17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

76. mál, tollskrá

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Rétt í lok síðasta Alþingis flutti ég þetta frv. og er það raunar lítið breytt frá því sem þá var nema að því er varðar 2. gr. frv., þar sem tekin eru upp tvö ný tollnúmer.

Eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt um kemur það greinilega fram í skýrslu starfsskilyrðanefndar að landbúnaðurinn býr að sumu leyti við verri viðskiptakjör er varðar tollamál en aðrir atvinnuvegir og raunar líka fleiri gjöld af sama toga spunnin. Þetta frv. miðar að því að gera aðstöðu landbúnaðarins sambærilega við aðra atvinnuvegi að því er þetta varðar.

Megináhrif þessa frv., ef að lögum yrði, kæmu fram í því að hafa áhrif til lækkunar á fjármagns- og framleiðslukostnaði búvara og þannig yrðu þau áhrif jafnframt jákvæð fyrir hina almennu verðlagsþróun í landinu. Að vísu eru þessi áhrif smá í sniðum, því að hér er ekki um stórar upphæðir að ræða. Það er hins vegar athyglisvert, þegar litið er yfir tollskrárnúmerin og þau síðan borin saman við þær upphæðir sem gefnar eru upp við hvert og eitt þeirra í grg. frv., að það eru vissir liðir sem þarna eru langstærstir í sniðum og þá einkum þeir sem lúta að innflutningi á heyvinnutækjum, rakstrarvélum, múgavélum, áburðardreifurum, dráttarvélum og öðrum slíkum, sem bændunum eru alveg lífsnauðsyn til að geta endurnýjað tækjabúnað sinn svo að hann haldist í eðlilegu horfi. Þar af leiðandi mundu þær breytingar sem leiddu af samþykkt þessa frv. hafa einnig að því leyti jákvæð áhrif að það auðveldaði bændum að endurnýja sinn tækjabúnað og það mundi hafa nokkur áhrif til jöfnunar innan bændastéttarinnar að því er þessi mál varðar líka.

Málið er svo auðskilið að ég sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð að þessu sinni. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að gera tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og þá væntanlega fjh.- og viðskn., þótt ég geri mér reyndar 1 jóst að það hefði verið betur komið í landbn.