14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

Almennar stjórnmálaumræður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það hefur margt verið sagt hér í kvöld. Það var til dæmis athyglisvert að heyra Ragnar Arnalds fjmrh. tala um kreppuna í útlöndum. Hann hefði mátt líta sér nær. Veit hann ekki að ungt fólk á Íslandi getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið eða er að kikna undir því verkefni? Veit hann ekki að það eru dæmi um að íslenskt launafólk verði að leita til hjálparstofnana til þess að geta komist af? Veit hann ekki að launafólk, smáatvinnurekendur og fyrirtæki geta ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar? Íslendingar vilja vera skilamenn, en þeir eru að kikna undir því núna. Þetta hefði Ragnar Arnalds mátt ræða. Hann hefði líka mátt hafa orð á atvinnuleysinu á suðurnesjum. Af þessu fólki höfum við Alþfl.-menn áhyggjur.

Steingrímur Hermannsson kvartaði hér áðan undan efnahagsástandinu. Hann hefði mátt ræða hvern hlut togarainnflutningur hans sjálfs hefur átt í að skapa þetta efnahagsástand. A.m.k. 17% gengisfellingu og tilsvarandi verðbólgu má rekja til togarainnflutnings Steingríms Hermannssonar. Hann hefði líka mátt ræða hvers vegna íslenskt þjóðfélag er þannig, að bændur slíta sér út á meðan vinnslustöðvar og milliliðir græða á tá og fingri og byggja hverja höllina á fætur annarri.

Þeir Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds börðust um hér áðan vegna ÍSALmálsins. Það mál er mjög einfalt. Málið er nefnilega það, að í rúmlega tvö ár hefur Hjörleifur Guttormsson iðnrh. verið með málið án þess að ná nokkrum árangri. Á slíku háttalagi höfum við Íslendingar ekki efni. Við höfum tapað á þessu gífurlegum fjárhæðum og við höfum einfaldlega ekki efni á því að tapa meira. Þess vegna verður að taka málið úr höndum ráðh. til þess að firra okkur meira tapi. Það þýðir ekkert að kvarta og kveina, eins og þeir gerðu hér áðan félagar, Svavar Gestsson og Ragnar Arnalds, undan því að Alusuisse-menn séu vondir menn. Þeir Alusuisse-menn eru auðvitað að verja sína hagsmuni. Við eigum árangurinn ekki undir þeim. Við eigum árangurinn einungis undir málafylgju okkar sjálfra. Það er það sem hefur mistekist hjá hæstv. iðnrh.

Þeir framsóknarmenn hafa mótmælt því hér í umr. og reyndar seinustu daga að þing komi fljótlega saman eftir kosningar. Þeir segjast vilja láta kjósa, en þeir vilja ekki að nýtt þing komi saman. Og þeir hótuðu meira að segja að fara úr ríkisstj. út af þessu. Það er áreiðanlega einsdæmi að flokkur hóti að fara úr ríkisstj. af því að þing eigi að koma saman. En úr þessari hótun varð auðvitað ekki neitt frekar en öðrum hótunum framsóknarmanna í þessari ríkisstj. öll árin sem hún hefur setið. Annað mál er það hvenær eigi að kjósa öðru sinni. Við Alþfl.-menn teljum að úrlausn efnahagsmála verði að hafa forgang og tímasetning seinni kosninga verði að ráðast af því. En einmitt af því að það verður að taka á efnahagsmálunum á þingið að koma saman fljótlega eftir kosningar. Svo einfalt er það mál.

Við stöndum að ýmsu leyti á tímamótum núna, Íslendingar. Þau efnahagsráð, sem fylgt hefur verið, eru komin í þrot. Allan síðastliðinn áratug hefur verið að halla á ógæfuhliðina og nú keyrir um þverbak. Það er athyglisvert að þennan áratug og vel það eða reyndar s.l. 12 ár, þá hafa þrír flokkar, nefnilega Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og sjálfstæðismenn, skipst á um að vera í ríkisstjórn. Framsfl. hefur setið öll árin 12 í ríkisstjórn. Alþb. í 8 ár og sjálfstæðismenn hafa verið 8 ár í ríkisstjórn af þessum 12 árum. Það eru því þessir flokkar sem bera ábyrgð á þróuninni undanfarinn áratug. Þeir hafa fengið að ráða. Árangurinn blasir við. Hann er þessi: 70% verðbólga, erlendar skuldir sem nema nú um helmingi af árlegum þjóðartekjum og greiðsluþrot hjá fólki og fyrirtækjum og vandræði hjá ungu fólki við að koma sér fyrir.

Það sjá auðvitað allir að það breytir engu, ef þessir flokkar eða menn eiga að stjórna áfram, hvort heldur þeir taka saman höndum Ólafur Jóhannesson og Geir Hallgrímsson, eins og þeir gerðu 1974–1978 og frægt er orðið, eða þeir Svavar Gestsson og Steingrímur Hermannsson, eins og núna er. Hvort heldur sem verður þýðir einungis sama áframhald á þeirri þróun sem við höfum lifað við undanfarinn áratug. Ráð þessara manna, þessara flokka, hafa verið reynd. Þau hafa ætíð og ævinlega verið einungis til bráðabirgða, oftast vísitölublekkingar, og þessi ráð þeirra hafa skilað þeim árangri að við búum við það ástand sem nú ríkir.

Í rúmlega eitt ár á þessu 12 ára tímabili átti Alþfl. aðild að ríkisstj. og þá var reynt að þröngva Alþfl. til að beita sömu ráðum og hinir flokkarnir hafa notast við fyrr og síðar. Því neitaði Alþfl. Hann krafðist gerbreyttrar efnahagsstefnu og hann stóð á stefnu sinni, en seldi hana ekki fyrir ráðherrastóla eins og hinir flokkarnir hafa leikið æ ofan í æ og eru enn að. Við töldum það, Alþfl.-menn, ábyrgðarleysi að sitja í ríkisstj. án þess að stjórna, að sitja án þess að ná árangri, eins og núv. ríkisstj. ástundar. Slíkt er ekki Alþfl. að skapi því hann krefst árangurs.

Já, góðir hlustendur. Það eru fullreynd ráð þeirra Alþb.-manna, framsóknar- og sjálfstæðismanna. Vilji menn breytingu er ráðið ekki að endurnýja umboð þessara flokka né heldur að kjósa ný framboð, sem munu reynast áhrifalítil á Alþingi jafnvel þótt þau fengju þingmenn kjörna. Ráðið er að veðja á Alþfl. og knýja fram gerbreytta efnahagsstefnu. Alþfl. er eini valkosturinn til að ná fram slíkum breytingum.

Við Íslendingar verðum vitaskuld að horfast í augu við staðreyndirnar núna. Það duga engin gylliboð og þau munu ekki koma frá okkur Alþfl.-mönnum. Nú verður að leggja hagsmunapotið og togstreituna til hliðar. Málið snýst um að brjótast úr vítahring erlendrar skuldasöfnunar og verðbólgu. Málið snýst um að tryggja afkomu okkar allra og framtíð í þessu landi. Málið snýst um að nýta skynsamlega þá peninga sem við höfum á milli handanna, en ekki í ævintýramennsku, Kröflufjárfestingar, óþarfa togara eða óarðbæra fjárfestingu.

Fyrsti áfanginn verður erfiður og mun krefjast samstöðu og þá mun reyna á styrk Íslendinga. — Og við skulum viðurkenna að vísitölukerfið hefur gengið sér til húðar. Það tryggir nú orðið útgjöldin frekar en launin eða kaupmátt launanna. Þetta kerfi úthlutaði hátekjumönnum heilum verkamannalaunum í launahækkun um s.l. áramót. Krukk í vísitölukerfið dugar ekki heldur. Það er margsannað. Vísitölufrv. hæstv. forsrh. með dyggum stuðningi Framsóknar var besta dæmið um það, þar sem átti að lækna 70% verðbólgu með 5% árangri. Við verðum að fara nýjar leiðir til þess að vernda hag launafólks. Í stað vísitölukerfisins verður að koma samningur um launaþróun og afkomutryggingu — afkomutryggingu sem verndar hag launafólksins. Við skulum viðurkenna að við getum ekki fjárfest um efni fram og hengt okkur þannig í ól erlendra skulda. Það er auðvelt að segja já við öllum kröfum og óskum, en nú verða menn að kunna að segja nei, menn verða að kunna að velja og hafna, og það er það sem hefur skort þennan áratug. Það er enn ekki of seint að grípa í taumana og byrja að stjórna, en það getur orðið of seint ef beðið er öllu lengur.

Gömlu ráðin duga ekki. Það þarf gerbreytta efnahagsstefnu — stefnu sem snýr til framtíðarinnar. Við þurfum að taka upp nýja atvinnustefnu. Við verðum að stokka upp í ríkisbúskapnum, hindra bruðl og sukk og komast fyrir skattsvik með nýju skattkerfi. Við verðum að endurreisa ábyrg samskipti milli allra aðila þjóðfélagsins. Þetta er stefna Alþfl. Við getum treyst atvinnuna í þessu landi, ef við nýtum peningana í að skapa arðbær störf í stað þess að þeir fari í rangar fjárfestingar, og við getum náð okkur úr verðbólgu og dýrtíðarfarinu ef við sameinumst um það, ef það er stjórnað í stað þess að hrekjast.

Við getum haft það lífvænlegt í þessu landi, en þá þarf að skipta um stefnu. Það bjóðast betri leiðir en Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og sjálfstæðismenn hafa farið í samkrulli sínu s.l. 12 ár. Alþfl. býður þessar leiðir. Þær fela í sér afkomutryggingu, nýja atvinnustefnu, ábyrg samskipti allra aðila í þjóðfélaginu. Á þeim grunni skulum við standa vörð um velferðarþjóðfélagið og vinna að auknu jafnrétti og öryggi. Það er markmið Alþýðuflokksins.

Herra forseti. Kosningar eru á næsta leiti. Þær geta orðið örlagaríkar. Spurningin er hvort menn vilja breytingu á stjórn þjóðarskútunnar. Með því að kjósa Alþfl. geta menn tryggt kaflaskil í stjórn efnahagsmála, nýja og betri tíma. Við Alþfl.-menn stöndum á stefnu okkar og við krefjumst árangurs, ekki bara af öðrum heldur líka af okkur sjálfum. Því geta menn treyst. Það höfum við sannað og það er meginmálið. — Góðar stundir.