11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

Um þingsköp

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er naumast leggjandi á þingheim að lengja þessar umr. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði mér upp hvað fyrir mér hefði vakað með till. minni. Það sem hann sagði um það efni var hrein hringavitleysa. Mér hefur ekki komið í hug nein leyndarskylda í sambandi við það, heldur var það, eins og ég tók fram í þeim fáu orðum sem ég sagði og áttu að vera rökstuðningur fyrir því að ég vildi láta vísa þessu til utanrmn., að ég taldi að eðli málsins samkv. ætti málið þar heima. Framkvæmdir og starfsemi Aðalverktaka byggjast á samningi, sem hefur verið gerður við varnarliðið, og þann samning gerði utanrrh. á sínum tíma.

Ég er ekki í utanríkismálanefnd, en á sæti á fundum hennar. Ég hef gert mér far um að reyna að veita henni allar þær upplýsingar sem farið hefur verið fram á, líka þær upplýsingar sem farið hefir verið fram á af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Ég er ekkert viss um að aðrar nefndir fái meiri upplýsingar en utanrmn. En ég vil segja það, að ekki mun af minni hálfu koma fram nein ósk um að leynd verði haldið yfir því sem kemur fram eða er lagt fram í sambandi við athugun utanrmn. á þessu máli. Það hefur aldrei vakað fyrir mér.

Hitt er að sjálfsögðu svo, að þar held ég að mundi alveg nákvæmlega sama gilda hvort sem málinu væri vísað til utanrmn. eða allshn., að þeir aðilar sem kunna að verða kallaðir fyrir kunna að leggja fram einhver skjöl eða eitthvað og geta sjálfsagt gert þau skjöl að trúnaðarmáli. Þá er það í valdi utanrmn. eða hverrar annarrar nefndar sem um er að ræða hvort hún vildi taka við þeim skjölum með þeim skilmálum. En hitt er svo augljóst mál að um það ætti ekki að þurfa að ræða, að þarna eiga í hlut einkaaðilar og þeir eiga auðvitað sinn rétt og geta óskað eftir því að trúnaður sé varðveittur um það sem þeir leggja fram. Slík atvik verða að sjálfsögðu ákvörðunarefni utanrmn. eða formanns hennar. En ég mun gera það sem ég get til að stuðla að því að utanrmn. fái í þessu máli eins og öðrum þær upplýsingar sem hún óskar eftir.