18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

36. mál, laxveiðar Færeyinga í sjó

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef fáu við að bæta það sem hæstv. landbrh, hefur sagt. Hann hefur gert grein fyrir hvernig laxveiðum Færeyinga hefur verið háttað á undanförnum árum. Það er auðvitað svo, að við teljum þær veiðar allt of miklar. Við teljum aukninguna sem átt hefur sér stað alveg úr hófi. Þær tölur sem hann nefndi sýna gleggst hver aukningin hefur orðið frá 1978 til 1981.

Hann gerði ennfremur grein fyrir þeim samningum sem náðst hafa milli Færeyinga og Efnahagsbandalagsins um samdrátt. í þessum veiðum, bæði 1982, þetta ár, þar sem þeir veiddu 850 lestir, og á næsta veiðitímabili, sem byrjaði 15. nóv. í ár í stað þess að veiðitímabilið var í upphafi miðað við 15. okt. og fram til 15. maí, þegar veiðarnar færast niður í 625 lestir. Ennfremur gerði hann grein fyrir þeirri fækkun skipa sem þarna er um að ræða. Það ættu að vera færri skip, bæði færri og í rauninni smærri, en áður voru við þetta. Þannig hefur náttúrlega orðið umtalsverður samdráttur frá þeim toppi sem var 1981,.Þrátt fyrir það teljum við þessar veiðar enn allt of miklar og það er auðvitað mat allra upprunaríkja að hér sé gengið allt of langt.

Hagsmunasamtök veiðimanna, Atlantic Salmon Trust, hafa sent fulltrúa til Færeyja til að fylgjast með þessu. Þeir hafa gefið skýrslu og telja veiðarnar að sjálfsögðu alltof miklar, en telja að það sé sæmileg aðstaða til eftirlits.

Þess er líka getið í þessu sambandi, að á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins hefur verið fjallað um þessi mál. Starfshópur innan þess ræddi um Norður-Atlantshafslax og um tillögur um rannsóknir á veiðum Færeyinga á fundi sínum 13. – 16. apríl 1982. Hann gerði tillögur um víðtækar rannsóknir næsta veiðitímabil. Þar verður um samvinnu að ræða á milli hinna ýmsu upprunaríkja og Færeyinga. M.a. verður einmitt haft eftirlit með veiðum um borð í færeysku skipunum.

Íslendingar vilja auðvitað laka þátt í þessum rannsóknum. Til þess að fjármagna þátt Íslendinga í þessum rannsóknum gerði veiðimálastjórn tillögu um fjárveitingu að upphæð 250 þús. kr., en í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir er aðeins gert ráð fyrir 140 þús. Veiðimálastjórn hefur eftir því,sem mér er kunnugt sent fjvn. beiðni um 110 þús. kr, hækkun á þessari fjárveitingu. Þá reynir nú á það hjá hv. fjvn. hvern skilning hún sýnir á þessu máli og hver áhuginn er í reynd á þessu, sem menn hafa nú mikil orð um.

Ennfremur kom það fram hjá hæstv. landbrh., að merkingar á seiðum í íslenskum ám voru stórauknar á s.l. sumri. Þess vegna ætti það að koma fram nú betur en áður við laxveiðar Færeyinga ef um íslenskan lax er að ræða, sem ég dreg reyndar ekkert í efa. En merkingarnar hafa ekki verið þannig að það hafi verið hægt að byggja mikið á þeim í því sambandi.

Hv. flm. gerði heldur lítið úr hinum svokallaða Reykjavíkursamningi um verndun lax í Norður-Atlantshafi. Sá samningur var undirritaður hér í Reykjavík á s.l. vetri, en hefur ekki verið fullgiltur ennþá nema ef fáum a.m.k. þeirra ríkja .sem undirrituðu hann. Undirbúningur er þó hafinn í sumum þeirra landa a.m.k., svo þess er að vænta að samningurinn verði nú fullgiltur og geti tekið gildi á næsta ári eða a.m.k. verði kominn í gagnið 1984.“

Hv. flm. gerði eiginlega, að mér fannst, ekki mikið úr þeim ávinningi sem hefði náðst með þeim samningi. Að sjálfsögðu geta menn haft skiptar skoðanir á því og hver og einn getur haft sínar skoðanir á samningnum. Að mínu mati er umtalsvert skref stigíð til verndunar laxi í Norður-Atlantshafi með þessum samningi. Það má því til sönnunar bara vitna í samninginn og lesa upp þau ákveði hans sem þar er um að tefla. Þar er að vísu ekki svo mikið af efnisatriðum beinlínis um takmarkanir, en það sem er þýðingarmikið er að það eru settar upp stofnanir sem eiga að vinna að þessum málum í framtíðinni og þeim eru sett viss boðorð, sem þær eiga að vinna eftir, og það getur ekki leikið á tveimur tungum um tilgang þann sem samningurinn byggist á. Hann kemur einkar glöggt fram í inngangi að samningnum, þar sem segir:

„Aðilar að samningi þessum“, með leyfi forseta, „sem gera mér ljóst að lax sem kemur upphaflega úr ám í ýmsum ríkjum kemur saman á ákveðnum svæðum í Norður-Atlantshafi, sem taka tillit til þjóðaréttar, ákvæða í samningsdrögum þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fiskstofna sem leita aftur upp í ár og annarrar þróunar. á alþjóðavettvangi varðandi fiskstofna Sem leita aftur upp í ár, sem óska að stuðla að öflun, greiningu og dreifingu vísindalegra upplýsinga um laxastofna Norður-Atlantshafi, sem óska að stuðla að verndun, endurnýjun, eflingu og skynsamlegri nýtingu laxastofna í Norður-Atlantshafi með alþjóðasamvinnu, hafa orðið ásáttir um eftirfarandi“. Og síðan kemur samningurinn.

Ég vil segja að það eru hreint ekki þýðingarlítil ákvæði að setja upp þá stofnun sem á að taka til starfa eftir samningnum og þær svæðisnefndir, þrjár að tölu, sem eiga að starfa eftir þessum samningi. Það er tekið býsna skýrt fram hvaða sjónarmið þessar nefndir eiga að hafa í huga við sínar ákvarðanir og till., t.d. í 7. og 8. gr. samningsins. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þessi samningur sé fullkominn, vafalaust mætti gera enn betri samning um þetta, en ég held því hiklaust fram að hann sé spor í rétta átt og það mjög gott spor.

Hitt er svo vitað mál, að þar sem samningurinn er byggður upp eins og hann er byggður upp er um rammasamning að ræða og stofnanir sem fyrst og fremst er ætlað með samstarfi, samræmi og samvinnu að setja vissar efnisreglur um þetta. Þess vegna fer það auðvitað mjög eftir því hver framkvæmdin verður í þessu efni hvert raunverulegt gagn verður af þessum samningi eða ekki. En ég hef enga ástæðu til þess að efast um að þjóðirnar sem að þessum samningi standa muni vera einlægar í því að vinna á grundvelli þeirrar hugsunar sem er í þessum samningi. Það er auðvitað ekkert smáræði, að það eru þó dregin þau mörk að úthafsveiðar utan 200 mílnanna, það er aðalreglan, eru alveg bannaðar. Það er ennfremur aðalreglan, að veiðar á laxi eru bannaðar utan 12 mílna. Frá því eru aðeins tvær undantekningar í samningnum, þ.e. varðandi Færeyjar og varðandi Grænland, og það er auðvitað frá okkar sjónarmiði ekki hægt að vera ánægður með þær undantekningar, en það fékkst nú ekki með öðrum hætti að þessu sinni.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar aðilar setjast niður og hafa við að styðjast vísindalegar rannsóknir sem völ er á verður starf þeirra þessum málum til mikils framdráttar, en því miður tekur það sinn tíma. Það tekur t.d. nokkurn tíma að fá samninginn fullgiltan og voru vissir fyrirvarar varðandi það. En um leið og þessi samningur gengur í gildi verður sá árangur af honum að laxveiðar Dana, sem þeir hafa stundað í Noregshafi og sem hafa verið umtalsverðar, — það hefur verið talað um 100-250 lestir á ári, þær gætu hafa verið eitthvað meira, — falla niður þar. Því lýsa Danir yfir, að þær falli niður um leið og samningurinn gengur í gildi og verður fullgiltur. Það er víst ekki ánægja með það á meðal þeirra manna í Danmörku sem hafa stundað þessar veiðar.

Þetta er viðkvæmt mál og þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir Færeyinga. Það vitum við, sem höfum rætt við þá. Nýlega hélt þingmannanefnd fund í Kaupmannahöfn með Færeyingum. Hv. þm. Árni Gunnarsson drap á þetta í umr. hér í fyrradag. Þar voru einmitt þessi mál rædd og ég held að það sé ekkert launungarmál að það kom greinilega fram á þeim fundi, og ég held að þeir þm. sem sóttu þann fund hafi heyrt það og þeir séu ekki í neinum vafa um það, að þetta er Færeyingum mjög viðkvæmt mál. En þetta er auðvitað hagsmunamál mikið fyrir Íslendinga, sem hér er um að tefla, og sjálfsagt að vinna að því á allan skynsamlegan hátt, eins og landbrh. tók fram, en undir hann heyra þessi mál.

Þessi þáltill. er þannig, að ég held að hún hljóti að taka einhverjum breytingum hvað orðalag varðar í meðferð nefndar. Það er nokkuð mikið sagt í þessari ályktun, eins og hún hljóðar, þar sem ályktað er að fela ríkisstj. o.s.frv. Já, mikið traust hafa menn á ríkisstj., það má nú segja. (Gripið fram í.) Það er alveg óstöðvandi traust. Það skal fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að stöðva rányrkju — Færeyingar kalla það ekki rányrkju, en það er nú sama, við getum kallað það því nafni Færeyinga við veiðar Atlantshafslaxins í efnahagslögsögu sinni, þ.e. í Færeyjum. Ja, ég vil fá nánar útskýrt hvernig Íslendingar eiga að gera þetta og hvernig íslenska ríkisstj., þó sögð sé öflug, eigi að ráða við það viðfangsefni. Þetta getur náttúrlega lagast í meðferð nefndar og sú hugsun sem vakir fyrir flm. getur sjálfsagt komist í þann búning sem eðlilegt er.

Þessi mál heyra ekki undir mig, heldur undir landbrh., og þess vegna skal ég ekki fara fleiri orðum um það, en ég stóð að þessari samningagerð og hverjum þykir sinn fugl fagur eins og gengur. Þetta er fyrsti alþjóðasamningurinn, held ég, sem gerður er í Reykjavik svo að það er ekki nema von að manni sé dálítið sárt um hann. En ég held að það sé alveg óþarfi að gera lítið úr honum. Ég sé í blöðum að það hefur komið fram gagnrýni, en mér þótti ekki mikið koma til þeirrar gagnrýni.