18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það munu vera þinglegir siðir að láta forseta Sþ. og hv. alþm. um það vita, að ég, 4. þm. Reykv., hef með bréfi, dags. 18. nóv. 1982, til hv. 2. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, sagt skilið við minn gamla stjórnmálaflokk, Alþfl., og telst því ekki lengur til þingflokks þess flokks. Að því er séð verður hefur þessi tilfærsla engin áhrif á stöðu ríkisstj. Ég hef verið og verð í stjórnarandstöðu og hygg að svo sé einnig farið með minn gamla flokk. Það er, herra forseti, ævinlega sárt að skilja við samtök sem maður hefur tekið þátt í af lífi og áhuga, ekki vegna flokks heldur vegna fólks. En vindar lífsins munu áfram velta um þrátt fyrir þessa daga og þrátt fyrir allt.

Jafnframt, herra forseti, hefur í dag verið lögð fram þáltill.um aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds og beina kosningu forsrh. Þetta þskj. verður eitt af stefnumálum samtaka sem eru í undirbúningi og munu nefnast Bandalag jafnaðarmanna. Ég vil þó skýrt taka fram, að hér er ekki um að ræða klofning af einu eða neinu tagi, eins og hv. 2. þm. Reykn. gat réttilega um í sjónvarpi í fyrrakvöld, þó ekki væri nema þegar af þeirri ástæðu að við munum eiga samherja úr gamla flokkskerfinu þveru og endilöngu. Við myndum bandalag gegn flokkunum. Þetta er tilraun sem kannske heppnast, kannske misheppnast. Það verður að koma í ljós. Innan tíðar verður lögð fram málaskrá og nafnalisti miðstjórnar og enn síðar verða framboð kynnt.

Herra forseti. Í þskj. með þáltill. þeirri, sem lögð hefur verið fram í dag, eru ritgerðir eftir tvo fræðimenn, hvorn í sinni grein, þá dr. Gylfa Þ. Gíslason og Ólaf Jóhannesson núv. hæstv. utanrrh. Það þarf auðvitað ekki að taka fram, að birting þessara ritgerða, sem birtust í einhverju ágætasta og umbótasinnaðasta tímariti sinnar tíðar, tímaritinu Helgafelli, árið 1945, hefur engar frekari pólitískar meiningar, heldur er hér leitast við að afla málstað fylgis með fræðilegum rökum. Vitaskuld skiptir máli, að inntak þessara ritgerða fer mjög saman við hugmyndir í ályktunargreinunum. Meira máli skiptir þó, að báðir hinir ungu háskólakennarar lögðu á það áherslu hvor með sínum hætti, en með áherslu á þjóðkjör, að lýðræði stafaði hætta af óeðlilegu flokkavaldi. Einmitt þetta verður snar þáttur í heimspeki Bandalags jafnaðarmanna, bandalagsins gegn flokkunum. Flokkavaldið, hið þrönga vald, hið fáa fólk, hefur gert þessari þjóð og þessu landi of mikið illt.