11.11.1982
Sameinað þing: 16. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

44. mál, endurreisn Reykholtsstaðar

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 44 um endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar í Borgarfirði, sem við allir þm. Vesturlandskjördæmis flytjum sameiginlega. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa nú þegar samræmdar framkvæmdir við endurreisn og uppbyggingu Reykholtsstaðar í Borgarfirði í samræmi við tillögur stjórnskipaðrar nefndar, sem skipuð var 18. ágúst 1980.

Verulegt fjármagn verði veitt til þessa verkefnis á fjárlögum 1983 til uppbyggingar skólans og til annarra framkvæmda á staðnum.

Stefnt skal að því, að framkvæmda- og kostnaðaráætlun um uppbyggingu á staðnum í heild verði tilbúin áður en gengið verður frá fjárlagagerð fyrir árið 1984“.

Eins og hinar fjölmörgu grg. og samþykktir, sem fylgja þáltill., bera með sér er uppbygging Reykholts stórmál, ekki aðeins fyrir Borgarfjarðarhérað eða Vesturlandskjördæmi heldur fyrir þjóðina í heild, slík er sögufrægð þessa staðar, slíkt er menningarlegt gildi staðarins fyrir okkur sem þjóð.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að lesa hér úr grg. eða réttara sagt áfangaskýrslu Reykholtsnefndar, en þar stendur m.a.: „Hinn 18. ágúst 1980 skipaði menntmrh., Ingvar Gíslason, nefnd til þess að gera tillögur um, hvernig haga skuli framkvæmd þeirra mála í Reykholtsstað, sem varða fleiri en eitt ráðuneyti, svo sem skólp-, vatns- og hitaveitumála, skipulags staðarins, leyfis til bygginga, atvinnurekstrar og fleira. Einnig var nefndin beðin að semja yfirlit um hvaða umbætur hún teldi þurfa að gera á staðnum og í hvaða röð ætti að framkvæma.

Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir menn: Rúnar Guðjónsson sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, formaður, skipaður án tilnefningar, Þorleifur Pálsson deildarstjóri og séra Geir Waage sóknarprestur, samkv. tilnefningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Haukur Jörundarson skrifstofustjóri, samkv. tilnefningu landbrn., Snorri Þorsteinsson fræðslustjóri, samkv. tilnefningu skólanefndar Héraðsskólans í Reykholti, séra Jón Einarsson sóknarprestur samkv. tilnefningu Reykholtsnefndar, og Ólafur Þórðarson, þáv. skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti, skipaður án tilnefningar...

... Nefndin hefur aflað ýmissa gagna, svo sem allra þinglýstra eignar- og afnotaheimilda að jörðinni Reykholti, ljósrita af úttektarbókum prófastsdæmisins, fundargerða skólanefndar Reykholtsskóla, loftmyndar af jörðinni, tillagna að skipulagsuppdráttum, grg. Fjarhitunar hf. um hitaveitu í Reykholti og margra fleiri gagna, sem ekki verða hér talin upp...

... Jörðin Reykholt er prestsseturs- og kirkjujörð í eigu ríkisins.“ — Eins og segir í áfangaskýrslunni eru hér taldir upp allir þeir lóðaleigusamningar, sem gerðir hafa verið um þessa jörð frá upphafi til okkar daga, sem ég mun ekki tilgreina hér.

En svo ég lesi áfram úr þessari áfangaskýrslu til að skýra þetta mál, þá stendur hér:

„Svo sem fyrr hefur fram komið hefur nefndin haldið nokkra fundi og rætt málin allítarlega. Einnig hefur verið leitað eftir upplýsingum og ábendingum frá ýmsum aðilum, sem málið varðar. Miklum tíma á fundum nefndarinnar hefur verið varið til umræðna um það, hver eða hverjir skuli í framtíðinni hafa forræði á Reykholtsstað, sem í dag er prestssetur og menntasetur, auk þess sem þar er stundaður búskapur. Þar sem nefndin taldi að forræðismálin hefðu grundvallarþýðingu fyrir áframhaldandi störf hennar, enda runnu leigusamningar þeir, sem gerðir voru á sínum tíma við héraðsskólann og Þóri heitinn Steinþórsson, út s.l. vor, ritaði formaður nefndarinnar bréf til dóms- og kirkjumrh. sem forráðaaðila staðarins og óskaði eftir því, að ráðuneytið tjáði nefndinni hugmyndir sínar og áform varðandi hugsanlega endurnýjun leigusamninga. Formaður og ritari nefndarinnar hafa einnig átt viðræður við dóms- og kirkjumrh. og ráðuneytisstjóra menntmrn. um þessi mál. Viðræður munu og hafa átt sér stað milli dóms- og kirkjumrn. og menntmrn., en niðurstöður þeirra viðræðna hafa ekki borist nefndinni né heldur svör dóms- og kirkjumrn.

Augljóst virðist vera, að það hefur háð þróun staðarins hvað varðar framkvæmdir og umhirðu, að skort hefur glögg skil lands milli notenda, svo og það, að engum tilteknum ábyrgum aðila hefur verið falið að hafa á hendi heildarstjórn og eftirlit með framkvæmdum og umhirðu á staðnum.“

Þá vil ég aðeins koma hér inn á það sem nefndin, sem gerði þessa áfangaskýrslu, hefur dregið saman sem aðalatriði þessa máls og eru till. hennar, ef það má skoða það svo. Það er í fyrsta lagi landnýting jarðarinnar.

Nefndin hefur lagt til að skólinn fái til afnota allt það land sem hann þarfnast til alhliða skólastarfs og uppbyggingar hvað varðar skólamannvirki, útivistarsvæði, kennarabústaði og hótelrekstur. Landsvæði þetta verði mælt út og skýrt afmarkað. Um stærð landsins fari að öðru leyti eftir samkomulagi forráðaaðila staðarins.

Hlíðin norðan og ofan byggðarinnar í Reykholti verði afgirt og friðuð og tekin til skógræktar.

Ríflegt landssvæði vestan núverandi kirkju og kirkjugarðs verði ætlað sem uppbyggingar- og athafnasvæði vegna prestsseturshúss, kirkju og kirkjugarðs.

Allt annað land Reykholts tilheyri prestssetrinu og sæti umsjá og ráðstöfun sóknarprests, t.d. til búskapar eða eins og tíðkast um aðrar prestssetursjarðir í landinu. Ber þó að leggja ríka áherslu á að búskapur verði aldrei stundaður með þeim hætti að til vansæmdar verði Reykholtsstað hvað varðar umgengni og umhirðu.

Telji forráðaaðilar staðarins nauðsynlegt að taka frá sérstaka landsspildu eða lóð undir mannvirki, sem reist kynnu að verða, tengd nafni Snorra Sturlusonar, eða undir arðvænleg atvinnufyrirtæki, t.d. í tengslum við jarðhita, enda rynni allur arður til uppbyggingar á staðnum, þá skal þeirri spildu eða lóð haldið eftir þegar sóknarpresti verður afhent jörðin.

Í öðru lagi fjallar áfanganefndin um skipulag staðarins. Þar segir: „Skipulagsstjóra ríkisins verði falið að láta gera heildarskipulag fyrir Reykholtsstað, sem síðan hljóti staðfestingu þar til bærra aðila.

Við gerð skiputagsins verði eftirfarandi haft í huga: Vegakerfið heima á staðnum verði endurskipulagt þannig að lokað verði fyrir hringakstur um staðinn og séð verði fyrir nægum bílastæðum við skóla og kirkju.

Gert verði ráð fyrir nýrri kirkju og nýjum kirkjugarði á svæði vestan núverandi kirkju, svo sem áður var lýst. Gert verði ráð fyrir Snorrastofu og/eða minjasafni.

Gert verði ráð fyrir viðbótarskólamannvirkjum, og ber þá og að hafa í huga að skólamannvirki eru að sumarlagi notuð til hótelrekstrar.

Fenginn verði viðurkenndur skrúðgarða- eða landslagsarkitekt til að skipuleggja fegrun staðarins og leggja á ráðin um lagfæringu Snorragarðs.“

Um mannvirkjagerð segir nefndin: „Lokið verði hið fyrsta við lagfæringu þá, sem hafin er á prestsseturshúsi.“ — Þess má geta í framhjáhlaupi, að lokið er við að endurbyggja prestsseturshúsið að utan og er það til mikilla bóta og hefur sett svip á staðinn.

„Hafist verði fljótlega handa um byggingu nýrrar kirkju í Reykholti, enda er hin gamla núverandi kirkja orðin of lítil og léleg til að standast kröfur tímans. Bygging kirkjunnar verði að hluta kostuð af almannafé.

Hafist verði handa um byggingu sérstakrar Snorrastofu og/eða Snorraminjasafns í Reykholti, þar sem aðstaða gæti verið fyrir norræna fræðimenn til dvalar og fræðistarfa.

Vinda þarf bráðan bug að byggingu þeirra skólamannvirkja, sem fyrirhugað hefur verið að reisa og sárlega vantar, svo sem A-álmu skólans, íþróttahús og sundlaug.

Athafnasvæði skóla og kirkju heima á staðnum verði afgirt með vandaðri girðingu.“

Um veitumál segir nefndin: „Fela þarf sérfræðingum úttekt veitumannvirkja í Reykholti og hönnun nauðsynlegra endurbóta og gerð kostnaðaráætlunar. Að þessu ber að vinda bráðan bug svo unnt sé að hefja framkvæmdir hið fyrsta.

Finna þarf heppilegt rekstrarform fyrir hitaveitu og vatnsveitu í Reykholti.

Skólpveita í Reykholti verði á vegum sveitarfélagsins, enda greiði notendur fyrir það ákveðið gjald. Sama gildir um sorphirðingu.

Fela skal sérstakri samstarfnefnd þeirra aðila, sem forræði hafa á Reykholtsstað, yfirstjórn sameiginlegra staðarmála, sem ekki heyra undir aðra lögum og venjum samkvæmt. Skal nefndinni heimilt að ráða sér starfsmann sem hafi með höndum umsjón og umhirðu húsa, lóða, lands, skógræktar og girðinga á vegum kirkju og skóla.

Athuga ber hvort ekki er þörf lagasetningar um málefni Reykholts. Unnið verði að uppgrefti og rannsóknum á fornminjum í Reykholti og Snorragöngin stækkuð til upphaflegrar myndar.

Bókasafn skólans þarf stórum að auka og endurbæta. Einnig þarf að koma upp safni er hefur fræðilegt gildi vegna rannsókna á störfum Snorra Sturlusonar og áhrifum hans.

Ósæmandi er með öllu að mannvirki í Reykholti séu í niðurníðslu vegna skorts á viðhaldsfé. Þess vegna verður að veita meira fjármagn til staðarins í heild heldur en gert hefur verið til þessa.“

Í framhaldi þessa tel ég ástæðu til að grípa hér niður í opinbert bréf, sem núverandi skólastjóri Reykholts sendi til menntmrn. í júlímánuði s.l., en þar segir m.a.:

„Á fundi skólanefndar Héraðsskólans í Reykholti í júní s.l. var einróma samþykkt að halda fast við fyrri áætlanir menntmrn. og skólanefndar um 150 nemenda skóla í Reykholti, enda hentugasta rekstrarstærð fyrir núverandi og fyrirhugaða starfsemi skólans.“

Í bréfi skólastjóra kemur fram, að „vegna dráttar á tilkomu A-álmu, með 16 nemendarými, var útbúin 14 nemenda heimavist í fyrrverandi smiðju í íbúðaþyrpingu fyrir norðan skóla og kirkju, en af miklum vanefnum. Nemendarými í heimavist er því fyrir 142 nemendur, sem sýnir að í raun hefðu þurft að koma 22 rúm í A-álmu ef tilætluðum nemendafjölda ætti að ná. Nú er svo komið að ástand „smiðjunnar“ sem heimavistarhúsnæðis er ekki verjandi, enda komu öflug mótmæli frá foreldrum nemenda vistarinnar s.l. vetur, og hef ég ekki getað bætt þar um vegna fjársveltis á þessu ári.

Aðsókn að námi í Reykholti hefur frá stofnun skólans 1931 verið meiri en svo að skólinn hafi nokkru sinni getað annað henni, og t.d. þurfti ég nú, eins og s.l. sumar, að neita yfir 25% umsókna um skólavist.

Ekki er ætlunin að rekja hér þróun skólans frá upphafi, heldur geta hverjar hugmyndir heimamanna og skólanefndar eru varðandi næstu framtíð. Við höfum látið og munum láta nemendur úr héraðinu ganga fyrir um nám í 9. bekk grunnskóladeildar, síðan látum við nemendur frá stöðum, sem lengst þurfa að sækja í slíkt nám, ganga fyrir. Undanfarin ár höfum við haft þrjár bekkjardeildir í 9. bekk með u.þ.b. 75 nemendur, en nú fækkun við þeim í tvær með 55 nemendur næsta vetur. Á fyrsta og annað ár framhaldsdeilda áhugakerfisins ganga eldri Reykhyltingar fyrir, síðan látum við fyrri námsárangur ráða frekara vali.

Ennfremur segir núverandi skólastjóri: „Ætíð hefur verið og mun vera mikil þörf fyrir heimavistarskóla sem okkar, ekki bara fyrir dreifbýlisfólkið, heldur einnig fyrir fjölda nemenda af þéttbýlissvæðum sem af ýmsum ástæðum geta ekki stundað nám frá heimilum sínum. Það sanna tugir umsókna og símhringinga ár hvert. Því er það okkar undrunarefni hér í Reykholti, þar sem aldrei hefur skort nemendur né hæft starfslið, að nú skuli fjárveitingavaldið vera á góðri leið með að flæma kennara í burtu vegna fjársveltis undanfarin ár.

Á þessu verður að vinna bráðan bug, ef ekki á illa að fara. Eina leiðin til þess er að taka upp þráðinn að nýju þar sem hann slitnaði 1974 og byrja ekki síðar en næsta vor á II. áfanga áætlunarinnar frá 1972.“

Og í eftirskrift við þetta bréf til menntmrn. segir skólastjóri: „Þess má geta, að það eru ekki stoltir Íslendingar sem sumar hvert horfa upp á þau hundruð „pílagríma“ sem leggja leið sína til byggðar Snorra Sturlusonar og ætla að skoða þennan fræga sögustað sem minnst er á í öllum erlendum landkynningarbæklingum.

Hvað sjá þeir? Norska styttu, Snorralaug og innganginn að Snorragöngunum, sem liggja niðurfallin undir leikfimibragga sem rífa átti fyrir 46 árum. Heldur er þetta fátæklegt fyrir langt að komna „pílagríma“, enda kemur þar eflaust skýringin á þeim ósköpum að henda alltaf peningum í Snorralaug.“

Í greinargerð frá skólanefnd Héraðsskólans í Reykholti, sem send var bæði þm. og ráðuneyti, er lögð áhersla á eftirtalin verkefni:

„Nægilega há upphæð til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við A-álmu hinnar nýju skólabyggingar og ljúka einhverjum verulegum áfanga, t.d. steypa hann upp. Í þessari álmu á að koma mötuneytis- og félagsaðstaða skólans auk herbergja fyrir 16 nemendur. Jafnframt verði unnið að því að tryggja fjármagn til þess að unnt verði að ljúka verkinu á næstu tveimur árum.

Tryggð verði sérstök fjárveiting til þess að koma upp aðstöðu fyrir þann stofn að bókasafni, sem til er á staðnum, og bæta við hann svo að í skólanum verði frambærilegt skólabókasafn og í tengslum við það vinnuaðstaða fyrir nemendur.

Auk þessara tveggja forgangsverkefna vill skólanefnd fara þess á leif við alþm., að þeir stuðli að því, að fjármagn til viðhalds húsa, húsbúnaðar og tækja skólans verði aukið þannig að eigur hans þurfi ekki að drafna niður og eyðileggjast vegna skorts á viðhaldi.“

Um bókasafnið hefur skólanefndin þennan rökstuðning: „Bókasafn skólans er að stofni til komið úr tveimur stöðum, úr bókasafni Hvítárbakkaskóla og safni Tryggva Þórhallssonar forsrh. Undanfarin ár hefur safnið verið á miklum hrakhólum vegna þrengsla og litlir möguleikar að hagnýta það í námi sem æskilegt er í skóla með 9. bekk grunnskóla og á framhaldsstigi. Þá vantar og sárlega handbækur í ýmsum greinum, einkum raungreinum og náttúrufræði. Þetta ástand er algerlega óviðunandi og verður að færa það til betri vegar eigi skólinn að geta sinnt hlutverki sem framhaldsskóli.“

Í bréfi sem þm. Vesturl. barst frá Reykholtsskóla s.l. haust eða haustið 1981 stendur m.a.: „Kennarar, starfsfólk og nemendur Héraðsskólans í Reykholti beina því til hv. þm. Vesturl., að þeir taki aðstöðu og aðbúnað Héraðsskólans í Reykholti til gagngerðrar athugunar.

Það er mat okkar, sem hér störfum, að aðstaða og aðbúnaður í skólanum sé með öllu óviðunandi. Má þar nefna kennslustofur, mötuneyti, snyrtiaðstöðu og búningsklefa við sundlaug og leikfimisal, vinnuaðstöðu kennara, skort á kennslutækjum o.fl.“

Máli sínu til stuðnings benda þeir á hjálögð bréf frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og skýrslu heilbrigðisnefndar Reykholtsdalshrepps. Undir þetta skrifa fulltrúar kennara, starfsfólks og nemenda.

Þá vil ég gripa niður í samþykkt fræðsluráðs Vesturlandskjördæmis, sem er í bréfi sem barst til Alþingis: „Fundur fræðsluráðs Vesturlands haldinn í Reykholti 18. maí 1981 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að gera stórátak til eflingar Héraðsskólanum í Reykholti og Reykholtsstað í heild. Fræðsluráð telur að forgangsverkefni í þessu sambandi sé bygging mötuneytisaðstöðu og félagsaðstöðu nemenda (A-álma byggingar) og að bókasafni skólans sé komið í viðunandi horf hvað snertir bókakost og aðbúnað.“

Það hafa verið gerðar fjölmargar samþykktir í héraði í sambandi við uppbyggingu Reykholts og nægir að minna á samþykkt sem aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga gerði 29. júní s.l., en þar stendur: „Aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga skorar á þær stjórnardeildir, sem fara með málefni Reykholtsstaðar, að gera stórátak til endurreisnar staðarins. Alls óviðunandi er að þessi einn mesti sögustaður landsins sé árum saman í niðurníðslu og til vansæmdar héraðinu og landinu öllu. Aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga hefur áður ályktað um þetta efni, einnig Ungmennasamband Borgarfjarðar og Samband borgfirskra kvenna. Skorað er á forráðamenn staðarins að draga ekki nauðsynlegar úrbætur lengur.“

Þessa dagana var að berast samþykki hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps, sem dagsett er 1. okt. s.l., en þar stendur: „Á fundi hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps þann 27. sept. s.l., var fjallað um málefni Reykholtsstaðar og eftirfarandi samþykki gerð: „Hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps styður samkomulag það sem skólanefnd héraðsskólans í Reykholti og sóknarprestur og sóknarnefnd Reykholtskirkju gerðu með sér vorið 1981 um tillögur að framtíðarskipan mála í Reykholti. Jafnframt leggur hreppsnefndin áherslu á að forræði jarðarinnar verði ekki dreift á margar hendur, heldur verði á ábyrgð eins aðila, svo sem tíðkast um bújarðir í sveitum. Telur hreppsnefndin einsýnt að það skuli vera kirkjuyfirvöld og sóknarprestur, svo sem verið hefur um aldir. Vegna þeirra sóknarbarna Reykholtskirkju sem í hreppnum búa leggst hreppsnefndin eindregið gegn öllum áformum um að rýra rétt kirkjunnar á staðnum. Hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps samþykkir að leita eftir samningum við forsjáraðila hitaveituréttinda á prestssetursjörðinni í Reykholti Borgarfirði í þeim til gangi að stofnsett verði og rekin hitaveita fyrir staðinn og nágrenni hans. Jafnframt lýsir hreppsnefnd sig reiðubúna til viðræðna við aðra um þá þjónustu sem eðlilegt sé að telja að sveitarstjórn veiti á staðnum.“ Undir þetta ritar oddviti Reykholtsdalshrepps.

Herra forseti. Reykholt er í huga fólks, jafnt Íslendinga sem annarra þjóða manna, helgur staður vegna þeirra andans stórvirkja sem þar voru unnin.

Héraðsskólinn í Reykholti hefir í rúm 50 ár notið álits og trausts og verið sóttur af nemendum víðsvegar af landinu og jafnan verið fullsetinn og oftast orðið að vísa fjölda umsækjenda frá.

Saga Reykholts í fortíð og samtíð krefst þess að uppbygging og svipur staðarins í framtíð verði sú héraðsprýði sem einum sögufrægasta stað Norðurlanda ber. Það á að vera metnaðarmál okkar Íslendinga.

Um margra ára skeið hafa mannvirki í Reykholti verið í niðurníðslu vegna skorts á fjármagni til viðhalds — til vansæmdar héraði og landinu öllu. Þrátt fyrir sögufrægð staðarins, sem dregur erlenda og innlenda ferðamenn að staðnum, héraðsskólann, sem starfað hefur fullsetinn í yfir 50 ár, náttúrufegurð, jarðhita og fleira hefur ekki tekist að fá fram samræmdar aðgerðir og fjármagn til að endurbyggja staðinn og gera Reykholt að glæsilegu menningar- og menntasetri þjóðarinnar, sem flestir eru þó sammála um og mundi tvímælalaust auka hróður Íslands meðal annarra þjóða, slík er frægð staðarins. Hér þarf til að koma stefnubreyting, — framkvæmdir í stað kyrrstöðu.

Eitt brýnasta verkefnið er að ljúka uppbyggingu skólahúsnæðis í Reykholti. Forgangsverk er að koma upp svokallaðri A-álmu, þar sem á að vera mötuneytis- og félagsaðstaða skólans, sem er algerlega ófullnægjandi í dag og stendur raunar öllu skólastarfi fyrir þrifum og mundi stórbæta aðstöðu fyrir ferðamannaþjónustu yfir sumarmánuðina.

Koma þarf upp viðunandi aðstöðu fyrir bókasafn skólans og vinnuaðstöðu við safnið. Einnig þarf að koma upp safni er hefur fræðilegt gildi vegna rannsókna á störfum Snorra Sturlusonar og áhrifum hans. Stórauka þarf viðhald og endurnýjun húsbúnaðar og tækja skólans. Gera þarf heildarskipulag fyrir staðinn, leggja bundið slitlag á heimakstursbraut og bifreiðastæði.

Skapa þarf aðstöðu í Reykholti fyrir norræna fræðimenn til dvalar og fræðiiðkana, þar sem staðurinn mun í vaxandi mæli verða samnorrænn staður. Æskilegt væri að komið verði upp sérstakri Snorrastofu og minjasafni í Reykholti.

Á 50 ára afmælishátíð héraðsskólans s.l. haust var saman komið mikið fjölmenni í Reykholti, gamlir nemendur héraðsskólans, héraðsbúar, velunnarar skólans og ýmsir forustumenn þjóðarinnar. Menntmrh. og dómsog kirkjumrh. gáfu samkvæminu góð fyrirheit um að hafist yrði handa um uppbyggingu og endurreisn Reykholts. Því miður hefur miðað hægt.

Við þm. Vesturlands viljum með þessari þáltill. fara fram á viljayfirlýsingu Alþingis til styrktar þessu máli. Ég leyfi mér að vona að hv. alþm. séu okkur sammála um að hefjast handa um endurreisn og uppbyggingu Reykholts. Þá er tilgangi þessarar þáltill. náð.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þáltill. vísað til allshn.