16.11.1982
Sameinað þing: 18. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál, eins og hv. 1. flm. þess gaf réttilega, og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum þann dugnað og áhuga, sem hann hefur sýnt, ekki bara þessu máli heldur fleiri málum sem tengjast réttindum Íslendinga í hafréttarlegum skilningi. Ég vil ennfremur þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans svör og greinargerð um það hvernig mál standa, bæði gagnvart Írum, Bretum og Dönum fyrir Færeyinga hönd, og fagna því auðvitað að Bretar og Danir hafa tekið svo jákvætt í málaleitanir okkar Íslendinga um að sérfræðingar vinni að könnun þessa máls, að það verði þá fyrsta skrefið sem stigið verði.

Af þeim umr. sem hér hafa farið fram verður öllum mönnum ljóst að hér er að nokkru leyti spurning um starfsaðferðir að ræða, þ.e. hvort beri að taka þetta mál upp af einhverri meiri hörku á stjórnmálasviðinu á milli stjórnmálamanna eða hvort vinna eigi að því í rólegheitum, eins og hæstv. utanrrh. nefndi, með sérfræðingum og embættismönnum utanrrn. þessara landa.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að Alþingi kaus, að mig minnir á síðasta ári frekar en á síðasta þingi, nefnd til að starfa að málefnum Íslands, Grænlands og Færeyja sérstaklega. Þessi nefnd hefur haldið einn fund. Á þeim fundi kom fram margt merkilegt sem fréttnæmt gæti talist ef frá yrði skýrt. Nefndin heldur næsta fund sinn 13. des. n.k. og þá munu Grænlendingar taka þátt í nefndarstörfum, en þeir gátu því miður ekki verið með á fyrsta fundi nefndarinnar. Ég verð að segja það hreint út að ég þóttist finna það á Færeyingum, að þeir teldu að danska utanrrn. flýtti sér stundum ekki allt of mikið vegna mála sem það fengi í hendur frá Færeyingum, en ekki kann ég að meta það eða dæma hvort þarna er um að ræða ummæli manna, sem hafa út á sambandið við Dani að setja, eða annarra.

Þetta mál er að vissu leyti af svipuðum toga spunnið og önnur mál, sem við þurfum mjög nauðsynlega að fara að taka upp viðræður um við þá nágranna okkar sem við Norður-Atlatnshaf búa. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að mjög skjótlega þurfi, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur að vissu leyti bent á með flutningi á þáltill. að taka upp viðræður um veiðar Færeyinga á laxi. Svo sérkennilega vill til að það málefni heyrir undir landbrn. hér á landi. Mér finnst að þegar svo er komið sem nú er orðið hljóti það að heyra að einhverju leyti undir utanrrn., utanrrn. þyrfti að hafa það á sinni könnu. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að í því máli verðum við að stórefla allar rannsóknir. Það gæti m.a. orðið til þess að við öðluðumst einhverja vitneskju um laxastofninn yfirleitt, en vitneskja vísindamanna og annarra um hann er sáralítil.

Í tengslum við þessa umræðu vil ég geta þess að ég tel það ekkert síður framtíðarmál, þegar við erum að tala um málefni sem tengjast hafinu í kringum okkur, að við færum að huga betur að því sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir lífsafkomu okkar og nágrannaþjóða okkar á næstu árum. Það eru mál sem snerta mengun sjávarins í kringum okkur og mál sem snerta ferðir kjarnorkuknúinna skipa í nágrenni við okkur og fleira af því tagi. Ég held að brýna nauðsyn beri til að það verði athugað mjög nákvæmlega hvernig t.d. nágrannaþjóðir okkar fara að þegar þær sigla út á hafið, m.a. milli Íslands og Grænlands, með efni, sem sökkt er í sæ, efni sem menn eru að reyna að koma fyrir kattarnef, eiturefni og kannske geislavirk efni. Við vitum lítið um það.

Ég vil láta þess getið að á fundinum með Færeyingunum kom fram mjög mikill ótti hjá Færeyingum vegna þess að þeir töldu að slík mengun sjávarins færi fram ákaflega eftirlitslitið. Ég vil í þessu sambandi beina þeim orðum til hæstv. utanrrh. hvort hann gæti á þessari stundu eða síðar sagt okkur frá því, hvernig Íslendingar fylgjast með þegar t.d. skip fara frá Hollandi, Þýskalandi og öðrum ríkjum á meginlandi Evrópu með varning af þessu tagi út á Norður-Atlantshaf og varpa honum þar í sjóinn. Mér er ekki kunnugt um hvaða eftirlit við getum haft með þessu eða hvaða skýrslur við fáum um þetta. Ég vil bara minna menn á að oft verða óhöpp og slys í sambandi við~að þegar verið er að koma efnum fyrir á þennan hátt. Ég vil spyrja hv. þm. hvað við gerðum hér ef svo illa tækist nú til að eitthvað af þessu færi út í hafið þar sem væru viðkvæmar hrygningarstöðvar þeirra sjávarfiska sem við lifum á. Ég get ekki heldur látið hjá líða, eftir að hafa fengið upplýsingar um þau mál sem ég tel nokkuð öruggar, að lýsa vaxandi áhyggjum mínum af ferðum kjarnorkuknúinna skipa um hafið í nágrenni lands okkar.

Menn svara því oft til að það sé engin hætta af kjarnorkuvopnum sem flutt eru. Þetta er auðvitað alveg hárrétt. Það er engin hætta af þeim. Það er hins vegar hætta af kjarnorkuknúnum skipum. Því neitar enginn. Það hafa orðið slys þegar kjarnorkuknúin skip, bæði kafbátar og ofansjávarskip, hafa misst út geislavirkt kælivatn. Ég vil í þessum umræðum einmitt benda á að þarna er á ferðinni mjög alvarleg hætta fyrir okkar fiskistofna. Ég er hér að tala um mál, sem er hluti af ennþá stærri heild, sem hv. flm. þessarar till. bendir á, að reyna að tryggja rétt og öryggi Íslands gagnvart þeim hafsvæðum, sem við teljum að okkur beri að gæta. Ég get ekki látið þessa umræðu fara fram hjá mér án þess að nefna þessi tvö atriði og spyrjast fyrir um hvað við raunverulega vitum um það hvar og hvernig og hvaða efnum er hent í hafið, sem tengist okkur, hvað við vitum um ferðir t.d. kjarnorkuknúinna skipa á hafsvæðum í nágrenni við okkur, hvaða tryggingu við höfum fyrir því að smáslys geti ekki valdið stórkostlegu tjóni, það miklu tjóni að vart verði lífvænlegt í þessu landi.

Ég held að hér sé á ferðinni mikið framtíðarmál, mál sem við þyrftum að beina sjónum okkar að mun betur en við höfum gert hingað til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hér er á ferðinni hið merkasta mál. Hæstv. utanrrh. hefur svarað því og sýnt og staðfest að hann hefur áhuga á þessu máli og hefur gert ýmislegt til að ýta því áfram.

Ég hef tengt þessu máli tvö önnur atriði, sem ég tel að skipti okkur ekki minna máli en það sem hér um ræðir. Það er raunverulega spurning um lífsafkomu þjóðarinnar og ég held að hver einasti þm., sem um þetta hugsar, hljóti að gera sér grein fyrir því að slys af þeim toga spunnin, sem ég hef verið að ræða hér um, séu svo alvarleg að þau snerti alla lífsafkomu þjóðarinnar á einu bretti. Ég held að við ættum að reyna að gæta þessarar mestu matarkistu veraldar, sem við ráðum yfir, og fara vel með hana. Það gerum við auðvitað best með því að tryggja að hrygningarstofnar, hrygningarsvæði verði ekki eyðilögð af einhverri slysni. Ég vil sem sagt lýsa áhuga mínum á þessu máli, stuðningi við það, fullum stuðningi. Ég get tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, það má hugleiða með hvaða hætti sú nefndarskipun ætti að vera, sem hér er rætt um, en að endingu þetta, sem ég sagði í upphafi: Ég tel fyllstu ástæðu til að þakka 1. flm. fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt á þessu máli, svo og öðrum sem því líkjast.