16.11.1982
Sameinað þing: 17. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

270. mál, endurbygging Egilsstaðaflugvallar

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég fór ekkert út í efnislegar umr, í þessu máli áðan vegna þess að tilgangurinn var að fá svarað afmarkaðri fsp. Ég get ekki stillt mig um að gera örstutta aths. og skýra sérstaklega hvers vegna við erum að sækjast eftir þotuflugvelli. Ég vil undirstrika það að okkur finnst það áríðandi mál, ekki aðeins fyrir farþegaflug á Austurlandi heldur vegna þess að sú tíð getur komið að vöruflutningar milli landa fari fram með þotum. Við erum með mikinn fiskiðnað og mikinn landbúnað á Austurlandi og ef við þyrftum að flytja kældan fisk á markað erlendis þurfum við e.t.v. að flytja hann með slíkum vélum frá Austurlandi. Þess vegna vil ég undirstrika alveg sérstaklega að við óskum mjög eindregið eftir því að þetta verði tekið inn í myndina.