18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem ég ásamt hv. 5. landsk. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni flyt á þskj. 34, fjallar um hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að tryggja formlega þau ótvíræðu réttindi til hafsbotnsins á Reykjaneshrygg og út frá hlíðum hans sem Ísland á tilkall til samkv. 76. gr. Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Þegar börn okkar og aðrir afkomendur líta til baka til þess tímabils sem liðið er frá stofnun lýðveldis á Íslandi og einangra sig við þann þátt þeirra framfara og þeirra sigra sem íslenska þjóðin hefur stærsta unnið mun eitt hið athyglisverðasta vera þeir merku áfangar og sigrar sem þjóðin hefur unnið í sambandi við stækkun fiskveiðilögsögunnar á liðnum áratugum. Allt frá fyrstu friðunaraðgerðum okkar, lokun flóa, útfærslu grunnlina, útfærslu í 12 mílur, í 50 mílur og svo stökkið stóra og síðasta í 200 mílur með fiskveiðilögsöguna. Þetta hefði þótt með nokkrum ólíkindum á fyrstu árum þessarar aldar, þegar verið var að berjast við erlenda landhelgisbrjóta, sem beittu veiðarfærum sínum upp í fjöruborð eins og það var kallað. Ég leyfi mér að fullyrða, að enn einn áfangi sem teljast verður til þeirra sigra, sé samþykki Sameinuðu þjóðanna á hafréttarsáttmálanum, sem við Íslendingar höfum með marga af okkar bestu mönnum í fararbroddi staðið að að fá samþykktan.

Það má vera, að almenningur geri sér ekki fulla grein fyrir þýðingu þessa sáttmála, því að oft hafa þm. og reyndar þjóðin öll ekki horft lengra í sambandi við fiskveiðilögsögumálið en til þess sem út úr áunnum réttindum mætti hafa á líðandi stund, hve mikið gagnið yrði í krónum talið, hve afraksturinn yrði svo standa mætti undir kröfum þess þjóðfélags sem við búum í, þeim kröfum sem velferðarþjóðfélagið gerir. Í þessu sambandi er raunar skylt að minnast á öll þau hrakyrði sem Alþingi og alþm. hafa verið búin á liðnum áratug fyrir að halda útí sendinefnd til að gæta þegar fenginna réttinda og vinna okkur ný réttindi á þessum vettvangi. Ég tel að Jan Mayen sé fyrsta raunverulega sporið sem við stígum til þess að tryggja ókomnum kynslóðum á Íslandi hugsanlegan afrakstur af auðæfum sem á hafsbotni og undir honum eru, og minnist ég þess, að þegar þessi samningur var til umr. í mínum þingflokki, þingflokki Sjálfstfl., var einmitt þessi skoðun undirstrikuð mjög sterklega. Ég minni á í þessu sambandi að það hefur ekki fyrr en nú á allra síðustu tímum hvarflað að okkur að undir hafsbotni innan okkar fiskveiðilögsögu væru nýtanleg verðmæti. Má vera að það sé af meðfæddri tortryggni á allt sem nýtt er og varðar þau þýðingarmiklu hafsvæði sem hið næsta okkur eru og hafa fætt og klætt íslenska þjóð frá alda öðli.

Fyrir nokkrum dögum urðu gagnmerkar umr. hér á hv. Alþingi þegar meðflm. minn að þessari þáltill. mælti fyrir annarri till., um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri, sem hann er 1. flm. að og flytur ásamt nokkrum þm. Sjálfstfl. Í þeirri umr. töluðu fulltrúar allra flokka hér á Alþingi og tóku undir þáltill. En í sambandi við umr. um till., sem ég hér vitna til, kom fram hjá hæstv. utanrrh. að þar væri um að ræða mjög stórt mál og hann sagði í sinni ræðu þá, að

það væri um tvö réttindasvæði okkar að ræða, sem við ættum að kanna gaumgæfilega á næstunni, Rockall-svæðið, sem þá var til umr., og svo Reykjanessvæðið, sem er til umr. nú vegna tillögunnar sem hér er á dagskrá.

Á því er enginn vafi og enda vitað, að strandþjóðir víða um heim eru nú að tryggja sér hafsbotnsréttindi utan 200 mílna efnahagslögsögu sinnar í framhaldi af hinum nýja hafréttarsáttmála. Ef vitna á til og vinna á grundvelli 76. gr. hafréttarsáttmálans er beinna aðgerða þörf af hálfu strandríkisins sem á þessu hefur áhuga og vill að þessu vinna. Á þetta hefur verið bent hér á hv. Alþingi, enda hafa verið samþykktar gagnmerkar tillögur, t.d. frá 22. des. 1978, þegar þáltill, um rannsókn landgrunns Íslands var samþykki. Hún er þess efnis, að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að ráða þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja. Ennfremur má benda á þáltill. sem samþykkt var hér á hv. Alþingi 19. maí 1980 um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri og samvinnu við Færeyinga. Segja má, að till. sem mælt var fyrir um daginn hér á hv. Alþingi sé frekari árétting þeirrar till. Fleira hefur verið gert og hefur till. verið vísað til ríkisstj., m.a. till. um landgrunnsmörk Íslands til suðurs, sem var á þá leið að Alþingi lýsti því yfir að ytri landgrunnsmörk Íslands verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna yrði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna. Undir þessa till. skrifuðu allir nm. utanrmn. og henni var vísað til ríkisstj. með shlj. atkv.

Ég vænti þess að þessari till., sem ég mæli fyrir, sem ég flyt ásamt hv. 5. landsk. þm., verði tekið jafnvel og ekki síður en þeim sem ég hef hér drepið á. Grundvöllinn að réttindakröfu okkar Íslendinga samkv. þessari þáltill. er að finna í 76. gr. hafréttarsáttmálans, en þar er að finna mjög flóknar reglur um rétt strandríkis til hafsbotnsins utan 200 mílnanna, þar sem m.a. er miðað við þykki setlaga, 2500 metra dýptarlinu, 350 mílna víðáttu frá grunnlínum o.s.frv. En megináhersla er lögð á það sem kallað er eðlileg framlenging landsins eða „natural prolongation“. Nákvæma skilgreiningu þess hugtaks er þó hvergi að finna, en almennt viðurkennt að þar geti bæði verið um að ræða lögun hafsbotnsins eða landslagið og eiginlega jarðfræði, þ.e. að uppruni og efni botnsins séu sömu gerðar og landsins. Er þá gjarnan talað um tvær megingerðir, þ.e. úthafsbotn eða basalt eða meginlandsgerð gamals bergs eða setlaga.

Nú er ljóst, eins og segir í sjálfri þáltill. sem við ræðum hér, að réttindi okkar til hafsbotnsins yfir Reykjaneshrygg eru ótvíræð samkv. hafréttarsáttmálanum og það gerir okkur málið auðveldara að fá þessi réttindi formlega tryggð og viðurkennd að önnur ríki munu ekki geta gert neina kröfu til slíkra réttinda á þessu hafsvæði. Því þurfum við hvorki að beita sömu rökum né aðferðum og við höfum beitt í sambandi við viðræður okkar, sem eru þó óformlegar enn þá, en hafa átt sér stað í sambandi við svæðið fyrir sunnan okkar, og ekki sömu rökum og beitt var í sambandi við Jan Mayen-samkomulagið, en það samkomulag hefur efalaust markað tímamót því að það samkomulagvar gert á grundvelli uppkastsins að hafréttarsáttmálanum og var því strax skoðað sem þýðingarmikið framlag við þróun þessara mála.

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir, eins og ég hef þegar sagt, Íslendingum réttindi yfir hafsbotninum á Reykjaneshrygg og auðæfum hans allt út í 350 mílur frá grunnlínum. Samkv. 76. gr. sáttmálans verða strandríkin sjálf að gangast í því að tryggja sér þau réttindi sem sáttmálinn heimilar þeim. Okkur flm. er ekki kunnugt um að íslensk stjórnvöld hafi fram að þessu hafist handa í þessum efnum, þótt strandríki víða um heim vinni nú að því að tryggja sér réttindi yfir hafsbotni utan 200 mílna efnahagslögsögu sinnar. Hafsbotnsréttindi taka til allra auðæfa sem í jarðlögum botnsins finnast, svo og allra lífvera sem ekki hreyfa sig án snertingar við botninn. Þannig á jarðhiti á Reykjaneshrygg að tilheyra Íslandi, svo og hugsanlegir málmar, sem m.a. geta myndast við neðansjávarumbrot og samþjöppun við mikinn hita. Þar að auki er líklegt að þar sé að finna skel- og krabbadýr, sem eftir skilgreiningu hafréttarsáttmálans tilheyra botninum. En jafnvel þó að ekki sé vissa fyrir því að þessi verðmæti séu nýtanleg í náinni framtíð ber að tryggja Íslandi yfirráðin þó ekki væri til annars en að hindra jarðrask annarra og eyðileggingu hafsvæða og ennfremur, eins og ég hef þegar bent á, að tryggja óbornum kynslóðum á Íslandi þessi hugsanlegu verðmæti. Þar að auki er ljóst að yfirráðaréttur yfir botninum eykur áhrifin á stjórnun fiskveiða yfir honum bæði beint og óbeint þegar í stað og þróunin á vafalaust eftir að verða sú að áhrif þessi aukast. Þykir mér hér einmitt vera komið að einu meginmáli þess að við hefjumst þegar handa um að tryggja okkur þessi réttindi.

Það er ekki ýkjalangt síðan fréttir bárust um að Rússar stunduðu gegndarlausa rányrkju á karfamiðunum á Reykjaneshrygg og það er vitað að Vestur-Þjóðverjar hafa verið þar stórtækir einnig, en þessi karfamið eru hin mikilvægustu fyrir íslenska togaraútgerð. Þegar hafður er í huga samningurinn um reglur um fiskveiðar á Norður-Atlantshafi frá 19. maí 1969, sem undirritaður hefur verið af nær öllum Vestur-Evrópuþjóðum, þar á meðal Vestur-Þjóðverjum og Rússum, en hann heimilar eftirlitsskipum okkar m.a. eftirlit með veiðarfærum, má ljóst vera að slíkt eftirlit á hafsvæði sem er yfir hafsbotni sem er okkar verður áhrifameira en utan þess. Ég ætla ekki að tíunda frekar hversu áhrifaríkt slíkt eftirlit getur orðið, en ég fullyrði að úr gegndarlausri ásókn má draga verulega.

Að síðustu vil ég, herra forseti, taka undir með þeim hv. þm. sem töluðu hér um hið skylda mál í fyrradag, um þáltill. um hafsbotnsréttindi Íslands í suðri, og undir þau ummæli þm. að það er einn ávinningur réttinda eins og þáltill. þessi fjallar um að þau heimila okkur skilyrðislaust bann við losun úrgangsefna sem til botns falla á þessu hafsvæði.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þegar þessari umr. lýkur verði umr. frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.