11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

27. mál, nefnd til að spyrja dómsmálaráðherra spurningar

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég sé að það situr varaforseti í forsetastól. Ég hafði rætt það við forseta Sþ. dómsmrh. yrði viðstaddur umr. af ástæðum sem ég held að hljóti að blasa við. Nú vildi ég spyrja herra forseta hvort hægt væri að verða við þessari ósk minni. (Forseti: Ég skal láta kanna það.) Ég bíð. (Forseti: Dómsmrh. gengur í salinn.)

Herra forseti. Ég þakka fyrir skjóta og góða afgreiðslu míns erindis. Þetta er till. til þál. um skipan nefndar til þess að spyrja dómsmrh. spurningar. Ég vek athygli á því að það er rangprentað í dagskrá þingsins dag eftir dag. Það hefur verið notað fleirtöluorð, en eins og hér sést er um að ræða eina spurningu. Þetta er 27. mál þingsins.

Herra forseti Ályktunargreinin er svofelld: „Alþingi ályktar að skipa tveggja manna nefnd, sem kosin verði hlutfallskosningu á Alþingi, til þess að spyrja dómsmrh. eftirfarandi spurningar: Hefur dómsmrh. talið ástæðu til þess að gera athugasemdir við embættisfærslu sýslumannsins á Höfn í Hornafirði hinn 18. ágúst s.l.? Nefndin verði ólaunuð.“

Nú er það svo, herra forseti, að eins og öllum hv. þm. er auðvitað ljóst, þá er þessi þáltill. fram borin einvörðungu af tæknilegum ástæðum, til þess að koma máli hér á dagskrá eftir að það hafði gerst á hinu háa Alþingi hinn 13. okt að meiri hluti alþm. ákvað að koma í veg fyrir viðkomandi fsp. Og ég sé, herra forseti, að hv. alþm. margir hverjir halda áfram andstöðu sinni við málið með fjarveru sinni. Ég vil, herra forseti, fyrir þingtíðindin telja upp hverjir eru staddir í salnum. Það eru hv. þm. Steinþór Gestsson, hv. þm. Níels Á. Lund, hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson, hæstv. forsrh., hæstv. dómsmrh., hv. þm. Jón Helgason, hv. þm. Egill Jónsson, hv. þm. Hannes Baldvinsson, hv. þm. Albert Guðmundsson, hv. þm. Eiður Guðnason, hv. þm. Halldór Blöndal, hv. þm. Árni Gunnarsson og hv. þm. Páll Pétursson. (Gripið fram í.) Og hv. þm. Guðrún Helgadóttir er komin.

Þetta geri ég vegna þess, herra forseti, að það eru mjög alvarleg tíðindi þegar fsp. hefur verið bönnuð, eins og gerðist hérna. Ég vil ekki rekja það í smáatriðum, aðeins undirstrika það að mönnum kann að þykja við fyrstu sýn skrýtið að álykta um skipan nefndar til þess að spyrja dómsmrh. spurningar. En ég held að við aðra sýn sjái allir til hvers leikurinn er gerður. Þetta er leyfilegt samkv. þingsköpum. Á hinn bóginn er þingið auðvitað í sínum fulla rétti að hafna fsp. Tæknilega hafa báðir aðilar rétt fyrir sér.

Nú vildi ég mælast til þess við hæstv. dómsmrh. að hann gerði okkur öllum þann þingræðislega greiða að svara efnislega títtnefndri spurningu hér í umr. Í upphafi grg. þáltill. segir: „Ekki má ólíklegt telja að till. verði dregin til baka þegar hún hefur fengist rædd“ og þar með er málið úr sögunni af minni hálfu. Auðvitað þykir mér leiðinlegt — ég endurtek og undirstrika: leiðinlegt að hafa séð mig knúinn til að flytja till. með þessum hætti, sem hálft í hvoru er auðvitað kátlegt En ástæðan var sem sagt þessi: Hin aðgerðin var réttur meiri hlutans og á hinn bóginn er þetta réttur minn. Það að nefndin skuli vera ólaunuð, eins og segir í grg., er ekki heldur grín. Það er fram sett svo vegna þess að samkv. þingsköpum eru þáltill. sem ekki kosta almannafé einfaldari í meðfórum þingsins heldur en þáltill. sem kosta almannafé. Því er sú setning sett þarna inn að ráði fróðustu lögfræðinga.

Ég vil ekki vera að rifja upp það heldur dapurlega atvik, sem hér átti sér stað þegar fsp. mín var bönnuð, en vænti þess fastlega að þetta mál, sem er mikilvægt, fái hér kurteislega meðferð, það fái umr., ekki langa en efnisríka sem því ber, og þá er það úr sögunni af minni hálfu.

Ég vil nú, herra forseti, fara nokkrum orðum um efnisatriði málsins. Kjarni málsins er sá, að það gerðust hörmuleg tíðindi á suðausturhorni landsins 18. ágúst s.l., hörmulegri en tárum taki. Slíkir atburðir gerast og enginn virðist fá gert við því. Ég hef ekki fremur en aðrir löngun til að ræða það mál frekar. Það eru mannleg örlög sem enginn ræður við. En frá voveiflegum atburðum er allajafna sagt í fjölmiðlum. Og hvort sem um er að ræða fjölmiðla sem eru kostaðir af almannafé eða hina, sem taldir eru „frjálsir“ og við t.d. sem hluti af almannavaldi höfum fyrir vikið ekkert yfir að segja, skiptir máli með hverjum hætti viðbrögð þeirra eru. Ég vil undirstrika mjög rækilega að það er vitaskuld mín skoðun að ekkert sé eðlilegra en að þeir sem við fjölmiðla starfa leiti upplýsinga um slík mál og öll önnur. Það má ekki misskilja með einum eða öðrum hætti

Nú gerðist það að kl. hálf ellefu að morgni eða þar um bil, ég vísa í fskj. með þessu plaggi, var handtekinn maður. Þá er hann eðli málsins samkv. hinn grunaði. Þessi maður er færður til yfirheyrslu. Þeir sem stjórna rannsókn málsins eru starfsmenn Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þennan sama dag berst á öldum hljóðvakans, í Ríkisútvarpi/hljóðvarpi viðtal, sem er útvarpað kl. hálf eitt, við sýslumanninn á Höfn í Hornafirði Þetta viðtal er til uppi í Ríkisútvarpi Ég vil ekki vera að lesa af því afskrift hér, en fréttastofa útvarpsins getur látið hana í té, ef hv. þm. vilja kynna sér viðtalið. Hún lét mér hana í té.

Í þessu viðtali koma fram upplýsingar sem kalla má framburð hins grunaða. Hann gefur ýmsar skýringar, m.a. um neyslu eiturefna, að á sig hafi verið ráðist o.s.frv. Ég þykist þess fullviss að hæstv. dómsmrh. hafi kynnt sér þetta efnislega og þekki nákvæmlega hvað þarna gerðist.

En málið er ekki þetta. Málið er það að sá aðili sem er að yfirheyra manninn er Rannsóknarlögregla ríkisins, ekki sýslumaðurinn. Og það sem meira er: Þegar viðtalið er tekið upp og því síðan útvarpað, þá stendur yfirheyrslan enn, henni er ekki lokið, það er ekki búið að yfirheyra manninn. Eins og fram kemur í grg. hófst yfirheyrslan kl. hálf ellefu og henni lauk ekki fyrr en kl. hálf tvö. Meðan á yfirheyrslunni stendur kemur yfirvaldið á Höfn í Hornafirði og greinir frá smáatriðum þess sem þarna átti sér stað. Ég fullyrði, herra forseti, að þetta mun einsdæmi í íslenskri réttarsögu. Síðan bætist það við að sá, sem talað er við, er — gagnstætt því sem þjóðin hélt — ekki aðili að málinu.

Mínir löglærðu ráðgjafar hafa haft mjög stór orð um þá atburði sem þarna áttu sér stað. Ég vil, herra forseti, lesa fskj. frá Rannsóknarlögreglu ríkisins sem fylgir þessari till. Það er dagsett 14. okt. 1982, kl. 11.20. Ég vek athygli á því að það er daginn eftir að fsp. minni hér var hafnað. Það er Grétar Sæmundsson rannsóknarlögreglumaður sem þetta skrifar: „Skýrsla varðandi fsp. Vilmundar Gylfasonar alþm. vegna rannsóknar á svonefndu „Skaftafellsmáli.“ “

Fyrsta spurning mín var: Hvenær fór handtaka fram? Rannsóknarlögreglumaðurinn svarar: „Tveir menn úr hjálparsveit skáta í Hafnarfirði fundu hinn grunaða í hellisskúta við rætur Hafrafells. Hinn grunaði fylgdi þeim sjálfviljugur niður á vegarslóða þar sem sýslumaður Austur-Skaftafellssýslu var staddur. Hinn grunaði var fluttur í bifreið sýslumanns í þjónustumiðstöðina í Skaftafelli. Í bifreiðinni á þeirri leið var auk grunaða sýslumaður sjálfur og lögregla. Nákvæm tímasetning er ekki til á því hvenær hinn grunaði fannst né hvenær komið var með hann til sýslumanns, en kl. var 10.35 þann 18. ágúst 1982 þegar komið var með þann grunaða í þjónustumiðstöðina. Áætla má að ekki hafi liðið meira en 10 mín. frá því maðurinn fannst og þar til komið var með hinn grunaða í þjónustumiðstöðina.“

Spurning mín númer tvö: Var manninum kynnt réttarstaða hans? Rannsóknarlögreglumaðurinn svarar: „Þrír rannsóknarlögreglumenn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins voru staddir í þjónustumiðstöðinni þegar komið var með hinn grunaða þangað. Tveir af þeim fóru þegar og tilkynntu sambýliskonu hins grunaða að hann væri fundinn og hvar hann væri. Undirritaður hóf þegar frumyfirheyrslu. Í upphafi var kannað hvort hann hefði óskir um að fá einhverja næringu og óskum hans í því efni fullnægt strax á meðan á yfirheyrslu stóð. Honum var þá kynnt hvað hann væri grunaður um og í beinu framhaldi af því kynnt réttarstaða grunaðra manna svo sem lög mæla fyrir um. Þá var hann spurður hvort hann væri þá þegar tilbúinn til að tjá sig um sakarefnið og kvaðst hann tilbúinn til þess. Að því búnu skýrði hann sjálfstætt frá helstu atriðum málsins. Yfirheyrsla þessi stóð frá því kl. 10.35 til“ — og ég undirstrika, herra dómsmrh.: „13.30. Viðstaddur yfirheyrsluna allan tímann“ — ég undirstrika, herra dómsmrh.: „sem vottur var lögreglumaður frá Höfn. Auk þess“ — og svo undirstrika ég þrítekið: „Auk þess var sýslumaður Austur-Skaftfellinga viðstaddur í upphafi yfirheyrslunnar“ — ég undirstrika: „í upphafi yfirheyrslunnar þegar hinn grunaði skýrði sjálfstætt frá.“

Ég dreg saman: Sýslumaður á Höfn í Hornafirði, sem er viðstaddur yfirheyrslu í harmleik, fer úr henni þegar þriðjungur er búinn af henni til að greina þjóðinni frá. Það er þetta, herra dómsmrh., sem mínir ráðgjafar hafa sagt að nái ekki nokkurri átt.

Þriðja spurning mín: Hvað var klukkan þegar fyrsta frásögn birtist í fjölmiðlum? Rannsóknarlögreglumaðurinn svarar: „Hér mun átt við frásögn í fjölmiðlum af framburði mannsins. Í þessu skyni skal upplýst að þegar yfirheyrslu var lokið kl. 13.30 hafði undirritaður símasamband við Þóri Oddsson vararannsóknarlögreglustjóra, og skýrði Þórir þá frá að í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins hefði verið frásögn af framburði hins grunaða.“ Sjá menn hvað hér hefur gerst? „Því má hér bæta við,“ segir Rannsóknarlögregla ríkisins, „að þrír rannsóknarlögreglumenn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins voru sendir á staðinn til rannsóknar málsins. Svo sem starfsreglur Rannsóknarlögreglu ríkisins mæla fyrir um gáfu þessir rannsóknarlögreglumenn engar upplýsingar um málið til fréttamanna, en vísuðu fyrirspurnum til Þóris Oddssonar vararannsóknarlögreglustjóra.“

Nú vil ég taka sérstaklega fram í fyrsta lagi að þessi skýrsla er mjög nákvæm. Hún er til mikillar fyrirmyndar um vinnubrögð. Ég vil einnig taka fram þá persónulegu skoðun mína að það að koma á fót Rannsóknarlögreglu ríkisins hafi verið gífurlegt framfaraspor. Það spor var stigið árið 1977 eftir miklar umr. sem urðu um dómsmál í þjóðfélaginu eins og menn kannske muna. Það var gífurlegt framfaraspor einmitt í málum af þessu tagi sem ætla má að lúti ekki t.d. sýslumörkum. Sú stofnun hefur alla tíð unnið þannig að hennar starfsreglur, hennar samskipti við fjölmiðla eru til mikillar fyrirmyndar. Þó vil ég gera þar eina mjög alvarlega undantekningu.

Sumarið 1981 gerðust hörmuleg tíðindi hér vestur á Melum. Það var sams konar atburður og hér er um rætt og ég vil ekki hafa fleiri orð um það mál nema að þá fóru svokallaðir „frjálsir fjölmiðlar“ af stað og veltu sér upp úr því, með hinum ósæmilegasta hætti að minni hyggju, að hinn látni maður hneigðist að sama kyni og hann var sjálfur. Og Rannsóknarlögreglan, hugsanlega undir áhrifum frá fjölmiðlum, sendi frá sér skýrslu þar sem þessi staðreynd var mjög undirstrikuð og einnig rökstuðningur hins grunaða.

Þetta voru hrapalleg mistök hjá Rannsóknarlögreglunni. Ég endurtek að það er persónuleg skoðun mín að þetta hafi verið gert undir áhrifum frá fjölmiðlum, en þar undanskil ég t.d. Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og Þjóðviljann. Ég undirstrika mjög rækilega að ég held að starfsmenn hjá Rannsóknarlögreglunni líti á þetta sem skelfilegustu mistök. Við því er þá auðvitað ekkert meira að segja. Þetta er búið og gert. En eitt, herra dómsmrh., vil ég undirstrika mjög rækilega, sem ég endurtek líka að er persónuleg skoðun mín. Það er það að þetta er lítið þjóðfélag sem við búum í, þó að við séum að verða kvartmilljón karla og kvenna, og í litlum samfélögum er ákaflega auðvelt að vekja upp fordóma hvers konar, ákaflega auðveli. Það þekkjum við úr okkar eigin sögu meðan við vorum smærri að öllu leyti.

Það fólk sem hér á hlut að máli á eitt sameiginlegt. Það er erlent. Við mundum aldrei tala svona hver um annan. En menn verða glannafengnari gagnvart útlendingum. Í fyrra tilvikinu var um það að ræða að einstaklingurinn hneigðist að sama kyni og hann er sjálfur. Við vitum að svo háttar um ákveðið hlutfall. Í seinna tilvikinu var um það að ræða — og það er það sem hér er um spurt — að framburðurinn, sem sýslumaðurinn bar í þjóðina meðan enn stóð á yfirheyrslu, var um hassneyslu. Það eru ákaflega margir á Íslandi fúsir að trúa því að fólk, sem reykir hass eða hvaða eiturefni önnur, sé líklegra en aðrir til að gera eitthvað sem siðamælikvarðar okkar segja að það eigi ekki að gera. Það er það sem er málið. Og ég dreg enga dul á það persónulega að ég varð gripinn skelfingu þegar ég heyrði þetta í hádegisfréttum. Þetta var endurtekið um kvöldið, endurtekið í sjónvarpinu, alltaf eins, og heimildin sú sama, maður sem er grunaður og fyrir vikið hlýtur að vera undir tilfinningaálagi, að ekki sé meira sagt.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef lýst og reynt að rökstyðja, að sýslumaðurinn á Höfn í Hornafirði hafi framið ægileg embættisafglöp með þessu. Vitaskuld geta menn hlaupið á sig, og get ég þar trútt um talað, þegar menn eru að flýta sér af einhverjum ástæðum. Ég vitna bara í umr. hér áðan, af því að hún kom mér alveg á óvart. En sýslumaður er yfirvald hins þriðja arms ríkisvaldsins, þ.e. dómskerfisins, og slíkir menn mega ekki hlaupa á sig í málum af þessu tagi. Það sem gerist, herra dómsmrh., er það að undirmaður þinn á Höfn í Hornafirði gerist einhvers konar blaðafulltrúi hins grunaða. Slíkt atferli ber ekki síst að varast í málum þar sem í hlut eiga minnihlutahópar sem mjög eiga í vök að verjast í þjóðfélagi okkar. Víða erlendis hefur vaknað miklu meiri skilningur á því en áður að minnihlutahópar eiga líka rétt. En það er ekki enn komið svo hjá okkur. Það verður fyrr en síðar. Annars vegar fyrra dæmið sem var nefnt, hins vegar yfirlýsingarnar um hassneyslu. Og það er miklu meira eins og menn muna. Ég vísa á þau gögn sem til eru hjá Ríkisútvarpinu um þetta. Ég get lánað mönnum þetta líka ef þeir vilja. Þetta er kjarni málsins.

Í minni fyrri spurningu hafði ég komist svo að orði, herra forseti: Hefur dómsmrh. áminnt? Ég féllst á það mat hæstv. forseta Jóns Helgasonar að það mætti skilja sem hlutdræga spurningu. Því var hún umorðuð svo:

Hefur dómsmrh. talið ástæðu til þess að gera athugasemdir við embættisfærslu sýslumannsins á Höfn í Hornafirði?

Hefði ég setið í dómsmrn. og notið samstarfs manna, sem kunna betur til smáatriða heldur en ég og eftir að flett hefði verið upp í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og öðru slíku, þá hefði þessum sýslumanni daginn eftir verið sent mjög alvarleg áminningarbréf úr rn. Jafnframt hefðu fjölmiðlar verið látnir vita um þá skoðun rn. að þetta hefði verið ósæmileg framkoma, auk þess óleyfileg vegna tímasetningar, en sér í lagi til þess fallin að spila á strengi fordóma. Síðan hefði verið látið þar við sitja.

Ég skrifaði raunar blaðagrein kvöldið 18. ágúst eftir að ég var búinn að hlusta — eins og þjóðin öll — á þessa frétt. Þar sagði ég að sýslumaður ætti að víkja úr embætti. Og sem almennur borgari er ég þeirrar skoðunar. En rn. getur það auðvitað ekki sem slíkt. Það þarf að fara hægar í sakirnar. Ég skil það mætavel. En nú er það eitt hlutverk ráðuneyta að fjalla um og móta það sem við getum kallað opinberar skoðanir á Íslandi. Mér er það ljóst að opinberar skoðanir eru auðvitað allt annað en einkamál fólks. Þar verður að skilja mjög skýrt á milli. En það verður að vera opinber skoðun á Íslandi að hér hafi verið farið rangt að, hér hafi verið rangt aðhafst tæknilega talað — og það sem meira er, hér hafi verið spilað á hugsanlega fordóma einhverra, sem ég svo sem veit ekki hverjir eru, og undirstrika það. En sá kjarni málsins verður að vera alveg ljós og klár, að við viljum þetta ekki. Við viljum ekki umfjöllun af þessu tagi um nýlátið fólk. Og við verðum líka að gæta að því, að útlendingar í þessu landi eiga sér sama rétt og innlent fólk. Það er engin afsökun að í þessum tilfellum tveimur átti erlent fólk hlut að máli. Það eru líka tilfinningar í París og Róm.

Það er þetta, herra forseti, sem er kjarni þessa máls. Okkur er öllum ljóst að það voru hroðaleg mistök að banna þessa fsp. á sínum tíma. En við skulum ekki gera meira mál úr því. Slíkir hlutir gerast. En vegna þess sem ég hef hér sagt tel ég bæði rétt og skylt að hæstv. dómsmrh. láti uppi sínar skoðanir á þessum efnum. Helst óska ég auðvitað eftir því að þær færu nokkurn veginn saman við mínar. En ég bið um að að vel og virðulega sé haldið á þessu máli. Mér voru gerðar upp þær hvatir hér að nú ætlaði ég að fara að velta mér upp úr einhverju o.s.frv. Þeir fáu þm. sem á mál mitt hlýða vita auðvitað og skilja að svo er alls ekki. Þetta er miklu alvarlegra mál en svo. Ég vil sérstaklega biðja hæstv. dómsmrh. að halda þessari umr. í þeim virðingarstíl sem henni ber, því að hér er um að ræða mikið alvörumál. Það er ekki um það að ræða að einhver sé að elta persónu tiltekins embættismanns. Það viljum við ekki og það á heldur ekki að gera og það er ekki gert. Það er um það að ræða að embættið sem slíkt gerði hroðaleg mistök. Það er það sem er kjarni málsins. Og staða réttarkerfisins er þannig að hæstv. dómsmrh. er í þeim sporum að geta leiðrétt þessi mistök, ekki þannig að þau út af fyrir sig verði tekin til baka, heldur það fordæmi sem við erum að undirstrika. Og því hef ég nefnt söguna af Rannsóknarlögreglunni, að þó að um annan aðila sé þar að ræða þá eru hliðstæðurnar ótrúlegar í þessu.

Ég vil sérstaklega taka fram að einn fjölmiðill öðrum fremur stóð sig allt öðruvísi í þessu máli. Það er Morgunblaðið. Ef menn bera annars vegar saman þá atburði sem ég hér hef verið að lýsa og hins vegar fréttafrásagnir Morgunblaðsins, þá held ég að menn skilji enn betur hvað við er átt. Ég vill einnig segja að það er oft í svona málum sem styrkur og verðmætamat Morgunblaðsins stendur nokkuð sterkum fótum. Það finnst mér staðreynd.

Herra forseti. Ég hef reynt að gera grein fyrir efnisatriðum þessa máls eins vel og ég kann. Ég óska eftir svörum. Sjálfur ætlaði ég aðeins að þetta yrði fsp. Þær eru þannig að þeim eru sett takmörk. Sú umr. hefði orðið með þessum hætti nema styttri. En gott og vel. Það nær ekki lengra. Ég hef af ásettu ráði látið tvennt eftir liggja. Annars vegar atburðina sem gerðust hér þegar þingið tók þá ákvörðun að banna þetta mál. Við skulum láta það eiga sig, það er búið. Hins vegar baksviðið sjálft. Það hefur aldrei verið minn vilji, hvað sem einhverjir andstæðingar mínir í skoðunum segja, að velta mér upp úr slíku. Það gera menn ekki. Það er embættið, sem mér finnst fremja afglöpin, sem ég spyr hæstv. dómsmrh. um, því að þar á undirmaður hans í hlut. Sjálfur hefði ég áminnt mjög rækilega, látið fjölmiðla um það vita og látið síðan þar við sit ja. Ég bíð og vænti svars hæstv. ráðh. og vona að skoðanir okkar fari saman í þessu máli.