16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að ég þarf ekki að bera neitt blak af hæstv. viðskrh. í þessu máli, en þetta er líklega í þriðja skiptið sem ég kem hingað upp til að gera nokkra grein fyrir skoðun minni á því máli sem hv. fyrirspyrjandi hefur komið hér fram með.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að í þessari umr. gerum við okkur ljósa grein fyrir því, að við þurfum í raun og veru að tala um tvennt. Annars vegar er það, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda áðan, að honum þykir Samband. ísl. samvinnufélaga hafa allt of mikið fé umleikis vegna þeirrar aðstöðu sem hefur skapast. Ég hef skýrt frá því hér, að ég var fulltrúi í nefnd sem athugaði þetta mál mjög vandlega ásamt bankastjórum Landsbankans, Búnaðarbankans og fulltrúum Seðlabankans. Okkur kom öllum saman um að tæknilega — ég endurtek nákvæmlega það sem ég sagði síðast — gengi þetta dæmi ekki upp nema einhvers staðar frá kæmi fjármagnið. Svo einfalt er þetta. Og þá er spurningin þessi: Er það ætlan hv. fyrirspyrjanda að Seðlabankinn reiði fram það fjármagn sem til þarf til að greiða fyrir allar landbúnaðarafurðir, sem til falla á hverju ári, sem þarf síðan að geyma með ærnum tilkostnaði svo og svo lengi á hverju ári og safna á sig miklum fjármunum bæði vegna geymslukostnaðar og fjármagnskostnaðar?

Ég held að það væri miklu eðlilegra í þessu máli, ef ég má segja þá skoðun mína, að menn greindu hér gagngert á milli þeirra hagsmuna sem við erum að ræða um, annars vegar Sambands ísl. samvinnufélaga og hins vegar þeirra tæknilegu atriða sem þarf að koma í kring svo þetta mál nái fram að ganga. Mér finnst menn tala talsvert upp í vindinn og raunverulega ekki um það sem skiptir máli. Það eitt skiptir máli í þessu, að við náum einhvers staðar í fjármagnið sem þarf til þessara greiðslna. Það fjármagn liggur ekki á lausu. Allir þessir bankastjórar, sem með okkur sátu, lýstu því yfir að þeir hefðu engin ráð á að leggja fram þetta fjármagn. Hins vegar getur það verið rétt, og ég skal ekkert draga það í efa, að ályktun Alþingis geri kröfu til þess að þetta fjármagn verði lagt fram.