16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir að flytja þessa fsp. hér inn á hið háa Alþingi og jafnframt harma mjög þann drátt sem orðið hefur á þessu máli í menntmrn. Enginn hlutur er ógallaður þá gerður er. Í þeirri nefnd, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Hefði auðvitað verið hægt — þó svo að frv. sé gallað, sem hæstv. ráðh. lýsti almennum orðum, en á auðvitað við sínar sérskoðanir, sem hann hefur fullan rétt til — þá hefði vitaskuld verið hægt að leggja frv. fram með þeim einföldu fyrirvörum. Af hverju? Vegna þess að hér kemur enn gamli ruglingurinn um það hver fer með löggjafarvaldið. Sá sem fer með löggjafarvaldið er hv. Alþingi. Þó svo að frv. hefði verið lagt fram, ef vilji ráðh. hefði staðið til slíks, þá á það eftir að fara í gegnum þrjár umferðir og ítarlega athugun væntanlega í tveimur menntmn. Ég get því ekki séð að skýringar hæstv. ráðh. fái staðist, því hann er ekki að taka löggjafarvaldið í sínar hendur vænti ég.

Við komum hér enn að hinum óskýru mörkum sem hér liggja á milli. Hlutverk hæstv. ráðh. er að framkvæma lögin en ekki að setja þau. Ef hann hefði verið hlynntur frv. eða þeirri almennu hugmynd, sem í því er, hefði hann átt að leggja frv. fyrir Alþingi. Það er Alþingi sem á að fjalla um frv. Það er Alþingi sem setur lög. Það er ekki ráðh. Sérskoðanir ráðh. eiga að koma fram í grg., sem þm. hefðu þá getað tekið tillit til, ef þeir svo kjósa. En ráðh. sem slíkur er aðeins 1/60 af löggjafarvaldinu. Þannig er uppbygging okkar stjórnkerfis. En því miður hefur þetta ekki skilist sem skyldi. Ég nefni sem dæmi enn að þingflokkarnir fengu sent frá menntmrh. nú rétt fyrir — (Forseti hringir.) augnablik, herra forseti, — nú rétt fyrir þingsetningu drög að útvarpslögum sem þeir voru beðnir að segja álit sitt á. Þetta eru ekki þinglegir mannasiðir. Auðvitað á að leggja málið fram á sínum réttu stöðum. Það er þingið sem um það á að fjalla.

Ég harma þann drátt sem orðið hefur á framlagningu frv. um Kvikmyndasjóð Íslands og ég tek skýringar hæstv. ráðh. ekki góðar og gildar. Það eru aðrar ástæður sem mér sýnast liggja að baki. Og hræddur er ég um að þær séu efnislegar og það er verra.