16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki að ráði blanda mér í þá umr. sem hér hefur farið fram. Ég tel aðeins ástæðu til að gefa upplýsingar um tvö atriði.

Í fyrsta lagi kom það fram h já hæstv. viðskrh. að afurðalánin, sem veitt eru í kringum 25. nóv., nema samtals með viðbótarlánum 71–75% af afurðaverði. Um svipað leyti greiða flestir sláturleyfishafar framleiðendum 80–82% af andvirði afurðanna inn í reikning. Þetta tel ég rétt að hafa í huga í þeirri umr. sem hér fer fram.

Í öðru lagi tók ég ekki eftir því að fram hafi komið svör við þeim þætti fsp., þar sem spurt er um hve mikil voru rekstrarlán og afurðalán. Hæstv. viðskrh. svaraði fsp. varðandi afurðalánin, en varðandi rekstrarlánin vil ég gjarnan gefa þær upplýsingar að á þessu ári varð mikil hækkun á rekstrarlánum landbúnaðarins. Afurðalán hækka til jafns við verðlag, en á þessu ári varð breyting á fyrirkomulagi rekstrarlána þannig að rekstrarlán, sem greiðast eiga til bænda, hækkuðu úr 89.6 millj. á árinu 1981 í 164.5 millj. 1982 eða um 83.5 %. Sláturlánin, sem greiðast í sept.–okt., hækkuðu til muna meira, enda var gerð sú breyting að innheimt voru afurðalán fyrir ágústmánuð, sem ekki hefur verið gert að undanförnu. Samtals hækkuðu rekstrarlánin til landbúnaðarins úr 137.2 millj. kr. 1981 í 269.2 millj. 1982 eða um 96.2%. Hér er því um verulegar úrbætur að ræða varðandi rekstrarlánin og þykir mér ástæða til að það komi fram í þessari umr.