18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

67. mál, hagnýting surtarbrands

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þessa till. til þál. um rannsókn og hagnýtingu surtarbrands á Vestfjörðum. Meðflm. mínir eru þm. Matthías Bjarnason, Sighvatur Björgvinsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Karvel Pálmason.

Þessi þáltill. fjallar um það, að ríkisstj. feli Orkustofnun og Rannsóknaráði ríkisins rannsókn á surtarbrandi á Vestfjörðum og könnun leiða til hagnýtingar hans til orkuframleiðslu og iðnaðar. Það er gert ráð fyrir að þessu verkefni verði hraðað svo sem kostur er og að haft verði samráð við Orkubú Vestfjarða um þessar aðgerðir.

Allt frá því að olía hækkaði í verði í okt. 1973, sem minnisstætt er, hafa flest lönd heimsins reynt að finna eldsneyti sem gæti komið í staðinn fyrir olíu. Augu manna hafa æ meir beinst í þessu sambandi að kolum. Til er gífurlega mikið af kolum í heiminum, en þar sem olía var mjög ódýr hafði ekki verið lögð nein veruleg áhersla á þróun tækni til þess að nýta kol.

Nágrannar okkar, Danir, voru með þeim fyrstu sem fóru að nota kol í stað olíu, enda var löng hefð hjá þeim í notkun kola. Fyrstu viðbrögð þeirra voru að breyta öllum sementsverksmiðjum í kolakyndingu. Nú standa yfir miklar breytingar í Danmörku á þeim rafstöðvum sem ekki voru kolakyntar. Það er verið að breyta þeim í kolakyndingu. Einnig hafa verið gerðar miklar ráðstafanir til þess að tryggja innflutning kola þar í landi.

Aðrar Norðurlandaþjóðir leggja mikla áherslu á þróun kolanýtingar. Einkum eru það Finnar, sem hafa þó stór kjarnorkuver. Liður í þessari viðleitni var ráðstefna sem var haldin í Finnlandi í okt. 1981 á vegum NORDEL um „Fluidizedbed“ kolakyndingu, sem mætti kalla á íslensku svifbruna-kyndingu.

Þessi tækni er ekki ný af nálinni og hefur verið notuð síðan 1922 í iðnaði, en eftir olíuverðshækkunina var fyrir alvöru farið að þróa þessa tækni. Þessi tækni felst í því, að lofti er blásið inn í ofninn að neðan og eldsneytinu haldið svífandi inni í eldholinu þannig að mjög góður bruni fæst. Saman við er blandað kalksteini sem dregur í sig brennistein úr kolunum, og er þá reykurinn laus við brennistein, sem annars er mjög erfitt og dýrt að losna við með venjulegri kyndingu.

Með „Fluidized bed“ tækninni opnaðist ný og áður óþekkt aðferð til þess að nýta eldsneyti með lægra brunagildi en venjuleg kol, svo sem brúnkol eða surtarbrand, eins og t.d. Finnar gera. Nú þegar er hægt að fá keypta á almennum markaði ofna, sem gerðir eru til að nýta þessa nýju tækni.

Í Þýskalandi á þessi tækni sér merka sögu og miklar tilraunir eru gerðar víða um lönd, svo sem í Englandi og í Bandaríkjunum.

Athygli vekur að í Kína voru þegar árið 1981 komnir 60 gufukatlar með þessari tækni og eru nú um 10 teknir í notkun árlega. Í Kína eru notuð kol með lágu brennslugildi. En surtarbrandurinn hjá okkur er með hætta brennslugildi en þau kol sem eru nú hagnýtt í Kína.

Það er stefna okkar Íslendingar að gera okkur sem óháðasta innflutningi orkugjafa. Þess vegna viljum við hagnýta eigin orkulindir. Það gerum við með því að virkja fallvötnin og jarðvarmann. En orkan sem fæst eftir þessum leiðum, verður ekki af tækni- og hagkvæmnisástæðum notuð til allra þarfa. Þannig verður rafmagn ekki enn hagnýtt til rekstrar þurrkara fiskmjöls- og loðnuverksmiðja og Sementsverksmiðjunnar, þó að slík notkun sé nú á rannsóknarstigi. Þess vegna á Sementsverksmiðjan ekki annars úrkosta en taka upp kolanotkun þegar horfið er frá notkun olíu, eins og nú er ákveðið. En með þessari breytingu hjá Sementsverksmiðjunni er ekki um að ræða að hagnýta innlendan orkugjafa í stað erlends. Það er verið að breyta um erlenda orkugjafa, þegar innflutt kol eru tekin í stað olíu.

Það hlýtur að vera eitt af okkar stóru verkefnum í framkvæmd orkumálastefnu okkar að hagnýta innlenda orkugjafa sem eldsneyti. Þar er um að ræða hagnýtingu surtarbrandsins.

Gísli Júlíusson verkfræðingur flutti erindi á Orkuþingi árið 1981, þar sem hann vakti athygli á því, hvernig rannsóknum á surtarbrandi hefur verið hátað hér á landi. Rannsóknir þessar hófust þegar um síðustu aldamót. Rannsóknir hafa aðallega beinst að því að finna hvar surtarbrandslög eru og að efnasamsetningu brandsins og brennslugildi, en ekki hversu mikill hann er. Þó eru til ágiskanir sem gerðar hafa verið eftir aðstæðum á þeim stöðum þar sem surtarbrandslög hafa fundist.

Vestfirðir hafa sérstöðu í þessum efnum. Það fyrirfinnast surtarbrandslög víðs vegar. Má þar nefna surtarbrandslögin á Barðaströnd, í Patreksfirði, Arnarfirði, Súgandafirði, Bolungarvík, Steingrímsfirði, Hrútafirði og Kollafirði í Strandasýslu, svo að nokkrir helstu staðirnir séu nefndir. En sá staður sem athyglin hefur beinst helst að er Stálfjall í Vestur-Barðastrandasýslu. Þar hefur farið fram lauslegt mat og var það gerð árið 1917 af sænska verkfræðingnum Ivar Svendberg, sem áleit að þar væru um 180 millj. tomma af surtarbrandi og mundi það nægja 600 mw. rafstöð í 60 ár. Hér er um að ræða álíka mikið uppsett afl og nú er samtals í öllum vatnsaflsvirkjunum landsins.

Það var sagt um þennan surtarbrand í Stálfjalli á sínum tíma, að þar væri svo mikil orka að mundi nægja Íslendingum til eilífðar. Þetta var sagt árið 1917. Nú lítum við að sjálfsögðu öðruvísi á málin en þá var gert, en þetta sýnir hvað menn þá þegar bundu miklar vonir við þá möguleika sem kynnu að felast í hagnýtingu surtarbrands á Íslandi.

Áður fyrr, og einkum á heimsstyrjaldarárunum fyrri og raunar síðari líka, var surtarbrandur nokkuð unnin á Vestfjörðum, svo sem í Súgandafirði, Bolungarvík, Dufansdal og í Stálfjalli. Með þeirri tækni sem þá viðgekkst þótti þetta eldsneyti og dýrt og erfitt að nálgast það. Með nútímaaðferðum við námugröft og flutningatækni og endurbættum brennsluaðferðum eru viðhorf nú ger­breytt. Vinnsla surtarbrands gæti nú orðið arðvænleg.

Með tilliti til þessa er þáltill. þessi fram borin. Vinda verður bráðan bug að því að kanna hverjir möguleikar kunna að vera hér ónotaðir. Svo miklir hagsmunir eru í húfi að vinna verður markvisst og skipulagsbundið í máli þessu. Þess vegna er lagt til að Orkustofnun og Rann­sóknaráði ríkisins verði falin rannsókn á surtarbrandi á Vestfjörðum og könnun leiða til nýtingar hans til orku­framleiðslu og iðnaðar. Nú liggur þegar fyrir mikil vitn­eskja um staðsetningu surtarbrandslaga og brennslugildi surtarbrandsins. Hins vegar er lítið vitað með vissu um magn surtarbrandsins á hinum ýmsu stöðum. Ekki hefur heldur Verið rannsökuð aðstaða til vinnslu surtar­brandsins á hinum ýmsu stöðum miðað við nútímaað­ferðir við námugröft og flutningatækni. Þá hefur arðsemi af vinnslu surtarbrands ekki verið metin miðað við þær endurbættu brennsluaðferðir sem nú eru fyrir hendi. Allt eru þetta verkefni sem þáltill, þessi gerir ráð fyrir að unnin verði af Orkustofnun og Rannsóknaráði ríkisins. Svo mikils er um vert, að verk þetta yrði unnið með þeim hraða sem frekast er unnt, að lagt er til að þessar stofnanir fái sérstaka fjárveitingu úr ríkissjóði til að standa undir kostnaði við þetta viðfangsefni.

Jafnframt því að á Vestfjörðum eru aðalsurtar­brandssvæði landsins hafa Vestfirðir einnig þá sérstöðu að hafa yfir að ráða minni orkulindum en aðrir lands­hlutar í formi vatnsafls og jarðhita, Er því tvöföld ástæða til að leggja sérstaka áherslu á vinnslu surtarbrands á Vestfjörðum. Árangurinn af því gæti líka orðið tvíþætt­ur. Annars vegar væri skapaður möguleiki, sem nú er ekki fyrir hendi, til þess að leysa olíuna af hólmi með innlendum orkugjafa í mjög þýðingarmiklum og orku­frekum iðnaði. Hér dugar ekki að auka raforkuframleiðslu í landinu vegna þess að raforka verður ekki hag­nýtt í þessu skyni. Til þess þarf að koma nýr orkugjafi, sem við nú ráðum ekki yfir, en gætum fengið með hag­nýtingu surtarbrandsins. Hagnýting slíks nýs orkugjafa hefði í för með sér ómetanlegan hag fyrir efnahag lands­ins í heild. Hins vegar væri skapaður möguleiki með hagnýtingu surtarbrandsins til stórátaks til eflingar byggð á Vestfjörðum. Grundvöllur fengist fyrir þeirri fjölbreytni í atvinnulífinu sem þar skortir mjög á. Þessi hagnýting orkulinda getur skapað beinlínis mjög mikla atvinnu við námugröftinn og flutninga, auk þeirrar al­mennu atvinnuuppbyggingar sem óbeinlínis hlýtur að leiða af þessari vinnslu. Með slíkri þróum gæti, staða Vestfjarða í orkumálum landsins gerbreyst frá því sem nú er. Í stað þess að hafa lítið gildi fyrir orkubúskap þjóðarinnar í heild, þegar einungis er litið á vatnsafl og jarðhita, væru Vestfirðir þýðingarmikill aðili í orku­vinnslu landsins, auk þess að vera með hagnýtanlega orkulind, sem, ómissandi er, en ekki annars staðar að hafa í landinu eða í miklu minna mæli.

Hér er ekki um neitt hégómamál að ræða. Það má vera ljóst, þegar haft er í huga hve mikil sú orka er sem þarf til þess rekstrar er notar eldsneyti sem orkugjafa. Hér er um að ræða þann rekstur sem nú notar olíu, en surtarbrand­ur gæti leyst af hólmi. Á árinu 1980 voru flutt inn 171 þús. tonn af svartolíu; Þar af munu hafa farið um 100 þús. tonn til fiskmjölsverksmiðja, Sementsverksmiðjunnar og Hvalstöðvarinnar. Ef þessir aðilar notuðu surtar­brand yrði gjaldeyrir sparaður að upphæð um 21. millj. dollara eða um 210 millj. kr., en þá er reiknað með að útsöluverð væri um 240 millj. kr. Af surtarbrandi sam­svarandi að orkugildi mundi þurfa um 230 þús. tonn. Þetta mundi svara til um 900 gígavattstunda á ári í raf­magni eða sem svaraði 210 mw: í uppsettu afli, sem er jafnmikið og Hrauneyjafossvirkjun fullbúin.

Ég vil taka það fram, að þær tölur sem ég nefndi í þessu sambandi varðandi upphæð þess gjaldeyris sem sparast mundi eru ekki miðaðar við gengi dagsins í dag, heldur eins og gengið var snemma á þessu ári. Því verða menn að hafa í huga að allar þær tölur sem ég nefndi varðandi sparnað í erlendum gjaldeyri eru nú í íslenskum krónum verulega hærri en ég greindi frá.

Hér hefur einungis verið talað um hagnýtingu surtar­brandsins sem eldsneytis. Slík notkun surtarbrands kemur þó til greina í ýmsum fleiri tilvikum en hér hefur verið getið, svo sem til kyndingar hitaveitna sem ekki hafa jarðvarma sem orkugjafa. Þá kann og að geta verið hagkvæmt að framleiða rafmagn með surtarbrandi í raf­orkuverum á námustað. En auk þess getur surtarbrandurinn orðið hagnýttur til margs konar efnaiðnaðar. Af þessu má marka hve þýðingarmikill þáttur í þjóðar­búskapnum hagnýting surtarbrandsins gæti orðið fyrir landið í heild og Vestfirði sérstaklega.

Þessi till. til þál., sem ég hef nú verið að ræða um, var flutt á síðasta þingi síðla þings en náði þá ekki afgreiðslu. Málið vakti samt mikla athygli og hreyfing komst á það. Í till. var gert ráð fyrir að Orkustofnun ynni að málinu. En þó að till. væri ekki afgreidd á síðasta þingi beið Orku­stofnun ekki boðanna. Nú þegar vinnur Orkustofnun að því að láta gera frumúttekt á vinnsluhæfni og vinnslu­hagkvæmni surtarbrands á grundvelli þeirrar vitneskju sem nú er fyrir hendi um það. Leitað hefur verið aðstoð­ar aðila erlendis, sem reynslu hafa í kolavinnslu, þ. á m. í vinnslu brúnkola. Samið hefur verið við National Coal Board í London um að sú stofnun taki að sér frumúttekt á vinnsluhagkvæmni surtarbrands á Vestfjörðum. Er þá gert ráð fyrir að þessi stofnun byggi á upplýsingum þeim sem þegar eru fyrir hendi hér á landi, sérfræðingar stofn­unarinnar ásamt íslenskum sérfræðingum skoði þá surt­arbrandsstaði sem einna álitlegastir þykja til vinnslu og höfð verði hliðsjón af reynslu National Coal Board af vinnslu brúnkola eða surtarbrands. Er gert ráð fyrir að National Coal Boardsendi hingað næsta sumar, líklega í ágúst eða september, einn námaverkfræðing og einn námajarðfræðing, sem skoði ásamt íslenskum sér­fræðingum nokkra surtarbrandsstaði á Vestfjörðum.

Þá er þess að geta, að tveir sérfræðingar á Orkustofnun vinna nú að því að taka saman yfirlit um það sem vitað er um surtarbrand á Íslandi: Þetta yfirlit verður sent National Coal Board snemma á þessum vetri.

Þar sem þess er að vænta að vinnsluhagkvæmni surtar­brandsins sé talsvert háð því hve mikið er unnið af honum árlega, — ég sagði talsvert háð því, en er auðvitað mikið háð því, — þá verða National Coal Board gefnar upp þrjár mismunandi forsendur um árlegt vinnslumagn. Þær verða að sjálfsögðu að taka mið af hugsanlegum markaði fyrir surtabrand hér á landi. Það er nú unnið að því að kanna það mál nánar. Hugsanlegir surtarbrands­notendur eru kyndistöðvar hitaveitna, Sementsverk­smiðjan og annar iðnaður sem nú notar svartolíu; svo sem fiskmjölsverksmiðjur og heykögglaverksmiðjur. Þá kann að geta verið hagkvæmt að framleiða rafmagn með surtarbrandi í raforkuverum á námustað, eins og ég vék að áður.

Til að meta hagkvæmni surtarbrandsvinnslu er samanburður við svartolíu ófullnægjandi einn sér. Saman­burður við innflutt kol verður einnig að koma til.

Samkvæmt því sem Orkustofnun tjáir mér nú er þess vænst að frumúttekt á þessum málum geti legið fyrir eftir u.þ.b. eitt ár. Þegar þessi frumúttekt liggur fyrir er tímabært að ákveða frekari skref í málinu.

Ég hef gefið hér, að ég hygg, töluverðar upplýsingar og forvitnilegar um það mál sem ég er hér að ræða og þá á ég ekki síst við það sem ég hef sagt frá aðgerðum Orku­stofnunar. Ég vil láta þess getið, að allt sem ég hef hér sagt um aðgerðir Orkustofnunar er samkvæmt bréfi sem orkumálastjóri ritaði mér 5. þessa mánaðar.

Það er vissulega ánægjulegt að Orkustofnun skuli hafa brugðist svo skjótt og vel við í máli þessu sem raun ber vitni um. Samt sem áður er nauðsynlegt að fá till. okkar til þál. um rannsókn og hagnýtingu surtarbrands á Vest­fjörðum samþykkta. Þess vegna höfum við á ný lagt till. þessa fram á þessu þingi.

Það ber að hafa í huga, að samkvæmt till. er gert ráð fyrir að ekki einungis Orkustofnun vinni að þessum málum, heldur og Rannsóknaráð ríkisins. Það má segja að verkaskiptingin milli Orkustofnunar og Rannsókna­ráðs ríkisins varðandi þetta mál sé sú, að Orkustofnun vinnur að því sem lýtur að vinnsluþættinum, en Rann­sóknastofnun ríkisins vinnur að því er lýtur að nýt­ingarþættinum. Nýtingarþátturinn er ekki síður mikil­vægur því að hann lýtur að því að skapa markað fyrir surtarbrandinn. Ber þá ekki einungis að hafá í huga hagnýtingu surtarbrandsins sem eldsneytis, heldur og að surtarbrandurinn getur orðið hagnýttur til margskonar efnaiðnaðar, eins og ég áður gat um.

Herra forseti. Við flm. þessarar till., sem allir erum þm: Vestfjarða, bindum miklar vonir við þetta mál. Við getum ekki sagt nú að það sé öruggt að vinnsla surtar­bands á Vestfjörðum sé hagkvæm eins og stendur. Við fullyrðum ekki um það. Þvert á móti göngum við út frá því að þetta þurfi að rannsakast. Um það fjallar einmitt till. okkar. En við teljum að þetta mál sé mikilvægt og svo mikið sé í húfi, ekki einungis fyrir þjóðarbúskap okkar í heild heldur fyrir atvinnulíf, uppbyggingu og framtíð byggða á Vestfjörðum, að einskis megi láta ófreistað til að ganga úr skugga um hvort nú sé tímabært að hefja vinnslu á surtarbrandi á Vestfjörðum. Með tilliti til þessa, herra forseti, væntum við að till. þessi verði af­greidd á þessu þingi. Ég trúi raunar ekki öðru en það verði gert. Í því sambandi skírskota ég til þess, sem ég hef hér greint frá, að þetta starf er þegar hafið, eins og glöggt kom fram í þeim upplýsingum sem ég gaf um aðgerðir Orkustofnunar.

Herra forseti.Ég leyfi mér að leggja til að till. verði vísað til hv. atvmn að lokinni þessari umr.