16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

40. mál, Kvikmyndasjóður Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég held að ég hljóti að taka upp hanskann fyrir formann nefndarinnar, sem vann drög að þessu frv., Indriða G. Þorsteinsson rithöfund. Ég efast um að hann hafi haldið að við þyrftum að skila orðréttu frv. — eða öllu heldur frv. með grg. sem hæstv. ráðh. gæti flutt orðrétt hér inn í Alþingi. Ég hygg að menn, sem ekki sitja hér innan þings, hljóti að líta á slík drög fremur sem hugmyndir til ráðh. sem tæknimenn hans í rn. síðan setja fram eins og þingið ætlast til. Mér finnst í meira lagi hæpið að ávíta hér formann nefndarinnar og nefndarmenn fyrir að hafa ekki skilað því frv. sem hægt var að nota. Vitanlega var hægt að kalla annaðhvort formann nefndarinnar eða nefndarmenn alla til viðræðna um hvort nefndin vildi fallast á einhverjar breytingar eða annað slíkt, en það er auðvitað hreint ekki frambærilegt, að rúmt ár þurfi að líða frá því að nefndin skilar sinu verki þar til hér er lofað að frv. sé væntanlegt.

Hér var talað fjálglega um að um væri að ræða „opinberan stuðning“ við kvikmyndagerðarmenn. Ég vil benda á að það er talað dálitið öðruvísi um annan opinberan stuðning hér í þinginu. Það er sýnilega mikill munur á því hvort menn vilja selja fallega listræna og vel gerða hluti eða hvort þeir vilja selja ónýtar afurðir. Þá heitir það varla opinber stuðningur lengur. Mér leiðist þess háttar tal.

Ég vil einnig benda hæstv. ráðh. á að fyrir örstuttu síðan fengu þm. lista yfir þau mál, sem hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans leggja áherslu á að verði afgreidd á þessu þingi. Frv. um Kvikmyndasjóð var ekki á þeim lista og ég tek varla mark á því héðan af að það frv. hafi átt að vera þar.