16.11.1982
Sameinað þing: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef líklega ekki burði til að ræða efnislega mikið um þetta mál, en ég lýsi yfir ánægju minni með að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson dregur þetta mál fram. Hann hefur lengi sýnt mikinn áhuga á því og einnig öðrum réttindamálum Íslendinga út á við, Jan Mayen-máli, landhelgismáli og fleirum, og lagt sig mjög fram um að kynna sér þessi málefni rækilega. Ég verð að viðurkenna að í þessu efni hef ég ekki þekkingu við að styðjast, því miður, og er skömm frá að segja, en strax verður maður nokkru fróðari með því að lesa grg. með þáltill. og rifja þá það upp sem maður hefur heyrt um þessa hluti áður.

Hér eru allmargir flm. Ég verð að segja það, eins og hv. 1. flm. leggur mikla áherslu á hversu mikilvægt þetta mál sé, að ég hefði talið að málið fengi kannske meiri þunga á bak við till. ef hv. 1. flm. hefði tekið með sér menn úr öðrum þingflokkum en Sjálfstfl., því það veit hann að þar eru mjög duglegir menn og áhugasamir í þessum efnum og meira að segja hjá okkur Alþb.-mönnum, því að þar var mjög hart barist í Jan Mayen-málinu, og þó að það hafi nú orðið svo á þeim tíma að ég hefði nokkra sérstöðu við lok þess máls hér í þinginu og væri óþekkur einu sinni enn við þá ágætu menn held ég að það hefði orðið betra að virkja einhverja fleiri núna eins og til þess að aðeins fleiri þm. vissu þá eitthvað um málið og væru kannske búnir af þeim sökum að setja sig ofurlítið inn í það, því að það er auðvitað aðalatriðið.

Ég fagna því að unnið hefur verið að þessu máli í utanrrn. og að því er mér finnst á sannfærandi hátt. Þarna er verið að kanna málin. Þetta gengur auðvitað dálítið hægt, en ég er sammála hæstv. utanrrh. í því að einmitt mál af þessu tagi þurfa að vinnast frekar hægt heldur en of hratt. Eins og hæstv. utanrrh. sagði getur verið vafasamt að flýta sér svo í viðkvæmum efnum eins og þessum og að sumu leyti nýjum viðfangsefnum að það geti kallað fram neikvæða svörun, sem erfitt yrði þá að breyta. Hins vegar megum við ekki vera svo rólegir að við reynum ekki að setja þetta mál dálítið meira af stað og jafnvel kalla til fleiri sérfræðinga en þann ágæta fræðing Guðmund Eiríksson. Einhvern veginn finnst mér að þegar mikið liggur við á þessu sviði væri skynsamlegt, að mínu mati, að hafa samband við og jafnvel kalla til okkar ágæta þjóðréttarfræðing, Hans G. Andersen, sem hefur mikla reynslu og kunnáttu í þessum efnum öllum og hefur sýnt að hann er mjög fær í málum af þessu tagi og vanur við þau að eiga.

Það getur auðvitað verið spurning, hvenær sé tímabært að setja niður þessa nefnd. En í mínum huga sýnist mér að menn þurfi ekki að velta því lengi fyrir sér, þeim mun fyrr sem við setjum þessa nefnd á laggirnar, þeim mun betra. Þó að það hraði kannske ekki meðferð málsins verður það til þess að fleiri menn fari að vinna að málinu en aðeins menn innan þingsins, og á ég auðvitað ekki við utanrrn. sem vinnur að þessu máli, og fleiri menn innan þingsins komist inn í þetta mál og fari þá að vinna að því, enda segir hér að þessi nefnd komi til með að eiga að vinna með ríkisstj. Svo slæmir eru hv. þm. ekki orðnir enn þá að það hljóti ekki að vera nokkur styrkur í því að fá þá til liðs við ríkisstj. í máli eins og þessu og fyrrum alþm.

Herra forseti. Þarna er um allmikið hafsvæði að ræða og ef við — ég þori ekki annað en segja ef — höfum rétt á þessu svæði, þó ekki væri nema að hluta til, tel ég nauðsynlegt að viðræðum verði haldið áfram við Dani og síðan við Englendinga og Íra í sambandi við þetta mál. Ég teldi það mjög farsælt ef við gætum vísað til samningsins um Jan Mayen og leyst þetta mál þá á svipuðum grundvelli, en ég treysti mér ekki til þess að ræða þetta á neinn fræðilegan hátt vegna vankunnáttu.

Herra forseti. Ég kom aðallega upp í stólinn til að lýsa yfir mínum stuðningi, og ég tel nokkuð víst að það sé ekki aðeins um minn stuðning að ræða í mínum þingflokki, heldur að okkar þingflokkur standi að baki þeirri hugsun sem í till. felst.