11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel það vera í grundvallaratriðum rangt að vísa þessari till. til utanrmn. og ég skal leiða nokkur rök að því.

Í fyrsta lagi gerir þessi till. ráð fyrir að það verði kannaður rekstur risastórs fyrirtækis, sem teygir anga sína út um allt land. Þessi rekstur nær til húsbygginga m.a. á Reykjavíkursvæðinu, þar sem þetta fyrirtæki hefur reist 24 þús. fermetra hús. Ég veit ekki hvaða erindi þessar byggingarframkvæmdir eiga inn í utanrmn.

Ég vil líka láta þess getið, að þetta fyrirtæki hefur verið í beinni eða óbeinni samkeppni við önnur verktakafyrirtæki í landinu og haft þar aðstöðu sem ég hef á undanförnum árum talið óeðlilega. Hvað þessi samkeppni á að gera inn í utanrmn. veit ég ekki.

Hús þessa fyrirtækis að Ártúnshöfða hefur verið leigt ríkinu og þar er m.a. til húsa bifreiðaverkstæði SÍS. Hvaða erindi þessi verkefni eiga inn í utanrmn. fæ ég ekki skilið.

Ég vil líka minna hv. þm. á starfshætti utanrmn. Hún hefur nokkra sérstöðu í þinginu vegna þess að utanrmn. er að hluta til lokuð nefnd — nefnd sem heldur sína fundi fyrir luktum dyrum — og þau mál sem þar eru rædd eru oftar en ekki trúnaðarmál. Svo var a.m.k. þegar ég átti sæti í þessari virðulegu nefnd. (Gripið fram í: Það er alltaf nema öðruvísi sé ákveðið.) Alltaf nema öðruvísi sé ákveðið. En þá styður það það sem ég er hér að segja.

Í orðum hæstv. utanrrh. áðan um að svipuð till. hafi verið send utanrmn. áður gætir nokkurs misskilnings vegna þess að í þeirri till. var gert ráð fyrir að utanrmn. yrði falið að kanna málið, en ekki að það yrði falið sérstakri sjö manna rannsóknarnefnd að gera það.

Herra forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram. Auðvitað ber forseti upp fyrst tillögu 1. flm.-tillöguna um að málinu verði vísað til allshn. Annað kæmi ekki til nokkurra einustu greina því að 1. flm. hlýtur að hafa tillögurétt um hvert hans tillögur fara á hinu háa Alþingi. Till. hans kemur auðvitað fyrst fram og hana ber að bera upp fyrst.

En að lokum: Ég vænti þess að menn sjái sér fært að senda þessa þáltill. til allshn. en ekki utanrmn.