11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar alþm. hafa nú ákveðið, hluti þeirra, að vísa þessu máli til utanrmn., þá verð ég sem nm. í þeirri nefnd að óska eftir úrskurði forseta um heimildir mínar til starfa í nefndinni að þessari till. Það er ljóst, að þessi till. er allnokkuð öðruvísi en þorrinn af þeim till. sem utanrmn. fær til meðferðar. Ég mun óska eftir því í utanrmn., líkt og gert er venjulega í öðrum nefndum þingsins, en heyrir til algerra undantekninga að gert sé í utanrmn., að fulltrúar allra þessara fyrirtækja og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem þessi fyrirtæki hafa fjárfest í verði kallaðir fyrir nefndina, svo að hv. utanrmn. geti gert sér grein fyrir hvort það sé ástæða til að samþykkja þessa till. og þá með hvaða hætti hún skuli orðuð. Slík vinnubrögð hafa að ég held mjög sjaldan, ef þá nokkurn tíma, verið tíðkuð í utanrmn., en eru hins vegar meginregla, eins og allir vita, í öllum öðrum nefndum þingsins og hefðu verið meginregla ef þessari till. hefði verið vísað til allshn.

Ég segi þetta hér vegna þess að ég vænti þess, að sá hluti þingsins sem samþykki að till. væri vísað til utanrmn. hafi ekki verið að gera það í trausti þess að till. fengi ekki eðlilega þingmeðferð. Þessi samþykkt meginhluta þings hafi ekki verið gerð til að hindra að málið fengi eðlilega þingmeðferð. Ég vil ætla það, þar til annað kemur í ljós, að það sé ekki vilji þingsins að þetta mál fái ekki sömu meðferð í þessari nefnd og þorri allra annarra þingmála fær í öðrum þingnefndum. En hængurinn er sá, að það eru ákvæði um utanrmn., sérákvæði, sem kveða á um að ég hafi ekki heimild sem nm. í utanrmn. til að skýra þingheimi frá gögnum og upplýsingum í mínu nál. eins og öllum þm. í öðrum nefndum þingsins er heimilt að gera. Væntanlega er það ekki vilji þingsins að hindra að þingið fái að sjá, og þar með þjóðin, þau gögn, þær skýrslur og þær upplýsingar og umsagnir sem ég mun beita mér fyrir að utanrmn. fái um þetta mál, en samkv. ákvæðum þingskapa um utanrmn. er bannað að sína slíkt. Þess vegna leita ég úrskurðar forseta, annaðhvort í dag eða síðar, hvort hann telur að mér sé heimilt í nál. mínu, sem e.t.v. fleiri kunna að standa að, að leggja fram þau gögn og þær upplýsingar, sem nefndin fær, eins og nm. í öllum öðrum nefndum þingsins er heimilt að gera. T.d. hefur hv. þm. Lárus Jónsson árlega birt heila bók í þskj. með mörgum tugum skjala og upplýsinga sem borist hafa fjh.- og viðskn. frá alls konar stofnunum og aðilum í þessu þjóðfélagi.

Ég óska eftir úrskurði hæstv. forseta um það, hvort ég hafi heimild, þegar nefndin skilar áliti, til að leggja fram í nál. mínu öll þau gögn og upplýsingar, sem n. berast, líki og aðrir þm. hafa í öðrum nefndum um öll önnur mál. Ég geri þetta vegna þess að ég vil fá það skýrt fram hér og nú, hvort sá meiri hl. sem hér myndaðist sé þeirrar skoðunar og það hafi verið ætlun hans með atkvgr. sinni að sveipa skuli þagnarhjúp yfir málið með því að beita þagnarskyldunum í utanrmn. til að hindra að þingið og þjóðin fengi að sjá þau skjöl sem fram koma í málinu. Ég vil því óska eftir því við hæstv. forseta, að hann úrskurði að með þetta mál skuli fará eins og öll önnur þingmál og mér og öðrum nm. í utanrmn. verði heimilað að leggja fram í mínu nál. öll þau skjöl og upplýsingar sem nefndinni berast um þetta mál. Ég óska eftir þeim úrskurði áður en n. tekur til starfa. Hann þarf ekki að koma hér og nú. Ég geri enga aths. þó að hæstv. forseti taki sér umhugsunarfrest. Ég bið hann gjarnan um að gera það vegna þess að úrskurður hans skapar mjög alvarlegt fordæmi, ef hann verður neitandi, og ég efast um að ég treysti mér til að starfa að þessu máli í utanrmn. undir þagnarkvöðum og þeirri ákvörðun að ég geti ekki upplýst þingið og þjóðina

um það sem kemur þar fram um þessi fyrirtæki og annað sem í till. er. Þess vegna, herra forseti, óska ég eftir því, og ég tek það sérstaklega fram að ég vildi frekar að hæstv. forseti tæki sér umhugsunarfrest, að það verði úrskurðað að í þessu máli höfum við nm. í utanrmn. heimild til að leggja fram hliðstæð nál. með gögnum og fskj. og mönnum er heimilt að leggja fram varðandi öll önnur mál hér á Alþingi.