16.11.1982
Sameinað þing: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Haustið 1978 var flutt hér till. um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri og samvinnu við Færeyinga og sú till. var afgreidd á Alþingi 22. des. það ár, 1978. Síðan var hert á þeirri ályktun með þál. 19. maí 1980. Þessi till. var í tengslum við aðrar hafréttartillögur, einkum og sér í lagi varðandi réttindi okkar á Jan Mayen-svæðinu.

Hv. þm. minnast þess kannske, að talsverð átök urðu hér í þingi áður en menn fóru að taka alvarlega afstöðu til Jan Mayen-málsins. Sumir álitu sýnilega að kröfugerð okkar væri óraunsæ og við ættum engin réttindi á þessu svæði, en þegar á vetur leið sannfærðust menn um að þarna væri þó eitthvað sem a.m.k. mætti um ræða og ætti ekki að skella skollaeyrunum við. Þegar kom fram í júní á árinu 1979 gerðist það, að Norðmenn voru farnir að hlusta á okkur og sendu hingað fríða sveit ráðherra og embættismanna til viðræðna við okkur. Þegar þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, að við ætluðum ekki að láta þá hirða öll réttindi á þessu svæði, heldur halda okkar rétti til streitu, fór fyrst að komast skriður á þessi mál, sem endaði með fullnaðarsigri okkar Íslendinga og sanngjörnum og heiðarlegum samningum við Norðmenn í mesta bróðerni, og þar voru tryggð gífurlega þýðingarmikil réttindi.

Sagan er að endurtaka sig og hefur þó tekið mun lengri tíma fyrir almenning hér og kannske stjórnmálamenn og stjórnvöld líka að átta sig á því, að við Íslendingar eigum mjög þýðingarmikil réttindi suður af landinu þar sem er hafsbotninn á Rockallsvæðinu svonefnda, þ.e. Rockallbanki og Rockall-Hatton-djúpið. Ég leyfi mér raunar að halda því fram, að samkv. hafréttarsáttmálanum og skýringum á 76. gr. hans séu réttindi okkar suður af landinu ennþá ótvíræðari en þau voru á Jan Mayensvæðinu og þess vegna kannske enn meiri ástæða til að knýja á um úrlausnir í því efni. Við sigruðum í Jan Mayen-málinu vegna samstöðu og festu um það er lauk og líka með því að reka áróður, t.d. í norskum blöðum og fjölmiðlum, þar til menn gerðu sér grein fyrir að við ætluðum okkur að halda fast á okkar réttindum. Nú er komið að því, og þó fyrr hefði verið, að við knýjum á um réttargæslu okkar suður af landinu.

Það þarf án efa að auka þrýsting til þess að fá nágranna okkar til viðræðna við okkur og helst vildum við að sjálfsögðu ná samningum allra þeirra sem kröfugerð hafa uppi á þessu svæði. Til þess þurfum við að ná til þeirra og sýna þeim að við ætlum ekki að gefast upp. Í þessu tilefni sendum við fjórir fulltrúar stjórnmálaflokkanna á síðasta fundi Hafréttarráðstefnunnar, þ.e. auk mín þeir Benedikt Gröndal, Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson, hæstv. utanrrh., orðsendingu eða minnisblað þegar fundum lauk í New York-30. apríl lauk þar fundi minnir mig. Við sendum þetta minnisblað fyrstu dagana í maí og með leyfi forseta vil ég hér lesa það upp. Yfirskriftin mun hafa verið „Minnisblað sent utanrrh.":

„Á síðasta degi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York, 30. apríl 1982, ræddum við undirritaðir fulltrúar stjórnmálaflokkanna við fulltrúa úr sendinefnd Dana.“ — Herra forseti. Ég hygg að þetta sé eitt mikilvægasta mál þingsins og ætlast til þess að þm. a.m.k. hafi hljóð á meðan það er flutt. Hér er um að ræða stórmál, réttindagæslu Íslands, eitt af mikilvægustu utanríkismálum okkar, sem er ekki sinnt af stjórnvöldum, ekki af alþm., og það er ekki hægt einu sinni að fá hljóð hér í sölum. Þessu mótmæli ég. — Ég hef lesturinn að nýju.

„Á síðasta degi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York, 30. apríl 1982, ræddum við undirritaðir fulltrúar stjórnmálaflokkanna við fulltrúa úr sendinefnd Dana um Rockall-svæðið og þau réttindi sem við teljum okkur eiga til hafsbotnsins suður af 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Var fundurinn haldinn í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna og stóð hálfan annan klukkutíma.

Færeyingurinn Daníel Nordsö hafði aðallega orðið af hálfu viðmælanda okkar. Ræddi hann af mikilli þekkingu um málið og hafði meðferðis gnægð gagna til stuðnings máli sínu. Að meginefni til falla skoðanir hans og okkar varðandi réttindi Íra og Breta á þessu svæði saman, þ.e. að málstaður Íra sé veikastur þeirra fjögurra þjóða sem tilkall gera til hafsbotnsins vestur af Rokknum, þar næst málstaður Breta, en Nordsö telur að Danir fyrir hönd Færeyinga hafi sterkasta stöðu. Var farið ítarlega yfir rökstuðning Íslendinga, m.a. í alþingisályktunum, og rætt um grein, sem Eyjólfur Konráð Jónsson hefur ritað um málið í Morgunblaðið. Bar Daníel Nordsö fram nokkrar fyrirspurnir, sem hann fékk svör við. Grein Eyjólfs var afhent dönsku sendinefndinni í enskri þýðingu, en áður hafði Hans G. Andersen afhent hana írsku og bresku sendinefndinni og óskað gagnraka þeirra ef einhver væru.

Hans kom nokkru síðar á fundinn, en hann hafði verið bundinn við sáttastörf ellefu manna nefndarinnar svokölluðu. Var þá farið yfir meginefni málsins að nýju og þegar ljóst var orðið að sjónarmið og hagsmunir Færeyinga fara mjög vel saman við ályktanir Alþingis varpaði Lúðvík Jósepsson fram þeirri hugmynd að sett yrði á fót samstarfsnefnd Íslendinga og Dana (Færeyinga) til að gæta sameiginlegra hagsmuna þjóðanna og skoða málin út í hörgul. Var þeirri hugmynd vel tekið og er það sameiginlegt álit okkar að utanrrn. eigi nú þegar að eiga frumkvæðið að því að fylgja þessari till. eftir á grundvelli ítrekaðra ályktana Alþingis.

Þótt við teljum réttindi Íslendinga og Færeyinga til hafsbotnsins vestur af Rokknum meiri en Breta og Íra teljum við þó eðlilegt að starfað verði áfram samkvæmt ályktunum Alþingis og rætt við Breta og Íra, að svo miklu leyti sem þeir vilja við okkur ræða, í þeim tilgangi að ná samstöðu þjóðanna fjögurra, því að harðvítugar deilur gætu leitt til þess að enginn fengi kröfum sínum framgengt og svæðið yrði alþjóðlegt. Þá mundum við lítil sem engin áhrif hafa á hagnýtingu þess og gætum t.d. ekki hindrað þar jarðrask í framtíðinni, sem stofnað gæti lífríki í hættu, en talsverðar líkur eru taldar á að jarðgas og olía gætu verið á þessu svæði, því að þess er einnig að gæta að allar lífverur á botninum, sem aðeins hreyfast með snertingu við hann, þ.e. öll skel- og krabbadýr, tilheyra honum samkv. hafréttarsáttmálanum og vafalítið að slík auðæfi er þar að finna og sjávardýpi er í dag lítið.

Reykjavík í maí 1982.

Benedikt Gröndal,

Eyjólfur Konráð Jónsson,

Lúðvík Jósepsson,

Þórarinn Þórarinsson.“

Síðan þetta minnisblað var sent hæstv. utanrrh. mun nokkuð hafa verið unnið að málinu og á ég von á að hann gefi okkur skýrslu um það hér á eftir, að svo miklu leyti sem það samrýmist íslenskum hagsmunum að geta opinberlega um það sem í þessum málum er að gerast. En ég ítreka það, og er þá ekki með ádeilur á neinn einstakan eða einstaka, að þrýstingur á þetta mál hefur á undangengnum árum ekki verið nægilega mikill og við höfum ekki staðið nægilega vel í ístaðinu, því að réttindi okkar samkv. hafréttarsáttmálanum á þessu svæði eru, eins og ég áðan sagði, ótvíræðari og kannske miklu mikilvægari en réttindi okkar á Jan Mayen-svæðinu og þar unnum við sigur, og því skyldum við ekki getað sigrað í þessu máli?

Það er rétt, að Írar hafa neitað því að taka upp formlegar viðræður við okkur Íslendinga um einhvers konar sameign og samnýtingu þessa svæðis. Að mínu mati er ekkert við því að segja. Þeir mega gjarnan vera utan við þær samningaviðræður vegna þess að þeirra málstaður er án efa langverstur. Ég held að þeirra samningamenn og sérfræðingar á Hafréttarráðstefnu hafi hlaupið á sig. Þeir hafi ekki gætt réttinda Íra með orðalagi á 76. gr. sem skyldi og hafi nú gert sér grein fyrir því að þeirra réttur er lítill. Þess vegna vilja þeir eingöngu reyna að ná samkomulagi við Breta og útiloka okkur Íslendinga og Færeyinga, sem eigum þarna ótvíræðan rétt og meiri og sterkari en Bretar og Írar. En engu að síður er það samdóma álit okkar, sem setið höfum fundi Hafréttarráðstefnu af hálfu stjórnmálaflokkanna, að það eigi að reyna samninga við allar þrjár þjóðirnar og þessar fjórar þjóðir eigi allar að reyna að ná samkomulagi í fyrsta umgangi a.m.k. Ef Bretar kynnu nú líka að vilja vera utan við umr. gagnstætt því sem þeir samþykktu í fyrra, að taka upp formlegar viðræður — það var formlegur viðræðufundur í Genf með Bretum í ágústmánuði í fyrra — hljótum við að grípa til annarra ráða. En ég vona að til þess komi ekki að Bretar dragi að sér hendina því að vissulega eiga þeir líka mjög mikilla hagsmuna að gæta og gætu útilokast ef Íslendingar og Færeyingar tækju einir höndum saman.

Það er kannske rétt að rifja hér upp efni þáltill., sem samþ. var hér á hinu háa Alþingi 19. maí 1980 einróma, og með leyfi forseta ætla ég að hlaupa yfir hana. Hún er ekki ýkjalöng. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að fylgja fast eftir, á grundvelli tillögu þeirrar sem afgreidd var á Alþingi hinn 22. des. 1978, kröfum um hafsbotnsréttindi sunnan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands, að því marki sem þjóðréttarreglur frekast leyfa, og efna í því sambandi hið allra fyrsta til viðræðna við aðrar þjóðir sem gert hafa kröfur á þessu svæði.

Jafnframt er mótmælt hvers kyns tilraunum Breta og Íra til að taka sér réttindi vestan svonefnds Rockall-trogs, utan 200 mílna þeirra, þar á meðal á Hattonbanka, enda mæla jarðfræðileg og önnur rök eindregið gegn slíku og er þarna um að ræða svæði sem Íslendingar og Færeyingar telja tilheyra sér.

Alþingi lýsir yfir að það telur fyrir sitt leyti unnt að leysa mál varðandi yfirráðarétt þessa hafsbotnssvæðis milli Íslendinga og Færeyinga, annaðhvort með sameiginlegum yfirráðum eða skiptingu svæðisins.

Er ríkisstj. heimilað að semja um, að gerðardómur ákveði skiptingu svæðisins milli Íslendinga og Færeyinga, ef Færeyingar æskja þess“ og lýkur þessari ályktun.

Eins og niðurlagsorð hennar bera með sér er í rauninni lagt í hendur Færeyinga hvort þeir vilja láta gerðardóm skera úr um skiptingu svæðisins milli Íslands og Færeyja, þegar við sameiginlega höfum heimt þessi réttindi okkar, og það verður vist ekki annað sagt en að þar sýnum við fullan drengskap og sanngirni í garð frændþjóðar okkar. Þeim mun einkennilegra er það, að ekki skuli hafa tekist að fá þá til frekari viðræðna en þegar hafa átt sér stað. Raunar fóru íslenskir embættismenn til Færeyja á sínum tíma og fengu þar góðar undirtektir og sama má segja um viðræður okkar, fulltrúa stjórnmálaflokkanna, við suma af embættismönnum Dana og Færeyinga á Hafréttarráðstefnu. Og þegar þessi fundur var í Færeyjum, sem ég nefndi, sem ég man að Ólafur Egilsson, sem þá var deildarstjóri í utanrrn., sótti, þá miðaði málum þó áfram.

En ef svo kynni að fara, sem ég trúi ekki, að Færeyingar eða Danir fyrir þeirra hönd tækju ekki upp mjög eindregnar og ákveðnar viðræður við okkur, þegar við sýnum nægilega mikla festu og Alþingi sinnir þessum málum meira og betur en það hefur gert, þá er að taka því. Ef Færeyingum dettur í hug sú einkennilega afstaða að vilja ekki taka í okkar framréttu hendi, þegar við viljum reyna að sigra með þeim og tryggja þessum tveim þjóðum veruleg réttindi og helst öll á þessu svæði, en leyfa þeim síðan að skera úr um það fyrir alþjóðadómi hvort svo kunni að vera að réttindi þeirra séu meiri en okkar, sem þeir sumir halda fram, þar sem þeir telja jafnvel að þetta sokkna land nái inn undir Færeyjar og þeir hafi þess vegna jarðfræðileg sönnunargögn fyrir meiri rétti en við Íslendingar höfum, — ef þeir ekki vilja þiggja þessa hjálp okkar er auðvitað ekkert fyrir okkur Íslendinga að gera annað en grípa til einhliða aðgerða og helga okkur þá eftir þeim reglum sem gilda í 76. gr. hafréttarsáttmálans þau réttindi sem okkur standa næst, þ.e. allan Phantombankann og a.m.k. að miðlínu við Færeyjar. Þar er auðvitað um mjög stórt og væntanlega auðugt svæði að ræða, því að þetta er ævafornt meginland, sem þarna er sokkið, með setlögum o.s.frv.

En aðgerðirnar, sem þyrfti þá að grípa til, eru eins og ég sagði nefndar í 76. gr. hafréttarsáttmálans. Þar er það tekið fram í 7. tölulið að strandríki ákveði sjálft ytri mörk landgrunns síns, en auðvitað eru settar ákveðnar reglur um hvernig þessi mörk skuli ákveðin, og í 8. og 9. tölul. er skylt að senda upplýsingar til sérstakrar nefndar hjá Sameinuðu þjóðunum, sem fjallar um ytri mörk landgrunnsins, og síðan að senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna nákvæm kort og allar upplýsingar sem óskað er eftir um þessar athafnir, en þá þarf strandríkið sjálft að gera reka að því að heimta þessi réttindi. Það fær þau ekki með sinnuleysi og meira að segja glatar rétti ef aðrir vinna á tíma, ef þeir ná nokkurs konar hefðarhald, eins og Bretar og Írar eru nú að reyna með því að hafa sín á milli gerðardóm sem fjallar um landsvæði, ekki land að vísu, hafsvæði skutum við segja, sem Íslendingar og Færeyingar telja tilheyra sér og geta fært að rök að þeir hafi á miklu meiri réttindi. Þessi rök, þau helstu sem við Íslendingar tínum til, eru í grg. með þessari þáltill. og skal ég ekki tefja þm. með því að rekja þau frekar, þá fáu sem láta svo lítið að hugsa um eða hlýða á málflutning í þessu langstærsta máli þessa þings. Ég vil segja að þrátt fyrir allt volæðið og erfiðleikana í efnahagsmálum og slíkt er þetta framtíðarmál miklu mikilvægara en það sem rifist er um frá viku til viku. Og það nálgast sviksemi, svo að ekki sé notað stærra orð, ef við þm. ekki tökum þetta mál alvarlegri tökum en hingað til hefur verið gert.

Ég ætla ekki að rekja þessi rök frekar. Ég held að hver og einn sem þau les geri sér grein fyrir hve sterk þau eru. Það er enginn vafi á að bæði Bretar og Írar gera sér grein fyrir að við eigum þarna rök að mæla. Raunar er breskur prófessor við háskólann í Wales sem þegar árið 1978 skrifaði mjög merka grein um þetta mál og segir að Írar hafi þarna varla nokkur réttindi og vafasamt að Bretar hafi það, sem ætta að teygja sig þarna eftir örmjóum úthafshrygg út á þetta svæði — hrygg sem Thomson- hryggur nefnist. Allt er þetta í grg. í eins stuttu máli og hægt er að koma því fyrir.

Ég vonast til þess að hæstv. utanrrh: svari því hér á eftir, hvort aðgerðir, sem nauðsynlegar eru samkv. 8. tölul. og raunar líka 9. tölul. 76. gr. til þess að tryggja okkar réttindi, hafa frumkvæði að því sjálfir, hafi verið undirbúnar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið, en vonast þó til að einhver slíkur undirbúningur hafi 0farið fram. Eins og kunnugt er eigum við einn besta þjóðréttarfræðing veraldarinnar, Hans G. Andersen, sem okkar embættismann og það var einmitt hann sem sótti þennan fyrsta formlega fund með Bretum í ágústmánuði á s.l. ári. Ég vænti þess að hans starfskraftar og gífurlega þekking og virðing, sem hann nýtur, verði nýtt og jafnvel þó þyrfti þá að létta af honum öðrum störfum, því að vissulega er hann störfum hlaðinn maður.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Það er hægt fyrir hvern og einn sem nennir að kynna sér þetta mál og ég vona að þeim fari fjölgandi, eins og gerðist í Jan Mayen-málinu, og þó að það hafi nú dregist í fjögur ár að fá menn til að taka þetta föstum tökum gerist það nú von bráðar, alveg eins og það gerðist þó að lokum í Jan Mayen-málinu með þeim alkunna sigri og sáttargerð sem við fengum við Norðmenn, þar sem við í rauninni eigum helmingsréttindi á öllu svæðinu, bæði til fiskveiða og fiskverndar, og meira að segja meiri rétt að því er t.d. loðnustofninn varðar, þar sem við getum einir ákveðið aflahámarkið. Ég vil túlka öll ákvæði þess samnings þannig, að varðandi öll lífræn auðæfi á svæðinu eigum við sama rétt og Norðmenn og engu minni. Það leiðir af réttum lögskýringum og við megum ekki halda neinu öðru fram, og að því er hafsbotninn varðar eigum við helmingsréttindi á því svæði þar sem einhverjar líkur eru til að um auðæfi geti verið að ræða í jörð niðri.

Í till. er gert ráð fyrir að Alþingi kjósi með hlutbundinni kosningu fimm menn sem starfi með ríkisstj. að framgangi mátsins. Menn hafa spurt mig að því, hvort í þessu fælist ekki einhvers konar vantraust á ríkisstj. eða utanrmn. Það er auðvitað alls ekki. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist í Jan Mayen-málinu. Þá var að vísu svo, að þingflokkar tilnefndu hver sinn mann í landhelgisnefnd, sem kölluð var, til að vera ríkisstj. til aðstoðar og til að tryggja fulla samstöðu innanlands. Ég hygg að einmitt sá háttur hafi valdið því að það tókst að vekja áhuga almennings, bæði hér og reyndar í Noregi líka, fyrir því máli og vinna þá sigra sem unnust. Ég get vel hugsað mér að sama leið verði farin, að þingflokkarnir tilnefni einn mann hver, en eðlilegast taldi ég, úr því að um þingmál var að ræða, að þessir menn yrðu kosnir hlutbundinni kosningu.

En hvað sem um það er verður að taka þetta mál fastari tökum. Og það eru ekki eingöngu embættismenn utanrrn. sem það eiga að gera. Það eiga stjórnmálamenn að gera. Það eru þeir sem bera ábyrgðina. Það eru þeir sem eru kjörnir til þess að fylgja fram íslenskum málstað. Og það eru þeir sem svíkja íslenskan málstað ef þeir ekki fylgja þessu máli fram með allt öðrum drengilegri og kröftugri hætti en hingað til hefur gerst. Ég vil engan einstakan ásaka, eins og ég sagði áðan. Ég vænti hins vegar, að við berum gæfu til þess nú alveg á næstunni að taka a.m.k. höndum saman um eitt mál og það er þetta mál. Þarna er um að ræða sokkið land, sem er stærra en Ísland, og við eigum þar veruleg réttindi. Það veit enginn hvaða auðæfi þarna eru í jörðu. Jafnvel þó að þau væru engin eigum við að tryggja þarna réttindi til að koma í veg fyrir að einhverjir óviðkomandi fari þarna að stunda jarðrask og einhverskonar athafnir, sem gætu stofnað okkar lífríki í hættu. Það eru svik okkar núv. alþm. við þjóðina og komandi tíma, ef við ekki fylgjum þessu máli fram og það fast og fljótt.