16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Það er að vísu ekki ýkjamargt sem ég get þakkað hæstv. ráðh. fyrir í svörum hans, en þó það, að hann hefur sent, að hann segir, bréf til Seðlabankans þar sem hann segir að bankinn eigi að leitast við að fara eitthvað í áttina að því a.m.k. að framkvæma skýlausan vilja Alþingis og fyrirmæli til hæstv. viðskrh.

Það er að vísu rétt hjá honum að hann hefur kannske ekki verið viðskrh. alveg allan þennan tíma, en mest allan. Hann segir einmitt: „Ég hef sagt hér áður“ — hann sagði það fyrir einu ári eða svo — „að það hefur verið bent á leið til þess sem margir telja að sé fullkomlega fær og muni þýða framkvæmd till. í reynd.“ Hann veit um leið til þess að framkvæma tillöguna en vill þó ekki svara tveim fyrstu liðum fsp. minnar nema neitandi. Það hafa sem sagt ekki verið settar þessar reglur, og mér sýnist ekki vera í undirbúningi að bændur fái þessa peninga núna, því að hann segir að Seðlabankinn eigi að fá hæfilegan aðlögunartíma. Hvað skyldi nú vera hæfilegur aðlögunartími? Alla vega fram yfir 25. nóv. núna. Á eitt árið enn að hafa þessa gífurlegu fjármuni af bændastéttinni? Ég held að þetta sé langsamlega mesti vandi bændastéttarinnar, að fá ekki fjármuni sína í kannske 60–100% verðbólgu. Það getur hver séð í hendi sér og við getum það gjarnan.

Hæstv. ráðh. talar um að stimpilgjöld og annað sé verulegur kostnaður, verulegt óhagræði fyrir bændur, kaupfélögin eigi að fá að vera í friði og allt þetta. Við skulum rifja upp umr. sem fóru fram hér um daginn um bréf Framleiðsluráðsins, þar sem bannað var að gera upp við bændur fjármuni þeirra frá haustinu 1981. Framleiðsluráð landbúnaðarins bannaði sláturleyfishöfum að gera það. Það upplýstist þá, að t.d. Slátursamlag Arnfirðinga var svipt leyfi á s.l. hausti til slátrunar og áreiðanlega vegna þess að þeir greiddu allt féð út, grundvallarverðið allt, fyrir áramót í fyrra og síðan 10% ofan á þegar þeir gerðu upp, og svipaða sögu er að segja af Slátursamlagi Skagfirðinga. Auðvitað er þetta greitt beint inn á bankareikninga. Og ætli það sé einhver banki til í veröldinni sem vildi ekki fá þessa gífurlegu fjármuni inn til sín til að setja inn á bækur eða reikninga bænda, sem sumir eru og margir hverjir auðvitað skuldugir í bönkunum? Auðvitað vill hver einasti banki fá þetta. Og ég vil nú spyrja, úr því að ráðh. segist hafa verið að vinna að gangi mála: Hver eru þessi ummæli bankamanna? Í fyrsta lagi óska ég að fá að sjá þetta bréf til Seðlabankans og væri æskilegast að það yrði lesið hér upp. Í öðru lagi: Hvaða nýjar upplýsingar eru frá viðskiptabönkunum um að þeir geti ekki framkvæmt þetta og hverjir undirskrifa það, þegar þetta er framkvæmt a.m.k. í tveimur héruðum og hver einasti maður sér það í hendi sér, ef hann setti sig í þau spor að hann væri bankastjóri, hvort hann vildi fá þessar gífurlegu fjárhæðir — 1280 millj. eru það núna í heildina — inn bæði til að fá greiðslur á skuldum bænda og eins til að fá innistæðufé í bankana, þegar bankarnir slást nú um að setja upp hvert útibúið af öðru bara til að ná í spariféð?

Og svo er sagt: Hver bóndi yrði þá að fylgjast með birgðunum daglega. Ég hef aldrei heyrt annað eins. Ætli bændurnir í Arnarfirði eða Skagafirði séu í frystihúsunum daglega til að telja birgðir? Er það ekki ósköp ljóst að það er vörslumaðurinn sem gefur það upp hvað birgðirnar séu miklar? Vonandi gefur hann það rétt upp, þó það vekti nú grunsemdir í sumar þegar sagt var að um 2 þús. tonn af kindakjöti hefðu allt í einu gufað upp. En ég ætla ekki að gera því skóna að það sé ekki allt saman rétt upp talið.

Og sagt er að afurðalánin vegna aukabúgreina verði að ganga í gegnum fyrirtækin því það sé ekki verið að slátra einu hrossi eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé ekki einn einasti bóndi í loðdýrarækt svo vitlaus að láta afurðalánin ganga í gegnum einhver fyrirtæki. Hann tekur þau auðvitað beint sjálfur og fær peningana strax í hendur og getur notað þá á því verðgildi og með þeim kaupmætti sem þá er, en ekki eftir nokkra mánuði eða kannske 11/2 ár vaxtalaust.

Svo er alls ekki svarað fjórða liðnum, um vextina. Það er spurt alveg skýrt og greinilega: Hvaða vexti taka kaupfélögin af bændum? Þetta segir hæstv. ráðh. að sé svo óskýrt að það sé ekki hægt að svara því. Ég veit svo sem hvað þau taka, kaupfélögin. Sum hafa tekið um 50%. Ætli þau hækki þá ekki í 60% núna þegar þau sjálf eru með peninga bænda ýmist á 29% vöxtum úr Seðlabankanum eða vaxtalaust þar sem er niðurgreiðsluféð og uppbótaféð?

Ég hugsa að það sé alveg rétt sem bændur í Arnarfirði halda fram, að kjör þeirra séu 30–40% betri en annarra bænda á Vestfjörðum vegna þess að þeir fá sína peninga í hendur, en það er ekkert verið að valsa með þá af mönnum sem alls ekkert eiga með þessa peninga að gera. Það er þarna sem vandi landbúnaðarins liggur og það er ósköp vel hægt að kippa þessu í liðinn með einu orði frá hæstv. viðskrh. og þarf ekkert að gefa Seðlabanka neinn hæfilegan aðlögunartíma. Það er við viljaleysi þessa hæstv. ráðh. að etja. Það er fyrirskipun frá Sambandi ísl. samvinnufélaga að taka ekki þessa fjármuni af því.