16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Aðeins í sambandi við þessa fsp. út frá því hvernig þetta mál hefur verið afgreitt í flugráði.

S.l. vetur komu óskir frá þeim Egilsstaðamönnum um að flugráð tæki afstöðu til staðsetningar flugvallar og fleira í sambandi við flugþjónustu á Austfjörðum. Í framhaldi af því gerði flugráð samþykki, eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh., um að kjósa nefnd sem kannaði staðsetningu flugvallar á Egilsstöðum. Var gert ráð fyrir því við samþykkt þessarar ályktunar í flugráði, að sú nefnd mundi geta skilað störfum í sumar og það var ákveðið í flugráði að haldinn yrði kynningarfundur um þetta mál á Egilsstöðum, eins og reyndar kom einnig fram í ræðu samgrh., en eins og ennfremur hefur komið fram hefur þetta mál dregist allt fram á það að nú er gefið undir fótinn að lokið verði við að kanna þessi mál um áramót og þá liggi fyrir skýrsla.

Á síðasta fundi flugráðs var gerð fsp. um stöðu þessa máls. Þá kom í ljós að málið hefði dregist svo sem raun ber vitni vegna þess að ákveðin vinna, sem þurfti að vinna þar eystra, hafði ekki verið innt af hendi fyrr en svo seint að fullnaðarafgreiðsla málsins í skýrsluformi gæti ekki legið fyrir fyrr en á þessum tíma.

Ég taldi rétt að þetta kæmi fram, að það hafa ekki verið tafir í flugmálastjórn eða flugráði í þessu máli, heldur hefur að einhverju leyti staðið á verkum þar eystra, því miður.