11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

27. mál, nefnd til að spyrja dómsmálaráðherra spurningar

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í rökræður um þetta mál við hv. 4. þm. Reykv., ég held að reynsla síðustu vikna hafi sýnt að það beri ekki mikinn árangur, en ég vil aðeins benda á örfá atriði í þessu sambandi.

Í 32. gr. þingskapa er sú skylda lögð á forseta að hann skuli úrskurða hvort hann telji að fsp. sem þm. hyggjast leggja fyrir Alþingi séu innan þeirra marka sem þingsköp setja. Þarna er lagt á hann að meta þetta og þingsköpin gera ráð fyrir því. Ég er ennþá sömu skoðunar og ég var þá, að ég tel að sú fsp. sem mér barst í hendur frá hv. 4. þm. Reykv. sé ekki innan þessara marka, en það takmarkar vitanlega ekkert rétt þm. til að bera hana fram eða skjóta því til úrskurðar þingsins, eins og þingsköpin gera ráð fyrir, og það var gert. Forseti hefur því ekki neina möguleika á eigin spýtur að hefta málfrelsi þm. Það er þingið sem kveður upp sinn dóm, eins og gert var.

Það gerist oft að þær fsp. sem mér eru fengnar eru ekki að öllu leyti í samræmi við þessi ákvæði þingskapa. Ég ræði það við fyrirspyrjendur og yfirleitt er fsp. breytt þannig að við erum sammála um það. Því miður ræddi ég einnig við hv. 4. þm. Reykv. um þetta og það virðist hafa valdið alls konar misskilningi, svo vægt sé til orða tekið, sem fram kemur m.a. í grg. þessarar þáltill. Þau atriði sem mér eru þar borin á brýn tel ég sem sagt af misskilningi stafa og vil því vísa þeim á bug. En eins og ég sagði áðan mun ég að öðru leyti ekki fara að rökræða þetta mál hér.