16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

261. mál, beinar greiðslur til bænda

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara neinum athugasemdum frá hv. fyrirspyrjanda, enda komu aths. lítt fram í hans máli.

Hv. 11. landsk. þm. fer hins vegar hér með þær fullyrðingar, að kjarnfóðurgjaldið, sem lagt var á með brbl. í júní 1980, hafi hvorki dregið úr framleiðslu né haft áhrif á kjarnfóðurnotkun. Það hafi jafnvel haft gagnstæð áhrif. Þetta eru nokkuð einkennilegar fullyrðingar. Það er ljóst, að síðan þetta kjarnfóðurgjald var lagt á hefur tekist að halda jafnvægi í mjólkurframleiðslu, miðað við innanlandsmarkað, í þrjú ár. Ég er ekki að þakka það einvörðungu kjarnfóðurgjaldi, en víst er að kjarnfóðurgjaldið hafði veruleg áhrif í þessa átt. Kjarnfóðurinnflutningur og kjarnfóðurnotkun minnkaði á fyrsta ári eftir að gjaldið var lagt á yfir 25 %. Ég er ekki með töluna nákvæmlega, en ég hygg að kjarnfóðurinnflutningur hafi verið á næsta ári áður en gjaldið var lagt á um 84 þús. tonn, en á einu ári féll hann niður í um 60. þús. tonn eða milli 25 og 30%. Fullyrðingar af þessu tagi eru því auðvitað afar sérkennilegar.

Ég ætla ekki að taka tíma til að ræða almennt um þessi mál, en það er sýnilegt að þær upplýsingar sem hv. þm. hefur fengið eru þess efnis að það þarf úr að bæta.