16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli hv. 5. landsk. þm., að hann hefur vitnað í Sláturfélag Arnfirðinga nokkuð oft og sagt að það hafi greitt hærra verð fyrir afurðir en aðrir. Það er vissulega rétt, að ef menn þurfa að leggja í lítinn kostnað við sláturhús er þetta hægt, en varanleikinn hlýtur að byggjast á því, hvort raunhæfu fjármagni sé haldið eftir til að veita húsi eða búnaði það viðhald sem nauðsynlegt er. Ég leyfi mér því að lesa hér upp bréf frá ráðuneytinu til Sláturfélags Arnfirðinga:

„Ráðuneytið hefur ákveðið að veita undanþágu til slátrunar á þessu hausti í sláturhúsi Sláturfélags Arnfirðinga, Bíldudal. Leyfi þetta er bundið þeim skilyrðum, að sauðfjártala fari eigi fram úr 200 kindum á dag og að gerðar verði þær endurbætur sem héraðsdýralæknir telur brýnastar. Héraðsdýralæknir mun annast heilbrigðisskoðun sláturafurða í húsinu. Jafnframt tekur ráðuneytið fram, að vegna andmæla yfirdýralæknis og héraðsdýralæknis og ófullnægjandi ástands hússins er þess ekki að vænta að undanþága verði veitt ,framvegis til slátrunar í húsinu.“ (Gripið fram í: Hvenær er bréfið dagsett?) 14. okt.

Ef 5. landsk. þm. er það kappsmál að lækka slátrunarkostnaðinn verður hann að hefja áhlaupið á réttum stað, draga úr kröfunum sem gerðar eru af heilbrigðisyfirvöldum til sláturhúsanna. Þær eru mjög miklar. Ég tel þær óhóflegar að mörgu leyti. En hitt er alveg tómt mál að tala um, að það eigi að tala um þetta af jafnmikilli vanþekkingu um staðhætti og hann hefur gert í þessu tilfelli.