18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

34. mál, hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir undirtektir hans og reyndar ábendingar líka, sem fram komu í ræðu hans áðan. Hins vegar verð ég að segja það, að ég harma að helst mátti heyra á tali hans að hann drægi nokkuð í efa að samningurinn næði sínu lögformlega gildi með undirskriftum og svo löggildingu á eftir. Ég er í góðri trú eftir það sem á undan er gengið, og hef þar fyrir mér m.a. ummæli þeirra sem hafa setið þessa ráðstefnufundi á undanförnum árum, ég hef þeirra trú á málinu fyrir mér, þegar ég segi hiklaust að þessi samningur sé orðinn að veruleika eftir hið mikla þref og þau miklu fundahöld, sem við öll sem hér sitjum þekkjum, þótt nokkuð sé til leiðarloka. Ég sé ekki annað í sambandi við þetta mál og hitt málið, sem nokkuð hefur komið inn í þessa umr., en gamla máltækið, að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið, eigi fullkomlega hér við. Hæstv. ráðh. sagði „við erum ekki að missa tíma“, en ég vil leyfa mér að benda á að hvernig sem vantrauststill. verður afgreidd hér n.k. þriðjudag gæti verið að við værum að missa hæstv. utanrrh. Ég hef mikla trú á honum sem utanrrh. og ég hefði helst viljað að að málinu væri gengið meðan hann gegndi því embætti. Að öðru leyti fel ég ekki að líf þessarar ríkisstj. sé mjög vænlegt á næstu misserum, svo ekki sé meira sagt.

Mér þykir vænt um að heyra það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði hér um yfirlýsingu Rússa í sambandi við Reykjaneshrygginn. Ég hafði áður heyrt um yfirlýsingu Hans G. Andersens í sambandi við þessa grein og þennan tölul. í 76. gr., sem hann gaf um rétt okkar til hafsbotnssvæðisins á Reykjaneshrygg, en ég hafði ekki heyrt að hún hefði komið í kjölfar yfirlýsingar rússneskra sendinefndarmanna. Ég gleðst mjög yfir því.

Við eigum ekki bara að hugsa okkur að leita bæði til Hans G. Andersens að fá álit hans og til Evensens og jafnvel fleiri erlendra sérfræðinga á þessu sviði. Ég hefði talið að við ættum þegar að hafa hafist handa þar um, samanber þáltill. sem samþykkt var 22. desember 1978 og hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að ráða nú þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja.“