16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð lónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. ítarleg svör. Hann gerði hér grein fyrir því, að unnið hefði verið að þessum athugunum, sem þál. fjallaði um, og er ég þakklátur fyrir það. Sérstaklega tók hann til athugunar hver áhrif það mundi hafa á verðlag ef beinu greiðslurnar væru teknar upp og bændur fengju sína peninga milliliðalaust.

Það er auðvitað alveg rétt, enda kom hæstv. ráðh. að því í lok þess kafla sinnar ræðu, að það þyrfti að hafa heilbrigðan vísitölugrundvöll til þess að þetta kæmi miklu betur út fyrir bændur og neytendur en með þeim reikningum sem núna eru framkvæmdir. Við vitum að vísitölufalsanir, ekki bara hjá núv. ríkisstj. heldur mörgum öðrum, hafa einmitt verið stórvirkastar með því að greiða niður landbúnaðarvörur og þá ákveðna þætti landbúnaðarvara vegna þess að það var alltaf greitt niður það sem neytt var fyrir 20–30 árum og eftir þeim neysluvenjum sem þá voru, en hitt skilið eftir. Þess vegna er það alveg rétt, að það er hægt að níðast miklu meira á vísitölunni með núverandi kerfi en væri unnt ef menn fengju sína peninga beint í hendur. Þess vegna er alveg laukrétt hjá hæstv. ráðh. að dæmið kæmi allt öðru vísi út þegar heitbrigður og nýr vísitölugrunnur væri út reiknaður. Ég hugsa að við séum alveg sammála um það. Það er nú einu sinni svo, að ég held að þetta kerfi vísitölufalsananna sé búið að ganga sér til húðar og ég held að hvaða stjórnvöld sem taka við að afstöðnum kosningum, sem verða, hljóti að breyta þessu kerfi og það sé ekki hægt að níðast svona á því og miða við 20–30 ára gamlar neysluvenjur og kannske vafasaman útreikning á þeim á sínum tíma.

En dæmi það sem hæstv. ráðh. nefndi að Stéttarsamband bænda hefði reiknað út samkv. minni ósk fyrir nokkrum árum, um að greiða 25% grundvallarverðsins beint til bænda upp í ákveðna bústærð, 400–500 kinda bú t.d., og síðan ekkert þar yfir, mundi geta verkað þannig að kvótakerfið væri algjörlega óþarft. Það mætti breyta þessari prósentutölu, greiða t.d. ennþá meira en þessi 25% til bænda ef offramleiðsla væri, þannig að stórbændurnir mundu draga saman sín bú, kannske niður undir þetta búmark, og síðan mætti aftur, ef framleiðsla væri kannske heldur lítil, minnka þessar greiðslur t.d. niður í 20%, því að þegar afurðirnar væru lagðar inn fengju menn einungis það sem eftir stæði, þ.e. í aðaldæminu 75%, en engum væri bannað að framleiða ef hann gæti rekið sin bú með svo hagkvæmum hætti að hann þyrfti ekki nema 75 % af því sem umfram væri þetta ákveðna búmark, 400 ærgildi eða hvað það nú væri. Þá gætum við losnað við alla þessa ofstjórn og þetta ofskipulag, sem við höfum ekki bara í landbúnaði heldur á flestum sviðum okkar þjóðlífs og nú er að sliga allt fjármálakerfi landsins. Skal ég ekki endurtaka öll þau orð sem aðstandendur þessa kerfis hafa um það haft á síðustu vikum og mánuðum. Þeir gera sér jafnljósa grein fyrir því og ég að þetta er allt að riðlast og fara út í sandinn að mestu, þó að við höfum haft eitthvert mesta góðæri hér á landinu nú í nokkur ár, — að vísu nokkur áföll á þessu ári eins og margendurtekið er. Þetta er auðvitað einn liðurinn í þeirri hreingerningu sem fram undan er og hlýtur að koma til þegar að loknum kosningum, þegar fólk hefur fengið tækifæri til að sýna hverjum það treystir til að gera þá hreingerningu sem nauðsynleg er í okkar þjóðlífi.

En ég skal ekki fara að halda hér almenna pólitíska ræðu. Ég þakka ráðh. fyrir að málið skuli þó vera í hreyfingu. Ég átti ekki von á að neitt mikið mundi gerast í núv. ríkisstj., ekki vegna þess að ég treysti ekki hæstv. landbrh. til þess að vilja fylgja fram góðum málum heldur er stjórnarstefnan þannig og stjórnarsamstarfið að hann á ekki hægt um vik og það verður engu um breytt til hins betra. Það sígur alltaf á ógæfuhliðina.