, svo mikið hefur sagan kennt okkur. Þótt pólitískir upphlaupsmenn vaði nú elginn íklæddir hinum nýju fötum keisarans úr ævintýrinu góða, þá bjargar það auðvitað ekki neinu, jafnvel þótt hinir sömu þykist nú ætla að frelsa þjóðina frá flokkunum með því að stofna nýjan flokk þar sem hið tvöfalda siðgæði virðist eiga að skipa öndvegi. Þar er ekkert nýtt að finna, hvorki nýjar lausnir né nýjar leiðir, enda leikurinn ekki til þess gerður. Okkur er áreiðanlega margs vant á mörgum sviðum, en það er örugglega ekki þetta sem okkur er nú brýnast.

Til er hugtakið „pólitískt hugrekki“, en það getur verið með ýmsum hætti. Það þarf pólitískt hugrekki til að grípa hvað eftir annað til kjaraskerðingar án þess að gera nokkuð annað, eins og Alþb. hefur gert í þessari ríkisstj. Það þarf líka pólitískt hugrekki til að brjóta niður húsnæðislánakerfið, eins og Alþb. hefur tekist. Það þarf pólitískt hugrekki til að hygla flokksgæðingum, eins og Framsfl. undir forustu Steingríms Hermannssonar hefur svo eftirminnilega gert í þessari ríkisstj. Og það þarf pólitískt hugrekki til að koma hér í þennan ræðustól og segja ykkur, hlustendur góðir, frá niðurtalningunni, eins og formaður Framsfl. gerði hér áðan. Það þarf pólitískt hugrekki til að bera ábyrgð á Iscargo-hneykslinu og öllu sem því fylgdi.

Þeir sjálfstæðismenn hafa leikið hér sérkennilegan trúðleik í kvöld, eins og staða þess flokks raunar gefur tilefni til. Þið heyrðuð ræðu Gunnars Thoroddsens, þið heyrðuð ræðu Alberts Guðmundssonar. Þessir menn biðja ykkur um að kjósa Sjálfstfl., en ég spyr og ég veit að þið spyrjið líka: Hvaða Sjálfstfl.? Sjálfstfl. Gunnars, Friðjóns og Pálma eða Sjálfstfl. Sverris, Geirs og Alberts? Hvaða Sjálfstfl.? Þennan mjúka og manneskjulega eða þennan harða og óbilgjarna? Báknið burt eða báknið kjurt. Hvaða Sjálfstfl.? Því get ég ekki svarað og ég er sannfærður um að þið eigið erfitt með að svara því líka.

Það þarf pólitískt hugrekki til að leika tveimur skjöldum, til að svíkjast undan merkjum og sitja í ríkisstjórn í trássi við leikreglur lýðræðis og þingræðis. Það þarf pólitískt hugrekki til að segja: allt, sem miður hefur farið, er öðrum að kenna, ekki okkur, sem setið höfum í stjórn landsins, eins og þeir Gunnarsmenn hafa gert. En nú spyr ég ykkur: Er það pólitískt hugrekki eða kannske pólitískur heigulsháttur af þessu tagi sem við þurfum á að halda? Svarið er auðvitað nei og aftur nei. Nú þurfum við öll að hafa pólitískt hugrekki í jákvæðri merkingu. Pólitískt hugrekki til að horfast í augu við staðreyndir, til að horfast í augu við gífurlegan efnahagsvanda, vaxandi horfur á atvinnuleysi, óheyrilega erlenda skuldasöfnun, m.a. vegna eyðslu og óráðsíulána til að fjármagna hallarekstur ríkisfyrirtækja.

Við þurfum að taka okkur tak, Íslendingar. Nú þarf að endurreisa heilbrigt efnahagslíf, láta einstaklinga og samtök standa ábyrg gerða sinna. Ábyrgð, en ekki ábyrgðarleysi. Nú þarf nýja atvinnustefnu. Það þarf að gera uppskurð á kerfinu og taka upp gjörbreytta efnahagsstefnu. Það bjóðast vissulega betri leiðir en þær sem þeir herrar hafa valið sem landinu hafa stjórnað að undanförnu.

Enn á ný pólitískt hugrekki: Alþfl. sagði hingað og ekki lengra haustið 1979 og sleit stjórnarsamstarfi við Framsfl. og Alþb. Þá var þrautreynt að það var ekki hægt að ná samkomulagi við þá um skynsamlega efnahagsstefnu. Þá stóðum við Alþfl.-menn fast á okkar stefnu. Það gerum við enn og munum gera.

Með afkomutryggingu heimilanna, lífskjaratryggingu og nýrri atvinnustefnu getum við treyst þann grundvöll sem allt líf í þessu landi hvílir á. Við verðum að nýta þau verðmæti sem nú fara til spillis, taka upp nýja fjárfestingarstefnu og veita fé í það sem er arðbærast okkur og afkomendum okkar. Við eigum ekki að skila þeim skuldum einum. Við eigum að skila þeim betra landi og betra lífi. Þannig skulum við í anda hinnar sönnu jafnaðarstefnu horfa saman til farsællar framtíðar. — Þökk sé þeim er hlýddu. Góðar stundir.