18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Eins og að líkum lætur hafa orðið allmiklar umræður um hinar gegndarlausu laxveiðar Færeyinga í sjó, sem þeir hafa nú stundað um tveggja eða þriggja ára skeið, að vísu nokkru lengur í miklu, miklu minna mæli, og afleiðingar þær sem það hefur fyrir Atlantshafslaxastofninn bæði hér á Íslandi og í öðrum ríkjum. Þetta athæfi get ég varla kallað annað en bæði siðlaust og löglaust. Þess vegna er till. sú til þál. sem hér liggur fyrir flutt af okkur hv. þm. Albert Guðmundssyni. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að stöðva rányrkju Færeyinga við veiðar Atlantshafslaxins í efnahagslögsögu sinni og hafa um það samráð við önnur upprunalönd laxastofnsins ef nauðsynlegt reynist.“

Í 66. gr. hafréttarsáttmálans er tekið fram í 1. tölul. að upprunaríki laxastofna og þeirra fiska sem hrygna í fersku vatni hafi bæði réttindi og skyldur til að varðveita þessa fiskstofna og eigi beinlínis að tryggja það. Það eru í mjög veigamiklum atriðum allt aðrar reglur um þessa fiskstofna en alla aðra. Það má nánast segja að andi greinarinnar sé sá, að upprunaríkið eigi þessa fiskstofna og geti hindrað ofveiðar a.m.k., og jafnvel allar veiðar hvar sem þessi stofn fer, hvort heldur er innan efnahagslögsögu eða utan. Það eru að vísu örlítil frávik frá þessu í ákveðnum greinum sem ég skal koma að nánar.

Það gerðist hér í vetur að samþykktur var samningur um verndun lax á Norður-Atlantshafi, eins og það er kallað. Þessi samningur kom að sjálfsögðu fyrir utanrmn. Ég á þar sæti og verð að játa það, að mér kom það allmikið á óvart að lesa þann samning. Engu að síður gerði ég þar enga athugasemd heldur mælti með því, að samningurinn yrði staðfestur af Alþingi, þar sem hann hafði verið undirritaður af okkur Íslendingum. Og raunar hafði Ísland boðað til þeirrar ráðstefnu sem samning þennan gerði. Í umr. um samninginn gerði ég þó fyrirvara, sem ég hygg að geti komið okkur að notum síðar meir, og vil þess vegna með leyfi forseta árétta það sem þar sagði. Þennan fyrirvara gerði ég áður en gengið var til atkvæða um samninginn, því að mér þótti hann því lakari sem ég las hann betur — og þykir hann enn lakari nú heldur en þegar ég þó sagði það sem nú skal greina:

Enda þótt ég eins og aðrir nefndarmenn í utanrmn. mæli með samþykkt þessarar þáltill. tel ég óhjákvæmilegt að við þessa umr. komi fram nokkrar athugasemdir og ábendingar. Það er að mínu mati eðlilegt að staðfesta þennan samning einungis af einni ástæðu, eða fyrst og fremst af einni ástæðu, þ.e. þeirri að samkvæmt honum er algjört bann lagt við laxveiðum utan efnahagslögsögu, utan 200 mílnanna. Að öðru leyti er samningur þessi heldur lítilfjörlegur og hefði mátt búast við að hann yrði okkur hagstæðari en raun ber vitni. Sérslaklega verður að vekja á því athygli að í 2. gr. samningsins er gert ráð fyrir að Færeyingar megi veiða á svæði Norður-Atlantshafsnefndarinnar, eins og það er nefnt, innan fiskveiðilögsögu Færeyja og ekki takmarkað hve mikið svæði innan fiskveiðilögsögunnar hér er um að ræða. Hins vegar eru í greininni þar sem fjallað er um Vestur-Grænlandsnefndina einungis tilgreindar 40 sjómílur frá grunnlínum.

Ég vil vekja athygli á því og vona að ummæli mín fái staðist ómótmælt af öllum hv. þm. að samkvæmt 66. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmála eiga upprunaríki slíkra fiska eins og laxins miklu meiri réttindi en í þessum samningi eru tilgreind. Ég vil leyfa mér að fullyrða að 66. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmála sé nú þegar orðin alþjóðalög, það hafi skapast þar venjuréttur, að greinin sé lög „de faeto“ eða í raun þó að kannske megi segja að hún sé ekki orðin að alþjóðalögum „de jure“ þar sem samningurinn hefur ekki verið samþykktur formlega eða staðfestur. Ég styð þetta þeim rökum að a.m.k. þann tíma sem ég hef setið fundi Hafréttarráðstefnu hefur engin þjóð reynt að hreyfa við ákvæðum þessarar greinar. Hafa allir með þögninni samþykkt að hún skyldi standa eins og hún væri.

Það má segja um aðrar greinar hafréttarsáttmálans, eins og t.d. þau hafsbotnsréttindi sem verið er að deila um, að ekki sé kannske hægt að halda því fram að þær séu orðnar alþjóðalög í raun eða venjuréttur, en að því er þessa grein varðar er það alveg ótvírætt að mínu mati. Í þessari grein er það beinlínis tekið fram að það sé ekki einungis réttur upprunaríkis að vernda slíka fiskstofna heldur er það skylda þess. Það skal gera það bæði innan eigin lögsögu og eins utan hennar. Réttindi yfir þessum fiskstofnum eru miklu meiri og víðtækari en yfir nokkrum öðrum, sem byggist auðvitað á eðli málsins, að það er upprunaríkið sem á þessi réttindi og á að gæta þeirra.“

Undanþágur frá þessu eru mjög veigalitlar. Upprunaríkið getur t.d. ákveðið heildarafla á þessum fisktegundum og eins og ég sagði áðan ber því að tryggja að ekki sé gengið á þessa stofna, það er skylda þess samkv. þessum alþjóðalögum. En á þeim tíma sem þessi grein hefur staðið óbreytt í uppkastinu að hafréttarsáttmála hafa Færeyingar stöðugt verið að auka afla sinn á laxi í hafinu. Ég held að það sé varla hægt að nota um þetta framferði vægara orð en að það sé siðlaust athæfi og lögbrot að auki. Það er brot á alþjóðalögum. Mér finnst raunar furðulegt að við — og ekki síður kannske Norðmenn, Svíar, Írar, Bretar, og aðrir þeir sem þarna hafa hagsmuna að gæta — skulum ekki taka fastar á þessum málum og fylgja fram þeim skýlausa rétti sem þessar þjóðir hafa samkv. þessari nefndu grein í hafréttarsáttmálanum. Og ekki einungis rétti heldur líka skyldu.

Síðar segir: Því er stundum haldið fram að engar sannanir séu fyrir því að lax frá Íslandi veiðist við Færeyjar. Þetta er fásinna. Fyrir 11/2 áratug eða svo vissi ég til þess að Snorri heitinn Hallgrímsson prófessor merkti örfáa laxa og sleppti þeim á Skaftár-svæðinu. Eina merkið, sem til baka kom, kom einmitt frá Færeyjum. Það þarf enginn að segja manni að Færeyingar, sem stunda þessa rányrkju, séu sérstaklega áfjáðir í að halda til haga merkjum úr fiski sem þeir veiða með þessum hætti. Það er íslenskur lax á þessum slóðum og hann er veiddur af Færeyingum.

Þá hefur því verið haldið fram að ekki væri óeðlilegt að Færeyingar fengju það sem kallað hefur verið beitartollur, vegna þess að laxinn fer þarna um skamman tíma úr ári. Ég veit ekki hver hefur fundið þessa endaleysu upp, hvort það er íslensk framleiðsla eða komið frá Færeyjum. Auðvitað er lífið í sjónum ekkert síður komið frá Íslandi inn á Færeyjamið heldur en öfugt. Ætli það sé ekki meira um það að ýmiss konar fæðutegundir fiskistofna berist af okkar miðum inn á þau færeysku heldur en öfugt? En hvað sem um það er þá er þetta fávíslegt tal og réttlætir rányrkjuna með engum hætti.

Ég vildi koma þessum athugasemdum hér að, herra forseti, nú við þessa umræðu, áður en til atkvæða er gengið. Ég vænti þess að allir hv. þm. séu mér sammála um að eðlilegt sé að þær komi hér fram og að enginn muni andmæla því sem ég hef hér sagt, að þarna sé um lögbrot af hálfu Færeyinga að ræða og rányrkju, og að Alþingi muni halda til haga íslenskum réttindum í þessu efni og þetta fáist fest í þingskjöl sem samdóma álit allra hv. alþm.

Enginn alþm. andmælti þessum skoðunum og allir viðstaddir greiddu atkvæði með samningnum, að vísu eftir að þessi orð höfðu verið rædd. Ég skal játa að það hefði sjálfsagt verið heppilegra og traustara að gera slíka athugasemd í nefndaráliti utanrmn., og ber ég sök á því að hafa ekki áttað mig á að gera það, því að samningurinn sem hér um ræðir er því miður meingallaður.

Í fyrsta lagi það sem þegar hefur komið fram, að heimila Færeyingum að veiða lax í allri sinni fiskveiðilögsögu, en það er þó takmarkað að því er Vestur-Grænlandsnefndina varðar, þ.e. veiðarnar við Grænland, við 40 sjómílur frá grunnlínum.

Í öðru lagi sýnist mér alveg ástæðulaust að nefna 12 mílur sérstaklega í þessu sambandi. Sannleikurinn er sá að í 66. gr. er 12 mílnanna hvergi getið. Réttur strandríkisins til að vernda sinn stofn nær inn í efnahagslögsögu annarra ríkja, hann nær alveg upp að landsteinum ef því er að skipta. En við vitum að vísu að sum ríki, eins og t.d. Noregur, hafa leyft laxveiðar í sjó og þess vegna hafa þeir kannske miðað við 12 mílur. Við höfum bannað allar laxveiðar í sjó og hefðum auðvitað átt að leggja á það áherslu að miðað væri við allt hafsvæðið en engar 12 mílur sérstaklega undanskildar, og síðan mjög rúmar heimildir þar fyrir utan. Og auðvitað hljótum við að halda því til haga.

Í laxveiðilaganefndinni, endurskoðunarnefndinni sem nú starfar, hefur orðið samkomulag um að leggja það til að upp verði teknar síðustu fjórar eða fimm laxalagnirnar á landinu, sem ennþá eru í sjó og veiða að vísu ekki nema nokkra fiska kannske á ári, til þess að við getum með sanni sagt að engar laxveiðar af neinu tagi megi tíðkast í sjó við Ísland. Verði þá bætur greiddar til þess að afnema þetta.

Því miður tókst svo slysalega til með gerð þessa samnings að ég fyrir mitt leyti hafði t.d. enga hugmynd um fyrirhugaða samningsgerð fyrr en örfáum dögum áður en ráðstefnan var haldin, og þá í fréttum, og mér er sagt að ekkert samráð hafi verið haft við Fiskifélag Íslands, sjútvrn. og Hans G. Andersen ambassador. Utanrmn. vissi ekki um samningsgerðina fyrr en hún var um garð gengin, eða a.m.k. ekki ég. Mig hefur þá vantað á fundi ef svo hefur verið. Ég er ekki að tíunda þetta til þess að ásaka einn eða neinn. Þarna tókst, eins og ég sagði, slysalega til og það má segja að ég beri fulla ábyrgð á því, því að það var auðvitað fært að koma fram frekari athugasemdum í utanrmn. en þeim sem ég gat komið hér fram í minni ræðu. En það má segja að það sé allt í lagi að þessi samningur gengi í gildi. Hann tryggði þó þetta, eins og ég hef áður sagt, að allar veiðar utan 200 mílna efnahagslögsögu eru bannaðar. Auðvitað væri alveg eins hægt að ná því fram með ákvæðum 66. gr. hafréttarsáttmálans, en það er þó gott að það er frá og samkomulag um það. Samningurinn er sem betur fer uppsegjanlegur með hálfs árs fyrirvara um sérhver áramót. Og auðvitað ber að starfa samkv. honum og hittast árlega og ræða málin og fylgja fram ákvæðum 66. gr. hafréttarsáttmálans með miklu ákveðnari hætti heldur en þessi samningur gerir ráð fyrir.

Færeyingar halda áfram þessari rányrkju, munu að vísu hafa gefið fyrirheit um að draga eitthvað úr henni, en ekki þó meira en svo að þeir veiði kannske 4–5 sinnum meiri lax í sjónum heldur en veiðist úr öllum ám á Íslandi. Sannleikurinn er sá, að menn telja jafnvel að laxastofninn, Norður-Atlantshafsstofninn sé svo mikið rányrktur, einkum af þessari sjávarveiði, að hann geti hreinlega horfið, hvorki meira né minna. Og miðað við afgreiðslu mála t.d. um veiði hvala, sem ekki eru í nándar nærri jafnmikilli hættu, sést hve fáránlegt er að láta Færeyinga komast upp með það að hefja þessar veiðar eftir að alþjóðasamningur eða uppkast að alþjóðasamningi hefur verið í gildi árum saman, þar sem slíkt háttalag er með öllu bannað og upprunaríki laxins veitt miklu meiri réttindi.

Ég skal taka á mig aðra sök í sambandi við þessa umræddu grein og þessa samningsgerð. Við fulltrúarnir á hafréttarráðstefnunni sáum auðvitað þessa grein, þegar hún var mótuð fyrir fjöldamörgum árum, og vorum ánægðir með hana. Við sáum að hún var mjög ítarleg og tryggði réttindi upprunaríkis þessara fiskistofna, og það var aldrei nokkur maður sem í alvöru hreyfði við þessari grein. Við töldum hana þess vegna orðna alþjóðalög og hugsuðum ekki allt of mikið um hana. Við vorum með hugann við aðrar greinar og mikilvægari um þær mundir í sambandi við fiskveiðilandhelgina, efnahagslögsögu, hafsbotnsréttindi o.s.frv. Þess vegna héldum við ekki mikið á loft þessari grein og flögguðum ekki mikið með þann fullnaðarsigur sem þar hafði unnist. Hún var komin inn orðrétt eins og hún er áður en ég kom á þessa ráðstefnu. Ég veit ekki hvað okkar fulltrúar áttu mikinn þátt í samningu hennar, veit þó að hann var nokkur, og þar mun fiskimálastjórinn, Már Elísson, sérstaklega hafa unnið að málum. En þessu máli var stolið úr huga okkar vegna þess að við héldum að aldrei gæti til þess komið að neinir mundu reyna að þverbrjóta þá hugsun sem þarna hafði staðið árum saman og var að mínu mati orðin alþjóðalög.

Svo koma frændur okkar og vinir, Færeyingar og veiða fyrst óátalið, að mér er sagt,1200–1400 tonn eða sjö- til tífalt það magn sem veiðist úr íslenskum ám. Það er auðvitað ekki allt íslenskur lax, en lax sem upprunninn er í strandríkjunum hér við Atlantshafið. Og síðan er samið um það að þeir megi halda þessum veiðum áfram. Það gerist á ráðstefnu sem boðað er til á Íslandi og að íslensku frumkvæði. Ég veit ekki hvernig á því stendur, hvort aðrar ríkisstjórnir hafa ekki viljað halda þessa ráðstefnu eða hvort einhver sérstök ástæða önnur liggur þar að baki. En við skulum bara gleyma því. Það er búið sem búið er. Og ég tek á mig mína sök á því sinnuleysi, sem ég sýndi, að fylgjast ekki með þessu máli.

Till, þessi er flutt til að styrkja þá sem þurfa að fylgja fram réttindum okkar gagnvart Færeyingum, til að sýna að Alþingi sé einhuga, sem ég vona að það sé, um að þessar veiðar verði að stöðva helst með öllu, eða þá a.m.k. svo að Færeyingar veiði ekki meira en þeir gerðu fyrir örfáum árum, því að það eru mörg ákvæði í 66. gr. sem undirstrika það að menn geti ekki vænst þess að auka slíkar veiðar. Þar er víðar en á einum stað talað um að það sé einungis þar sem um meiri háttar efnahagslega röskun eða „economic dislocation“ fyrir annað ríki en upprunaríki sé að ræða, sem skylt sé eða sanngjarnt að veita einhver réttindi og draga hægt úr veiðunum. Að því er Færeyinga varðar kemur þetta alls ekki til því að þeir hófu þessar veiðar fyrir örfáum árum, og þessu ákvæði var auðvitað hægt að beita gagnvart svæðinu utan 200 mílnanna. Það var auðvelt að beita því þar og auðvelt að beita því gagnvart Færeyingum.

Ég á von á og treysti því raunar að Færeyingar muni semja við okkur um að hætta þessum veiðum. Kannske ekki öllum á sama árinu, en a.m.k. þannig að þær verði ekki stundaðar lengur en 1–2 ár í viðbót. Við hljótum að krefjast þess. Ef ekki tekst að gera það með góðu, þá verðum við auðvitað að segja upp þessum samningi, sem gerður var á s.l. vetri, og halda okkur við réttindin samkv. hafréttarsáttmálanum sem nú verður væntanlega samþykktur og staðfestur.

Í öðru lagi hljótum við auðvitað að verða að taka þetta upp í vinsamlegum samræðum við Færeyinga út af fiskveiðiréttindum þeirra hér við land. En ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég held að allir sem kynni sér þetta tvennt, samninginn og 66. gr. hafréttarsáttmálans, sannfærist um það að 66. gr. veitir okkur miklu, miklu víðtækari, meiri og betri réttindi heldur en samningurinn. Það er alveg skaðlaust að hann sé í gildi ef samkomulag næst. Ella verðum við sjálfsagt að segja honum upp samkv. 20. gr. sem veitir réttindi til þess. En málið má alls ekki kyrrt liggja því að Færeyingar hafa sjálfsagt verið í þeirri trú þegar þeir undirrituðu þennan samning — eða Danir fyrir þeirra hönd — að þetta sé allt í lagi, þrátt fyrir ákvæði hafréttarsáttmálans, úr því að þjóðirnar undirskrifi þetta.

Við eigum að leita samstöðu með öðrum þeim sem hagsmuna hafa að gæta, þ.e. Efnahagsbandalagsríkjunum og Noregi, til að vinna að þessu máli. Auðvitað í fullkominni vináttu, eftir því sem hægt er, en þó að halda fram þessum réttindum. Þar er auðvitað bæði náttúru-verndarsjónarmiða að gæta og líka hagsmuna. Ef svo fari gæti ég jafnvel hugsað mér að Færeyingum væri um eitthvert tímabil ívilnað að einhverju öðru leyti. Þessi rányrkja verður að hætta. Hún er engum til sóma. Hafa margir aðrir en ég vakið á þessu athygli. Menn eru að gera sér í vaxandi mæli grein fyrir því nú, hvert slys þessi samningur var. En hann er ekki stórslys því hann er, eins og ég sagði, uppsegjanlegur og verður til endurskoðunar.

Einn þeirra sem sérstaklega hafa vakið athygli á þessu atriði máls er hv. þm. Albert Guðmundsson, sem einmitt er meðflm. minn að þessari till. Hún kemur auðvitað til umr. í hv. utanrmn., sem ég legg til að henni verði vísað til að lokinni þessari umr., og ég á von á því að þar geti náðst samkomulag um hvert orðalag kynni að verða á hinni endanlegu till. Þessi till. er flutt í þeim tilgangi einum að bæta aðstöðu íslenskra stjórnvalda, bæði utanrrn. og sjútvrn., þegar næst verður rætt við Færeyinga um sameiginleg hagsmunaréttindi á sviði fiskveiða.