17.11.1982
Efri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

76. mál, tollskrá

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með flm. þessa frv., að það er æskilegt og nauðsynlegt að reyna að létta gjöldum af atvinnurekstrinum. Það var einmitt þetta sjónarmið sem hafði þau áhrif, þegar frv. um tollskrá var hér til umr. í Ed. árið 1976, að við meðferð málsins í fjh.- og viðskn. þessarar deildar voru gerðar mjög miklar breytingar á tolli á margvísleg landbúnaðartæki, eins og m.a. þau sem hér eru upp talin. Þegar frv. var lagt fram hér fyrir þessa hv. deild þá var gert ráð fyrir miklu hærri tolli á margvíslegar rekstrarvörur landbúnaðarins, en við meðferð málsins í fjh.- og viðskn. var fallist á þau rök sem borin voru fram um að nauðsyn væri að lækka þetta og það fékkst niður í það mark sem hér er talið upp, en lengra var þá ekki hægt að komast. Eins og sést á útreikningi í grg. frv. er þarna ekki orðið um stóra upphæð að ræða, skiptir ríkissjóð ekki miklu, og miðað við þann mikla mun sem varð á þessu við breytingarnar þá er ekki heldur um háar upphæðir að ræða fyrir landbúnaðinn, en þrátt fyrir það vil ég taka undir að að þessu þarf að stefna.

Ég vil einnig benda á að það getur farið svo, að rekstrarvörur, sérstaklega ef það er um nýjar tegundir að ræða, lendi í miklu hærri tolli en þó hér er upp talið. Mér dettur aðeins í hug, því ég hef fengið nýlegt dæmi um það, nýtt íblöndunarefni við votheysgerð, sem ekki hefur verið flutt áður inn í því skyni. Það lendir í mjög háum tollflokki vegna þess að það hefur ekki áður verið talið þarna koma til greina og hefur því ekki verið sett annars staðar. Vitanlega erum við alltaf að fá ýmsar nýjar rekstrarvörur og þá verður að gæta þess að þar verði breytt til svo að tollur verði ekki óeðlilega hár.

Ég vil sem sagt taka undir þá stefnu, sem fram kemur í þessu frv., að létta gjöldum af rekstrarvörum landbúnaðarins og vænti þess að viðhorfið sé enn óbreytt í fjh.og viðskn. þessarar deildar frá því sem var 1976, þegar hún gerði stórfellt átak til að breyta í betra horf.