17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

4. mál, lokunartími sölubúða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilmundur Gylfason kveðst kunna mína ræðu utanbókar, sem ég mun flytja hér á eftir. Ég held að ég hafi sagt nokkur orð um þetta mál í fyrra, en er enga samantekt með í því efni.

Ég ætla ekki að fara út í umr. um Sjálfstfl., hvenær hann hafi verið frjálslyndur og hvenær hann hafi ekki verið frjálslyndur, hvort hann hafi verið frjálslyndur 1920–1926 eða sé það nú o.s.frv. Það er allt annað mál á dagskrá. Það getur þó vel verið að við séum nokkuð sammála um Sjálfstfl., ég og hv. þm. Að vísu held ég að við séum ekki sammála um tímabilið 1920–1926. En sleppum því.

Hér er til umr. að afnema þá heimild sem sveitarstjórnir hafa haft til að setja reglugerð um lokunartíma sölubúða. Sveitarstjórnir hafa haft heimild til að setja reglugerð um lokunartíma sölubúða. Nú er alltaf verið að tala um að dreifa valdi. Af hverju eiga þm. að fjalla um slík ákvæði? Af hverju ekki að láta lokunartíma sölubúða vera á valdi viðkomandi sveitarfélaga? Hver veit nema hv. þm. heimti þrjár pylsusölur á Lækjartorg einhvern tíma á næstunni. Á að fara að eyða tíma Alþingis í þetta? Það er endemis rugl sem þessi hv. þm. tekur upp í sig.

Hvað er það raunverulega sem hér er deilt um? Það er deilt um hvort sveitarfélög eigi að hafa vald til reglugerðarbreytinga, (Gripið fram i.) afnema reglugerð um heimild til að setja reglugerð um lokun. Það kom fram í umr. á síðasta vetri að í Vestmannaeyjum t.d., það upplýsti hv. þm. Suðurl. Magnús H. Magnússon, væri frjáls opnunar- og lokunartími. Bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar notfærði sér ekki heimild til lokunar. Við því er ekkert að segja. Það hafa engin mótmæli komið fram frá Vestmannaeyjum og sjálfsagt er atvinnulíf þar þannig að það er eining um þetta. Ekki dettur mér til hugar að fara að skipta mér af því. Hitt veit ég og hef reynslu fyrir og tel mig hafa töluverða þekkingu á, að þegar það voru fyrir nokkuð mörgum árum, sennilega svona 10 árum, afnumin í Reykjavík heimildarákvæði um lokunartíma verslana, þá voru verslanir opnar meira og minna til miðnættis og vinnudagur verslunarfólks varð óhóflegur.

Þó að hv. þm. hafi sín orð, sem hann má hafa eins og honum sæmir, um Verslunarmannafélag Reykjavikur, þá segir í greinargerð þess frá því þegar þetta var til umr. hér á þinginu í fyrra: „Upphafið að þessum heimildarlögum, sem fyrst voru sett 1917, var óhóflega langur vinnutími afgreiðslufólks, sem fór eftir opnunartíma verslana.“ Eðli þessara starfsgreina er þannig, að ef ein verslun fer að hafa opið lengur en aðrar opna aðrir kaupmenn til að tryggja rekstursgrundvöll sinna verslana. Þetta verður keðjuverkandi og leiðir til lengri vinnutíma starfsfólks. Þetta lögmál hefur ekkert breyst síðan fyrstu lögin voru sett. Þetta sannaðist þennan tíma, sem ég nefndi. Það var ekki aðeins hið almenna afgreiðslufólk í stórmörkuðunum, samvinnuverslunum, sem var sprungið á þessu. Það var kaupmaðurinn á horninu líka. Einn hafði opið til 8, næsti hafði opið til 9. Það voru þeir sem voru sjálfir gersamlega að springa því að vinnutími þeirra var í mörgum tilfellum orðinn 16 tímar á dag. Segjum gróft reiknað að það séu um 3000 manns sem vinni við 600–700 verslanir í Reykjavík og þær færu að taka upp vaktaskipti á þessu. Mér finnst 3000 manns nægur fjöldi og fer ekki að setja hann upp í 6 þús. eða við skulum segja 4–5 þús.

Hitt er hins vegar annað mál, að það þarf út af fyrir sig að skoða betur hvort ekki sé þörf á að þessi ákvæði verði rýmkuð frá því sem nú er og það kemur frá þessum frægu Kaupmannasamtökum, sem ég er ekki að gerast talsmaður fyrir. (Gripið fram í.) Nei, ég þykist tala hér fyrir hönd almenns verslunarfólks í þessum efnum og þykist þekkja töluvert þar til. Það má vel vera og er sjálfsagt eðlilegt að þarna sé t.d. einhver sérstök kvöld opið, opnunartíminn sé eitthvað rýmri en er. En við skulum bara láta viðkomandi sveitarfélög sjá um það.

Hvað sem líður Sjálfstfl. og hvað sem liður afturhaldssömum verkalýðsforingjum, hafa flokkar klofnað þegar þetta hefur verið til umr. í borgarstjórn Reykjavíkur, bæði Sjálfstfl., Alþb. og Alþfl. Út af fyrir sig er ég nokkuð undrandi að borgarfulltrúar Alþb. skuli ganga svona þvert gegn tillögum viðkomandi sveitarfélags.

Það má vel vera, og ég er ekkert að mæla á móti því, að þarna geti verið um einhverja breytingu á verslunartíma að ræða. En ég vil hafa þessi ákvæði í höndunum á viðkomandi sveitarfélögum. Ég vil ekki taka aftur upp það kerfi, sem gilti hér í um það bil þrjú ár, að flestar verslanir voru opnar fram undir miðnætti og jafnvel sumar yfir miðnætti. Það er ekki til bóta og leiðir fyrst og fremst til þess að álagningarkostnaður verður hækkaður, vaktaskipti tekin upp eða margföld yfirvinna verður sett á í hækkandi verðlagi. Ég held þess vegna að þessi lög, sem upphaflega eru frá 1917 og var breytt 1936, eigi fullan rétt á sér.

Ég ætla mér ekki að gerast dómari um hvað sé rétt í Vestmannaeyjum, hvað sé rangt í Vestmannaeyjum, hvað sé rétt á Ísafirði eða Hvammstanga. Viðkomandi aðilar koma sér saman um það. Ég bara veit að hér á Reykjavíkursvæðinu gaf þetta ákaflega slæma raun og lengdi vinnutíma óhóflega og varð m.a. til þess að kaupmenn komu með rökstuddar kröfur um hækkun á álagningu vegna lengri vinnutíma, vegna yfirvinnu og jafnvel vaktavinnu. Ég er algerlega á móti því. Hinu er ég hins vegar með, að lokunartíminn verði í samvinnu þessara aðila, verslunarsamtakanna og borgaryfirvalda, endurskoðaður og ég held að þar sé fullur vilji hjá Verslunarmannafélaginu að njörva hann ekki neitt ákaflega fast niður.

Hins vegar má geta þess, að verslanir eru þrátt fyrir allt með mun rýmri afgreiðslutíma en opinberar stofnanir. Opinberar stofnanir ganga nefnilega fyrir. Þær loka kl. 4 á daginn, jafnvel fyrr, sumar hverjar loka kl. 3. Ég held að það mætti setja einhverjar ákveðnar reglur um það.

Hvað um það. Ég skal ekki tefja umr. Ég skal hvorki fara út í umr. um Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Kaupmannasamtökin, Sjálfstfl. eða frelsið, sem hv. þm. berst fyrir, og ég skal ekki heldur fara út í það hvað marga menn þarf á lista til að bjóða fram í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ég veit að hv. þm. þarf 24 til að bjóða fram í alþingiskosningum í Reykjavík. Ég vil aðeins segja það, að við skulum hafa þessar heimildir hjá viðkomandi sveitarstjórnum og við skulum ekki vera að þvarga hér um þetta svona, hvorki um einstaka staði, pylsusölur í Reykjavík, né annað þess háttar. Við skulum vísa því til viðkomandi sveitarstjórna.