16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fsp. er ástand Egilsstaðaflugvallar, en það hefur valdið mönnum eystra miklum áhyggjum vegna þess hve völlurinn er geysilega mikilvægur hlekkur í samgöngukerfinu á Austurlandi, alger forsenda flugsamgangna frá Austurlandi til annarra landshluta. Völlurinn er ófullkominn malarvöllur sem þarfnast endurbyggingar og óvissa hefur ríkt um staðsetningu hans.

Þessi óvissa hefur gert það að verkum, að flugvöllurinn hefur dregist aftur úr í uppbyggingu svo að óviðunandi er.

Ég vakti máls á þessu í fyrra með tillöguflutningi til þál. um uppbyggingu flugvallar á Austurlandi. Hún varð reyndar ekki útrædd hér á hv. Alþingi. Hins vegar gerðist það í sumar, að nefnd á vegum flugráðs starfaði að samanburði á flugvallarstæðum sem til greina koma, þ.e. þar sem núverandi flugvöllur er og á hinn bóginn vestan núverandi flugbrautar. Vil ég spyrja ráðh. hvað líði þessum athugunum og í framhaldi af því hvenær ákvörðunar sé að vænta um uppbyggingu vallarins.

Ég gat um hér í upphafi að menn hefðu áhyggjur af þessu máli eystra. Flugsamgöngur eru lífsnauðsynlegar fyrir Austurland vegna fjarlægðar frá öðrum landshlutum, en fjarlægðir innan Austurlands eru miklar og fjallvegir skilja byggðarlögin að. Fullkominn flugvöllur á Egilsstöðum er ekki aðeins nauðsynlegur fyrir samgöngur til annarra fjórðunga, heldur nauðsynleg kjölfesta t.d. í rekstri Flugfélags Austurlands, sem heldur uppi samgöngum í lofti innan fjórðungs. Starfsemi Flugfélags Austurlands hefur geysilega þýðingu fyrir öryggi Austfirðinga hvað varðar sjúkraflug ásamt almennum samgöngum. Flugfélag Austurlands hefur byggt upp aðstöðu sína á Egilsstaðaflugvelli og bættur völlur ásamt bættum aðflugsskilyrðum, sem mundu fylgja nýju vallarstæði, hafa ómetanlega þýðingu fyrir félagið. Þetta vil ég taka fram um leið og ég fylgi fsp. úr hlaði til að undirstrika hvað liggur að baki því að hún er borin fram.