18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við þá ágætu ræðu, sem hv. 1. flm. flutti hér áðan, og þær ítarlegu skýringar, sem hann gaf, en þó eru kannske nokkrar fyllri skýringar, sem mættu gjarnan fram koma því að hér er vissulega um stórmál að ræða.

Það er rétt, sem hæstv. utanrrh. gat um áðan, að Karl Gunnarsson jarðfræðingur hefur skrifað um landgrunn Íslands hina merkustu ritgerð og Guðmundur Pálmason sömuleiðis gefið fulltrúum Hafréttarráðstefnu margháttaðar upplýsingar.

Það má gjarnan rifja upp einstök atriði í þessu máli. Þannig t.d. heldur Karl Gunnarsson því fram og er raunar vitað, að allnokkur setlög séu í hlíðum Reykjaneshryggjar, en eitt af þeim atriðum sem talin eru upp í 76. gr. og styrkir réttindi til landgrunnsins eru einmitt setlögin. Hann bendir á að hlaðist hafi upp miklir setlagaskaflar á svokölluðum Garðarshrygg, sem raunar er kenndur við Garðar Svavarsson og liggur meðfram Reykjaneshryggnum endilöngum neðarlega í hlíðunum, og það er auðvitað okkur til styrktar í þessu máli.

En Guðmundur Pálmason hefur raunar enn meira um þetta mál að segja. Hann bendir á að setframburður frá Íslandi hafi borist alla leið suður í Biskayaflóa einmitt um þessar slóðir og sitji þar eftir svo og svo mikið af þeim setlögum. Hann bendir á að Reykjaneshryggur sé fjallgarður, sem er flatur að ofan og 50 km breiður, og síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Vel má líta svo á, að þessi fjallgarður sé hluti af landgrunni Íslands og hlíðar hans landgrunnsbrekka.“ Og hann bætir við: „Með góðum rökum má lita svo á, að Reykjaneshryggurinn sé „natural prolongation“ frá Íslandi talsvert lengra suður eftir.“ Enn segir Guðmundur Pálmason og það tel ég rétt að hér komi fram því að menn halda kannske að þarna geti ekki verið um mjög mikla hagsmuni að ræða. Þó að ég telji að hv. frsm. hafi sýnt fram á þá hagsmuni má enn bæta við því sem Guðmundur Pálmason segir um þetta mál:

„Þótt líkur séu fyrir fram ekki miklar á verðmætum jarðefnum á Reykjaneshrygg er þó að litt rannsökuðu máli ekki rétt að útiloka slíkt. Miklar líkur eru á að jarðhitasvæði séu þar svipuð og í gosbeltinu á Íslandi. Sjór getur sigið djúpt niður í jarðskorpuna, hitnað upp og komið upp aftur sem heitur jarðsjór. En efnaskipti verða milli jarðsjávarins og bergsins væntanlega eitthvað svipað og á sér stað á jarðhitasvæðinu á Reykjanesi, sem hefur verið rannsakað talsvert. Margir telja að til slíkra fyrirbæra megi rekja söfnun verðmætra málmefna á ákveðna staði í jarðarskorpunni. Hér skal engu um það spáð hversu raunhæfar slíkar hugmyndir reynast, en ástæðulaust virðist annað en að reyna að ná þeim réttindum á Reykjaneshrygg sem hægt er. Hryggurinn er óumdeilanlega „natural prolongation“ af Íslandi, en á ekkert skylt jarðfræðilega við landgrunn Grænlands eða Evrópu.“

Hér tekur Guðmundur Pálmason, okkar helsti sérfræðingur á þessu sviði, það alveg ótvírætt fram að hryggurinn sé eðlilegt framhald Íslands eins og „natural prolongation“ hefur verið skýrt, sem raunar er þó harla lítið skilgreint að öðru leyti eins og frsm. raunar gat um og skýrði alveg réttilega.

En þá kemur að því hvernig ætti að afmarka nákvæmlega þessi hafsbotnsréttindi og einmitt þess vegna er nú till. þessi flutt að það er ástæða til að hraða þeirri rannsókn. Það er ekki endilega alveg einfalt mál hvernig það eigi að gerast. Ég veit ekki satt að segja hvað hæstv. utanrrh. átti við með að hnútur væru í grg. Ég held það gæti þá varla verið annað en það sem sagt er í sambandi við efnahagssamninginn, sem er kannske aukaatriði þessa máls. (Gripið fram í.) Það er kannske aukaatriði þessa máls.

Við skulum reyna að halda okkur að aðalefninu, sem er hvernig afmarka eigi þetta svæði. Þá held ég að við getum með mjög miklum rétti haldið því fram að það eigi að afmarkast alveg frá efnahagslögsögu Grænlands að vestanverðu og alveg yfir undir Rockall-svæðið að austanverðu, þannig að þegar við næðum réttindum á Rockall-svæðinu, annaðhvort einir eða með öðrum, yrði þetta samtengt hafsbotnssvæði: það yrði eignarréttur á hafsbotninum alveg frá grænlensku efnahagslögsögunni og yfir á Rockall-svæðið og svo suður með því að svo miklu leyti sem við náum þar réttindum. Ég held að við eigum að reyna að rökstyðja þetta og ég geri mér miklar vonir um að hægt sé að rökstyðja það.

Það er rétt að 76. gr. hafréttarsáttmálans er mjög flókin. Ég efast um að nokkur treysti sér til að fullyrða út í hörgul nákvæmlega hvernig skilja beri hvert einstaka atriði þar, enda hefur mikið verið um skilninginn deilt einmitt á Hafréttarráðstefnunni. Greinin er sem sagt í mótun þrátt fyrir orðalagið, þ.e. framkvæmdin er í mótun, og þess vegna ríður á miklu að við túlkum hvert einstakt atriði á þann veg sem okkur er hagstæðast, auðvitað með rökstuðningi, er. það verða áreiðanlega nægir til að koma með gagnrökin og þess vegna þurfum við ekki að draga þau fram. Að því er sérstaklega varðar Reykjaneshrygginn er það að vísu svo, að ég á ekki von á að neinir reyni að koma þar fram með gagnrök, því að við eigum þar enga andstæðinga. Það eru engir aðrir sem geta gert tilkall til hafsbotnsins þar, eins og Guðmundur Pálmason leggur áherslu á. Það getur ekki með neinu móti talist um að ræða neina framlengingu frá Grænlandi og þess vegna ættum við einir að sitja að þessu.

Það er rétt, sem hæstv. utanrrh. gat um, að Hans G. Andersen gaf um það yfirlýsingu, þegar við samþykktum orðalag í 76. gr., sem um þetta fjallar, að við ætluðum að helga okkur Reykjaneshrygg og teldum að það rúmaðist innan ákvæðis þess sem þá var verið að ganga frá. En það gerðist miklu meira og kannske merkilegra. Það var að það voru Rússar sem beittu sér fyrir þessu breytta orðalagi. Við áttum með þeim fundi, rússnesku sendinefndarmönnunum, og þeir beinlínis lýstu því yfir í ræðu að Íslendingar hefðu rétt til 150 mílna á Reykjaneshrygg. Það er hrein yfirlýsing flm. sjálfra. Það sem Hans G. Andersen sagði var aðeins árétting til að undirstrika enn frekar að flm. sjálfir hefðu lýst þessu yfir og engir andmæltu því. Við héldum sem sagt tvo eða þrjá fundi með rússnesku sendinefndarmönnunum því að við vorum satt að segja mjög uggandi um að þetta orðalag kynni að verða skýrt í framtíðinni okkur í óhag. En ég held að alveg sé sett undir þann leka einmitt með því að fá Rússana sjálfa til að gefa þessa yfirlýsingu. Ég tek svo vissulega undir þá skoðun hæstv. utanrrh. að ástæða sé til að fá álit Hans G. Andersens á þessu efni og gjarnan Evensens eða einhverra annarra líka. Síst mundi ég harma það.

Ég held að það hljóti hins vegar að byggjast á einhverjum misskilningi að bandarískir sérfræðingar telji að réttindin þarna nái einungis 150 mílur frá grunnlínu. Það hlýtur að byggjast á einhverjum misskilningi í upplýsingum sem hæstv. ráðh. hefur fengið, því að það er alveg ljóst að eignarrétturinn á hafsbotninum tilheyri 200 mílna efnahagslögsögunni svo langt sem hún nær. Það þarf ekkert að tala um það sem er fyrir innan 200 mílurnar. Ég held að misskilningurinn hljóti að byggjast á því, að bandarískir sérfræðingar vilja einskorða framlenginguna utan við 200 mílurnar við 150 mílur, þ.e. 350 mílurnar, og það er ekki heldur meira sem við förum fram á en þessar 350 mílur. Hitt held ég að hljóti að vera alger misskilningur. Þetta byggist líklega á því, að þeir vilja einskorða framlengingu á hryggnum við 150 sjómílur út fyrir efnahagslögsöguna eða 350 mílur alls. Um þetta stóðu einmitt deilurnar. Iðnríkin vildu sum hver takmarka þessi réttindi. Rússar fluttu upphaflega till. um að þarna yrðu 300 mílur eða 100 mílur út fyrir 200, en síðan var gert allsherjar samkomulag um að miða við 1 50 mílna mörkin og það er nákvæmlega það sem við höldum okkur að í þessari tillögugerð.

En ástæðan til þess að þessi till. er flutt núna í tengslum við till. um Rockall-svæðið er auðvitað tvíþætt: Annars vegar væri æskilegast að ákveða þessi mörk sameiginlega og tengja þau svæði saman þannig að þar yrði ekkert bil á milli, og full rök virðast mér hníga að því að gera það. Hins vegar er svo hitt, að ríkin þurfa að gera reka að því að ná sínum réttindum meðal annars með því að tilkynna það til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna og þau þurfa að leggja fram kort og annað slíkt og miklar upplýsingar til að rökstyðja þetta. Þess vegna er ekki seinna vænna en reyna að afla álitsgerðarinnar sem hæstv. ráðh. gat um og einnig jarðfræðilegra álitsgerða og alls þess rökstuðnings sem við þurfum að hafa í höndum. En ég á von á að um þetta, nákvæmlega eins og Rockall-till., hljóti að verða fullt samkomulag og allir sameinist um að halda fram hinum íslenska rétti og draga í engu úr honum, því að saman hljótum við að standa um þetta eins og önnur hafréttarmálefni.