16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

48. mál, könnun á lífríki Breiðafjarðar

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. á þskj. 49 til hæstv. menntmrh. um framkvæmd á verndun og könnun á lífríki Breiðafjarðar. Fsp. hljóðar þannig:

„Hvað líður framkvæmd þál. um verndun og könnun á lífríki Breiðafjarðar, sem samþykkt var á 100. löggjafarþingi, 22. mars 1979?“

þál. hljóðaði þannig:

„Þingsályktun um verndun og könnun á lífríki Breiðafjarðar.

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að stuðla hið fyrsta að því, að hið fjölþætta lífríki Breiðafjarðar verði kannað og verndað, eftir því sem þurfa þykir, í samráði við heimamenn og náttúruverndarsamtök.“

Með þáltill., sem flutt var af hv. 2. þm. Vesturl., hæstv. núv. dóms- og kirkjumálaráðh., fylgdi ítarleg grg. þar sem upp voru talin öll þau helstu rök sem færa þurfti fyrir þessari þál. Ég vil aðeins leyfa mér, herra forseti, að grípa hér niður í grg. sem er athygli verð:

„Komið hefur fram að æskilegt væri að sett yrðu sérstök lög um friðun Breiðafjarðar, þar sem hliðsjón væri höfð af lögum um friðun Mývatnssveitar frá 1974. Var haldinn fundur í Búðardal á vegum Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og Vesturlands, þar sem málefni þetta var rætt og nefnd sett á laggirnar til að vinna að framgangi þess. Ekki er þó talið að bráður háski vofi yfir Breiðafirði að þessu leyti. Á hinn bóginn sé eðlilegt og sjálfsagt að athuga þessi mál í tæka tíð og gera viðeigandi ráðstafanir ef þurfa þykir. Bent er á að lífríki fjarðarins sé mjög fjölskrúðugt og svæðið allt sérlega áhugavert. Innan vébanda þess megi telja fjórðung af strandlengju landsins. Þar séu fjöruflákar og leirur miklar, sem skipta miklu máli fyrir ýmsa fuglastofna, enda sé þar heimkynni fjölmargra fugla og dýrategunda af ýmsu tagi: Um 90% af toppskarfi og um 80% af dílaskarfi þeim sem hér er og verulegur hluti af lundastofni landsins. Þar sé að finna um 2/3 af hinum fáliðaða arnarstofni hins íslenska dýraríkis. Lífríki fjarðarins sé merkilega fjölþætt og þróttmikið. Ekki verði talin ástæða til að gera svæðið að þjóðgarði að lögum. Á hinn bóginn sé full ástæða til að vera á varðbergi, fylgjast vel með þróun mála, en nýta jafnframt gæði láðs og lagar að hóflegu og skynsamlegu marki.“

Ennfremur segir í þessari grg.: „Hvammsfjörður er einn mesti fjörður landsins, 45 km á lengd og 10–12 km á breidd, en mjög misdjúpur. Margir hafa undrast að þar skuli engan fisk að fá, en fjörðurinn er lítt kannaður. Í Saurbæ við Gilsfjörð var talin besta sölvafjara landsins. Þar átti Hóladómkirkja sölvaítök meðan sölvatekja var talin til meiri háttar hlunninda.“

Og ennfremur: „Ekki má gleyma í þessu sambandi að minnast örfáum orðum á Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum. Það fyrirtæki hefur átt við mikla byrjunarörðugleika að etja, en nú virðist vera að rofa til að því er kunnugir telja. Við hráefnisöflun og önnur umsvif slíkrar verksmiðju þarf að fara að öllu með gát. Er mér og tjáð,“ segir flm., „að forráðamenn hennar hafi sýnt fullan skilning á þessum málum.“

„Búsetan er besta verndin,“ segja ýmsir þeir sem vernda vilja eyjarnar og umhverfi þeirra. Af þessu leiðir að reyna verður að búa sem best í haginn hjá því fólki sem enn byggir eyjarnar. Eitt af því sem sérstaklega verður að hafa í huga er að auðvelda eyjafólki að hafa samband við umheiminn. Þar kemur til athugunar að bæta samgöngur á sjó og í lofti, þar sem því verður við komið. Flóabátur verður hér eftir sem hingað til að halda uppi ferðum frá Stykkishólmi yfir Breiðafjörð um Flatey til Barðastrandar og veita eyjabúum og öðrum íbúum Breiðafjarðarbyggða þá þjónustu sem besta er unnt að láta í té með viðráðanlegum hætti. Einnig verður að auðvelda hinum fjölmörgu ferðamönnum, sem skoða vilja eyjarnar og fjörðinn, að njóta dásemda umhverfisins og komast leiðar sinnar. Hyggja verður vandlega að því á hvern hátt óbyggðar eyjar verða best verndaðar gegn hvers konar ásælni og eyðileggingu á komandi tímum.“

Margt fleira mætti til nefna sem rökstuðning fyrir þessari þáltill. Ætla ég ekki að fara út í það að sinni, en ég vil gjarnan fá upplýsingar um það frá hendi stjórnvalda hvernig þetta mál stendur nú.