16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Við hæstv. landbrh. höfum hér fyrr á fundinum talað okkur saman um það að kannske mætti þessi fsp. bíða, en ég er auðvitað ánægður með að fá henni svarað líka. Ég skal ekki hafa um það fleiri orð, menn þekkja það mál. Það er heimild í framleiðsluráðslögunum til þess að haga greiðslum á útflutningsbótum og niðurgreiðslum að nokkru leyti þannig að bændur fái þessa peninga beint í hendur. Það mætti jafnvel nota þetta jafnframt til þess að hafa áhrif á framleiðslumagn. Um þetta gerði Stéttarsamband bænda ítarlega útreikninga á sínum tíma. Síðan hefur verið að þessu unnið, og eins og ég segi, þá er heimild til þess að haga greiðslum þessara miklu fjármuna þannig að þær renni beint til bændanna. Vonandi hefur eitthvað verið unnið í því að koma því áleiðis. Á ég von á að hæstv. landbrh. geti frætt okkur eitthvað um það.