16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

48. mál, könnun á lífríki Breiðafjarðar

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þessi svör. Þó að þau séu ekki efnismikil, þá skýra þau þó alla vega stöðu þessa máls, sem ég tel skipta miklu máli hvernig með er farið.

Ég vil aðeins geta þess að hér er um miklu merkilegra mál að ræða en virðist í fljótu bragði, því að ljóst er að Breiðafjörður býr yfir mikilvægu lífríki, eins og kom fram í grg. með þessari þáltill. á sínum tíma, sem fágætt er hér á landi og jafnvel þó víðar væri leitað um heiminn.

Mér þykir rétt að geta þess að ég hef fylgst nokkuð með áhugaverðu framtaki áhugamanna þar vestra. Sýslumaðurinn í Búðardal, Pétur Þorsteinsson, hefur staðið fyrir því með fleiri góðum mönnum að láta gera mjög miklar rannsóknir í Hvammsfirði. Þegar liggja fyrir nokkuð miklar upplýsingar um þessar athuganir, sem sýna marga merkilega hluti. Er full ástæða til að benda á nauðsyn þess að tengja það við þá athugun sem væntanlega kemur frá nefndinni sem um þessi mál er að fjalla.

Ég vil einnig geta þess að jafnvel síðan þessi þáltill. var samþykkt á Alþingi hafa aukist mjög mikið skelfiskveiðar í Breiðafirði og jafnvel rækjuveiðar. Það er því fullkomin ástæða til að undirstrika þýðingu þess að þessi mál séu tekin föstum tökum til þess að upplýsa það hvað þessi mikli fjörður með öllum sínum óteljandi eyjum hefur að geyma.

Þess má geta hér að við sem eigum heima við Breiðafjörð bindum talsvert miklar vonir við það að nú loksins á að taka til starfa á Snæfellsnesi útibú Hafrannsóknastofnunar, sem getur haft mikla þýðingu í sambandi við rannsóknir og ýmsa þætti þessa mikilvæga máls.

Ég endurtek þakkir til ráðh., en ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. fylgi þessu máli vel eftir strax þegar skýrsla nefndarinnar liggur fyrir, sem mér finnst því miður að hafi tekið of langan tíma að koma fram.