18.10.1982
Efri deild: 3. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

10. mál, Jarðboranir ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um Jarðboranir ríkisins er flutt af sömu þm. og frv. til orkulaga, sem við vorum að ræða áðan. Þetta frv. er raunar fylgifrv. með því frv, og er eitt af því sem gera þarf til þess að hnitmiða störf Orkustofnunar við þau mál, sem þýðingarmest er að hún vinni, og létta öðrum störfum af Orkustofnun.

Þetta frv. kveður á um það hvert eigi að vera hlutverk Jarðborana ríkisins. Meginbreytingarnar, sem frv. felur í sér frá gildandi lögum, eru í fyrsta lagi að Orkustofnun er ekki falið að annast rekstur Jarðborana ríkisins eins og verið hefur heldur skal fyrirtækið lúta sérstökum framkvæmdastjóra sem ráðh. skipar.

Í öðru lagi er meginbreytingin frá gildandi lögum fólgin í því að það eru sett ákvæði um starfshætti fyrirtækisins, sem leiðir af því að hér verður um verktakafyrirtæki að ræða. Það er m.a. gert ráð fyrir að við hvert verkefni sem Jarðboranir ríkisins taka að sér verði gerður verksamningur og gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem Jarðboranir ríkisins inna af hendi, verði ákveðin með hliðsjón af því að tekjur af borunum standi undir reksturskostnaði og fjármagnskostnaði fyrirtækisins miðað við eðlilegan afskriftartíma. Það er talið að þeim markmiðum, sem lýsa sér í þessu, verði betur náð ef Jarðboranir ríkisins eru algerlega sjálfstæð stofnun en ekki deild í Orkustofnun eins og nú er.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. iðnn. að lokinni þessari umr.