11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

27. mál, nefnd til að spyrja dómsmálaráðherra spurningar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða um þátt umrædds sýslumanns sem blaðafulltrúa. Ég tek undir flest af því sem flm. hefur sagt um það. Að sjálfsögðu ber öllum að fara með gát í málum eins og hér eru á dagskrá, hvort sem þeir eru opinberir starfsmenn eða ekki.

Ég fagna því, að það hefur nú verið staðfest í rannsókn þessa máls, sem hér er rætt, og birtist á 2. síðu Dagblaðsins í dag, að ekkert hefur verið um hassneyslu eða neyslu eiturlyfja hjá umræddum systrum. Það var að vísu staðfest strax við rannsókn á farangri þeirra. Ég var beðinn um að aðstoða við að leita uppi þann farangur sem systur þessar höfðu geymt hér í Reykjavík meðan þær ferðuðust um landið. Við rannsókn á þeim farangri, sem þær höfðu skilið eftir, kom heldur ekkert grunsamlegt í ljós.

Það vill svo til, að það varð hlutskipti mitt á þeim tíma að hafa samband við eftirlifandi systur hinnar látnu tvisvar eða oftar á dag frá því að hún kom á Borgarspítalann í Reykjavík. Þannig myndaðist náið trúnaðarsamband milli mín og hennar. Fylgdist ég því náið með líðan hennar og því sem henni var efst í huga. Ég verð að segja alveg eins og er, að við kynni mín af hinni eftirlifandi systur var mat mitt á henni að hún væri ákaflega traustvekjandi persóna. Framlag mitt í þessar umr. er vissar efndir á persónulegum greiða, sem hún bað mig fyrir að lokum, en það var að skila kveðjum til allra þeirra sem hefðu unnið að þessu hörmulega máli. Ég þýddi fyrir hana allar þær greinar sem birtust um þetta mál og ég sagði henni frá athugasemdum sem gerðar höfðu verið við upplýsingar um þetta mál. Að sjálfsögðu hafði hún sem einstaklingur ekkert við þær að athuga.

Sama má segja um foreldra þessara stúlkna og bróður, sem komu hingað, en við þau ræddi ég opinskátt um allt sem fram hafði komið á prenti og allt sem ég vissi um þetta mál, sem var orðið nokkuð mikið á þeim tíma. Ég verð að segja alveg eins og er, að þetta fólk hefði getað komið héðan beint ofan úr sveit. Þetta var traustvekjandi sveitafólk. Þegar ég sá foreldra stúlkunnar skildi ég betur persónuleika hennar, því það var augljóst að hún hafði fengið gott veganesti frá góðu heimili til viðbótar við mjög góða menntun.

Bæði stúlkan sjálf, bróðir hennar og foreldrar notuðu sérstaklega hlý orð í skilaboðum sínum og þakklæti til starfsmanna Rannsóknarlögreglunnar fyrir þeirra þátt í málinu.

Ég verð að segja alveg eins og er, af því að ég fylgdist þetta náið með, — ég held að enginn einstaklingur hafi fylgst nánar með þessu fólki en ég sem heiðurskonsúll Frakklands á þessu svæði, og mér er ljúft að segja það, — að öll starfsaðferð Rannsóknarlögreglunnar var okkur Íslendingum til mikils sóma. Ég get bætt því við, að Rannsóknarlögreglan stóð þannig að málum að hún fór langt út fyrir sitt starfssvið til að gera bæði stúlkunni sjálfri, foreldrum hennar og bróður allt þetta erfiða mál og dvöl þeirra hér eins léttbæra og nokkur tök voru á.

Þessum skilaboðum kom ég áleiðis símleiðis til hæstv. dómsmrh. á réttum tíma. Að vísu sagði ég dómsmrh. að fyrra bragði að ég mundi staðfesta þetta bréflega, en því miður hef ég ekki gert það. En ég vil taka það fram, að þessar kveðjur og þetta þakklæti var líka ætlað þeim sem störfuðu að þessu máli á fyrsta stigi fyrir austan fjall.

Það verð ég líka að segja hér um dvöl stúlkunnar, sem fór héðan í sjúkraflugvél, að hún hafði haft mikil áhrif á þær systur báðar áður en þessi hörmulegi atburður varð. Hún tók það sérstaklega fram, að atburðurinn sem slíkur hefði ekki áhrif á afstöðu sína til íslensku þjóðarinnar né landsins, þótt öll fjölskyldan harmaði hvernig þessari skemmtiför lauk. Þau báru engan kala til lands né þjóðar við brottförina frá Reykjavíkurflugvelli.

Ég vil bæta því við, að þau voru afskaplega þakklát fyrir alla þá samúð og þá góðu aðhlynningu sem þau höfðu notið meðan þau voru hér, bæði frá starfsfólki Borgarspítalans og öðru fólki, og samúðarkveðjur þökkuðu þau frá fólki víðs vegar úr öllum landshlutum. Ég tel rétt að þetta komi hér fram, að kveðjur og þessi orð, sem ég hef látið falla hér, voru til Rannsóknarlögreglunnar og sýslumanns og hans starfsfólks og allra þeirra sem tóku þátt í þeirri vinnu sem því miður varð að vinna fyrir austan fjall og síðast en ekki síst þökkuðu þau þá mannlegu meðferð og frábæru tillitssemi sem Rannsóknarlögregla ríkisins sýndi við alla rannsókn þessa máls.