11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þau orð sem hér hafa fallið um leyndina annars vegar og opna starfsemi þingnefnda hins vegar skipta auðvitað meginmáli. Ég ítreka óskir um að skoðun í þessum efnum komi í ljós. En mér mundi nægja á þessu stigi málsins, að hæstv. utanrrh., sem er annars vegar yfirmaður utanríkismála í landinu og hins vegar flm. till. um að vísa málinu til utanrmn., gæfi þinginu álit sitt á því hvort þagnarskylda gildi í þessum efnum. Þegar menn flytja tillögur vita menn auðvitað hvað þeir eru að gera. Það mundi nægja mér á þessu stigi málsins ef hæstv. utanrrh. ríkisins tjáði þinginu hug sinn í þessum efnum. Eiga leyndarákvæðin við að því er varðar undirbúning að ákvörðuninni um hvort og með hverjum hætti þessi athugun fer fram? Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. Þegar menn flytja tillögur býr auðvitað að baki því hugsun, ég dreg það ekki í efa. Þess vegna væri afar ánægjulegt ef hæstv. utanrrh. segði þjóðþinginu hug sinn í þessu máli hér og nú.