11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er af augljóst af öllu, að hæstv. utanrrh. hefur ekki heyrt hvað fór fram bæði hér áðan og síðast í gær. Og það má segja að upphlaupsmaðurinn, sem situr í forsetastóli í þessari stofnun og er með upphlaup einu sinni í viku, valdi þinghneyksli hér í dag, en ekki utanrrh. Það var auðvitað hárrétt hjá hæstv. utanrrh., að hann hefur leyfi til að flytja hvaða till. sem er, hvaða brtt. sem er og hvaða fsp. sem er. Það er ekki málið, heldur að flokksbróðirinn, sem situr hér í forsetastóli, tekur til, frá hæstv. utanrrh. fram fyrir till. flm. Við vitum að menn greiða hér atkv. nokkuð sjálfstætt í þessum efnum og vitaskuld er forseti með sína vikulegu hlutdrægni í forsetastól. Þetta sjá allir þm. Vandinn er sá að þjóðin fær ekki að vita nógu mikið um störfin á Alþingi. Ef þjóðin vissi betur og vissi meira væri þessi stofnun að mörgu leyti öðruvísi.

Það sem hér hefur farið fram, herra forseti, af forseta hálfu er það sem heitir í kennslubókum —(Forseti: Ég er búinn að lýsa því yfir að ég mun taka tillögu og ósk hv. 4. þm. Reykv. til greina.) Gerði forseti mistök áðan? (Forseti: Nei.) Ég er aðeins að útskýra fyrir þinginu í hverju mistökin eru fólgin Það er málið að það sem hér átti að fara fram, og nú tek ég fram eins og einn lögskýrandi hefur gert áður að ég nota strangfræðilegt lögfræðimál og ekki stóryrði, er valdníðsla. Það er valdníðsla þegar hæstv. utanrrh. — fyrir aldurs sakir, sögu sakir og stöðu sinnar sakir — ber fram till. og hún er tekin fram fyrir till. frá yngsta þm. Það er það sem hefur gerst. Og þingforsetinn, sá sami og var með upphlaupið í fsp.- tíma um daginn, hefur annað upphlaup í dag. Við, sem erum að reyna að halda þessu kerfi stöðugu í þjóðfélaginu eigum auðvitað býsna erfitt við slíkar aðstæður. Það er málið. Og forseti segist núna ætla að breyta um ákvörðun. Það er af því að ég skildi fljótt hvað var að gerast. Annars hefði till. utanrrh. verið borin fram og samþykkt shlj. Það er þetta sem er málið. (Gripið fram í: Þú þarft ekki að vera viss um að hún hefði verið samþ. shlj.) Nei, gott og vel. En nú vísa ég í þingvenjur, hvernig með svona mál er farið. Og ég undirstrika, af því að mér prófhærri menn í lögvísindum hafa notað orðið valdníðsla og undirstrikað hvenær væri verið að tala um lögfræði og hvenær væri verið að tala um pólitík, að ég er að tala um lögfræði. Þetta heitir valdníðsla og það vita þeir báðir, fyrrv. stjórnlagaprófessorarnir, og leika þjóðfélagið áfram eins og þeir gera.

Það sem hér hefur gerst er dæmisaga um menn sem ekki kunna mannasiði. (Forseti: Það er um þingsköp.) Þetta er um þingsköp, herra forseti. Það er hægt að sýna þinglega mannasiði, sem hér hefur mistekist í dag. Það er þetta sem hefur gerst.

Nokkur orð um málið efnislega, af hverju gerð er till. um allshn.: Ég vil taka undir þær skýringar sem hv. 11. þm. Reykv. hefur gefið í þeim efnum. Þetta er till. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavikurflugvöll. Ef hæstv. utanrrh. hefði látið svo lítið að vera hér við í gær vissi hann að tillögumaður fellst á að það sé svolítil ónákvæmni, sem þarf að breyta, í till. En hæstv. utanrrh. var ekki við. (Gripið fram í.) Þáltill. eru ræddar í Sþ., vænti ég að utanrrh. viti.

Í öðru lagi eru hér rakin fordæmi og sagt: Svona till. hefur áður verið vísað til utanrmn. Þetta er rangt, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. rakti hér áðan. Sú till., sem ég var einnig 1. flm. að, var till. um að fela utanrmn. rannsóknarvald. Það er allt öðruvísi saman sett till. Menn eiga að lesa þskj. sín.

Það er þetta sem hefur skeð: Í dag hefur verið opinberað á hinu háa Alþingi ótrúlega margt; hin lögfræðilega valdníðsla sem stendur fyrir miklu meira. Gamla kerfið fór í vörn fyrir verktakasukkið, en þjóðin er ekki sammála ykkur, herrar mínir. Hún bara veit ekki nóg um ykkur. Það er vandinn. Hún veit ekki nóg.

Herra forseti. Ég meðtek það sem allur þingheimur skilur sem afsökunarbeiðni. Ég meðtek það. Við höfum alltaf kunnað mannasiði.

Ég þakka fyrir að till. verður borin upp. Ég óska auðvitað eftir nafnakalli um þetta. Ég ætla ekki að gera þetta að stórmáli. Það eru hæstv. utanrrh. og flumbruskapurinn í forseta sem gerðu þetta að slíku máli. Ég vil biðja þann hluta þm., sem er stór, sem kemur fram af fullri virðingu afsökunar fyrir hönd þeirra beggja á því sem hér hefur gerst. Þingið á auðvitað ekki að vinna svona.

Herra forseti. Ég óska eftir nafnakalli um till. mína. (MB: Er of seint, forseti, að leggja til að málinu verði vísað til heilbr.- og trn.?)