17.11.1982
Neðri deild: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

4. mál, lokunartími sölubúða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætti að taka undir erindi þeirra sem flytja hér frv. til l. um lokunartíma sölubúða, vegna þess að hagsmunir hv. síðasta ræðumanns, borgarfulltrúa og alþm. Guðrúnar Helgadóttur, og mínir fara nokkuð saman. Við höfum bæði ákveðna vöru að selja og við lifum af ágóðanum af því sem við seljum. Það ætti því að vera minn hagur ekki síður en hennar og umboðslaunin yrðu kannske svolítið meiri ef sölubúðir væru lengur opnar og starfsfólkið hefði minni svefntíma og hvíldartíma heldur en það hefur þó í dag. Ég hefði ekki búist við því að úr ræðustól á hv. Alþingi talaði fulltrúi fólksins, fulltrúi litla fólksins, eins og þeir kalla sig, fulltrúi verkamanna, fulltrúi þeirra sem eru þó meðlimir í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem verkafólk, og prédikaði styttri svefntíma, styttri hvíldartíma. Ég hefði ekki trúað því. En hér er verið að leggja það til að verslanir verði helst eins lengi opnar og hentar viðkomandi hv. alþm.

Hv. 4, þm. Reykv. tók fram að hann vildi ekki láta pólitíska flokka, og umfram allt ekki Sjálfstfl., ráða því hvenær hann verslar. En hann vill ekki heldur láta frjálsa samninga ráða því hvenær fólkið í landinu verslar. Hann vill ráða því sjálfúr hvað lengi fólkið vinnur og hve lítið það sefur og hve litið það fær að hvílast. (VG: Þetta er bull.) (Forseti: Ekki samtal.) (VG: Þetta er rökleysa.) Af því að vitnað er í það að Sjálfstfl. stæði fyrir þessu og Sjálfstfl. stæði fyrir hinu vil ég minna á að ég veit ekki betur en þær reglur sem nú eru í gildi um lokunartíma verslana í Reykjavík — og fara alls ekki að lögum, fara að reglugerðum sem Alþingi hefur falið sveitarfélögum að starfa eftir — hafi verið samþykktar af borgarfulltrúum vinstri meiri hluta. Hv. alþm. Guðrún Helgadóttir var þá í þeim meiri hl. og það var nefnd á vegum þess meiri hl. sem samdi þær reglur sem í gildi eru í dag um lokunartíma verslunarmanna. Þetta er innanhúsmál þessara hv, þm.

Og þó að hv. 4. þm. Reykv. berji á Sjálfstfl. þá veit ég ekki betur en allir f(okkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi og í borgarstjórn, séu hans andstæðingar, allir með tölu að hann segir. En þetta er flokkarnir sem settu reglurnar um lokunartíma verslana. Og lokunartími verslana er samþykktur af Sjálfstfl. vegna þess að hann er til kominn í frjálsum samningum milli starfsfólks og atvinnurekenda, í frjálsum samningum fyrir milligöngu borgarstjórnar Reykjavíkur, undir vinstri meiri hl. en þó samþykktur af flestum borgarfulltrúum Sjálfstfl., vegna þess að það ríkti friður um þessa ráðstöfun.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason, 4. þm. Reykv. ennþá, hefur hvað eftir annað komið hér upp í þennan virðulega ræðustól og reynt á sinn máta að brjóta niður samtök vinnandi fólks. Það er hann einnig að gera með málflutningi sínum hér og nú. Hann deilir á menn til hægri og vinstri og flokka líka, (VG: Sérstaklega á þá.) og sérstaklega á þá sem eru fjarstaddir. Formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur er ekki hér á Alþingi og ég frábið því að á hann sé deilt hér. Það eru nógir aðrir vettvangar til þess. Þetta er starfsfélagi minn á öðrum vettvangi og ég veit ekki betur en hann hafi gegnt sínu hlutverki með miklum sóma. En hv. 4. þm. Reykv. getur bókstaflega ekki upp í þennan ræðustól komið eða úr honum farið án þess að reyna að sverta mannorð eins eða annars, bæði nærstaddra og fjarstaddra. Það er kominn tími til að annað og meira komi hér á dagskrá en slíkur málflutningur. Þetta er átakanleg staðreynd. Þetta er orðið leiðindatal á hverjum einasta þingfundi.

Það er styrkur afreksmanna og það er styrkur þeirra sem skara fram úr — og af því skara þeir fram úr — að þeir þola að eiga baráttuglaða og sterka andstæðinga. Það sannast á Sjálfstfl. Hann er sterkur og stór og samanstendur af fólki úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Þess vegna tökum við því með þökkum að á okkur sé deilt. Þið megið skamma okkur eins mikið og þið getið. En haldið ykkur að öðru en pylsusölu. Haldið ykkur að þ jóðmálum almennt. Við erum málefnalegir og við skulum mæta ykkur á hvaða málasviði sem er. Í Sjálfstfl. býr sá vilji og sá kraftur sem þarf til þess að ráða við hvern ykkar sem er. Ég tala nú ekki um hv. 4. þm. Reykv., sem mér skilst að dingli svona í lausu lofti og berjist á móti öllum flokkum.

En hvaða tal er þetta? Er verslunarfólk eitt og neytendur eitthvað annað? Geta menn ekki litið á fólkið í landinu í einu samhengi, sem eina heild? Þarf að vera að hólfa fólkið í þetta eða hitt? Þetta eru allt neytendur, hvort sem þeir vinna hér eða þar. Það er alveg rétt sem kom hér fram hjá hv. 7. þm. Reykv. Verslunarmenn eiga að standa og þjóna, það á jafnvel núna að ganga enn meira á hvíldartíma, allt að því svefntíma þeirra, en opinberar stofnanir eiga að geta lokað á miðjum degi og opnað á miðjum morgni. Það er ekki talað um að breyta skuli opnunartíma eða lokunartíma hjá þeim. Verslunarfólk á að fara úr sínum störfum, það á að ganga út úr fyrirtækjunum á daginn á þeim tíma sem opinberum aðilum þóknast að taka við því, það á að ganga út — á kostnað hins frjálsa verslunarrekanda skulum við segja — og greiða sín gjöld, að öðrum kosti liggja undir hamrinum. Nei, þetta er ekki góður málflutningur.

Ég óska Alþb. til hamingju ennþá einu sinni með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í baráttuliði fyrir litla manninn, en nú með öðrum baráttumönnum vinstri hreyfingarinnar, ég veit ekki hvaða flokk ég á að tala um í bili, en alla vega baráttumönnum vinstri hreyfingarinnar á Alþingi, að gera nú till. um það að fólkið, sem verður að fara úr vinnu, ef það á ekki að fara undir hamarinn, til að standa í skilum við opinbera aðila, það skuli nú ganga enn frekar á sinn hvíldartíma og svefntíma. (Gripið fram í.) Ég er að segja það vegna þess að þið eruð að tala um að lengja vinnutíma þessa fólks.

Og ég vil segja alveg eins og er að menn hljóta að ganga blindir um borgina ef þeir sjá ekki að sá ágóði, sem er af verslun og viðskiptum í Reykjavíkurborg, hefur svo sannarlega farið til þess að bæta aðstöðu fólksins á vinnustöðunum. Á mörgum stöðum hér, mörgum sinnum fleiri en áður var þegar best gekk, eru vinnustaðir orðnir hreint til fyrirmyndar, bæði í sjávarútvegi, landbúnaði og versluninni almennt. Allur þessi málflutningur er því ofan garðs og neðan, enda hafa þeir sem hingað til hafa talað hér alls enga reynslu frá þessu sviði atvinnulífsins í landinu.

Það er verið að tala um að þurft hafi vinstri meiri hluta til þess að markaður kæmi í Reykjavík. Ég hélt að háskólapróf í sögu næði yfir lengra tímabil en daginn í gær. Þegar ég var hér á unga aldri voru markaðir hér á torgum, selt bæði grænmeti og fiskafurðir. Það var á Óðinstorgi, það var á Vitatorgi, það var hingað og þangað, það var hér niður við Ellingsentorgið sem kallað var, Ellingsenplanið. Þetta var um allt þrátt fyrir það að Sjálfstfl. hafi verið við stjórn í borginni. En hvað skeður svo? Það er borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstfl. sem breytir Austurstræti eða hluta af því í göngugötu og gerbreytir Lækjartorgi — þar sem áður keyrðu strætisvagnar í hring fyrir minni hv. þm. sem hér hafa tekið til máls í þessu máli — sem breytir þessu í göngutorg og göngugötu. Og þá skeður það að komin er umsókn um torgsölu. Það er því ekki vinstri meiri hlutinn sem skapaði þann möguleika. Það var Sjálfstfl. sem það gerði.

En ég vil undirstrika að það er ekki samkv. lögum, Reykjavíkurborg semur ekki nein lög, heldur er það borgarstjórn sem setur reglur að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Og í þessu tilfelli eru reglur settar með fullu samkomulagi við bæði atvinnurekendur og verslunareigendur og starfsfólk verslana. Það er ekki Geir Hallgrímsson, það er ekki Albert Guðmundsson, það er ekki Guðmundur J. Guðmundsson, sem ráða því hvenær Vilmundur Gylfason verslar í Reykjavík.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að taka hér sérstaklega upp hanskann, ef svo mætti að orði kveða, fyrir Sjálfstfl. Inn í umr. sem þessar eiga flokkarnir ekki að koma sem slíkir. Á dagskrá er ekki málefni flokkanna sem slíkra. Aftur á móti er kannske kominn tími til — ef hv. 4. þm. Reykv. vill taka það sérstaklega á dagskrá, flytja um það frv. eða flytja það á annan hátt inn á hv. Alþingi — að ræða um stjórnmálaflokkana. Og þá getur hann verið þess fullviss, að Sjálfstfl. er hvergi í vörn, hann er hvergi í vörn í neinum málflutningi þessara hv. þm. vinstri fylkingar, sem hér hefur verið að veikjast, að hrynja í sundur frá einum degi til annars. Ég á von á frekari fréttum í þá átt á sama tíma sem Sjálfstfl. er daglega að styrkjast. (VG: Ertu með eða á móti Framkvæmdastofnun?) Ég hef verið á móti Framkvæmdastofnun frá upphafi. (VG: En Sjálfstfl.?) Það hefur aldrei nokkurn tíma verið neinn vafi á því. (Forseti: Það er einn í ræðustól.) Herra forseti. Ég er tilbúinn til að víkja úr ræðustól augnablik ef hv. þm ... (Forseti: Ég vænti þess að þm. virði þingsköp.) Mér finnst nú, miðað við samsetningu á Alþingi, að það sé of langt gengið af forseta að ætlast til þess að allir þm. virði þingsköp. En ég skal a.m.k. gera það hér eftir sem hingað til.

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. Ég vona að ég þurfi ekki að gefnu tilefni að koma hingað upp í ræðustól aftur í þessu máli, sem er ekkert mál.