16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

31. mál, afurðalán landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég er ekki sannfærður um að það sé öldungis rétt hjá viðskrh. að kaupfélögin séu endilega sterkasta stoð bænda. Það sjáum við á þeim ólestri, sem hefur verið á útflutningsmálum landbúnaðarins, sem vitaskuld kemur að síðustu niður á bóndanum og skaðar hans hlut. Fyrir því höfum við líka dæmi, að samkeppni, sem hefur komið upp í fóðurbætissölu, hefur jafnan stórlækkað verðið til bændanna, sem munar ekki svo litlu eins stór Liður og fóðurbætiskaupin eru í rekstrarútgjöldum bóndans. Ef samkeppnisaðilinn hefur hætt rekstri hefur reynslan jafnan orðið sú, að fóðurbætirinn hefur hækkað í kjölfarið hjá kaupfélögunum. Þetta sýnir að kaupfélögin þurfa samkeppni og eðlilegt aðhald ekki síður en aðrir. Lengra nær nú náungans kærleikur þeirra ekki, því miður. Það væri því nær að segja að bændur séu styrkasta stoð kaupfélaganna en ekki öfugt.

Ég vil svo aðeins segja það út af ummælum hv. 6. þm. Norðurl. e., að það er þá a.m.k. upplýst í þessum umr. að einn maður á Íslandi er ánægður með það fyrirkomulag sem er á rekstrarlánum til landbúnaðarins, til bændanna. Ég veit að svo er ekki um bændurna sjálfa, en það kemur ekki á óvart að þessi rödd skuli heyrast frá Alþfl.