22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns benda á það meginatriði, að hér er verið að ræða frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem eru á margan hátt ákaflega svipaðar þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru veturinn 1978, þegar Sjálfstfl. hafði stjórnarforustu. Nú beitir Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu sér gegn ráðstöfunum, sem eru nauðsynlegar og sem munu forða vildi ég segja, frá bráðum voða í efnahagsmálum, þótt hann hafi áður hagað sér á gagnstæðan hátt við svipaðar aðstæður.

Ég vil minna á að á árinu 1959 hagaði svo til í þessari hv. þd. að það var verið að ræða ráðstafanir í efnahagsmálum sem voru til skamms tíma en voru nauðsynlegt viðnám gegn verðbólgu á þeim tíma. Þá var við völd minnihlutastjórn Alþfl., studd af Sjálfstfl. og Alþfl., og Sjálfstfl. studdi þessar ráðstafanir. Framsfl. hafði þá aðstöðu til að stöðva það lagafrv. hér í þessari þd. á sama hátt og Sjálfstfl. hefur nú aðstöðu til að stöðva málið í Nd. Alþingis. Framsfl. valdi þann kost 1959 að sitja hjá og hleypa málinu í gegn vegna þess að hann sá ekki fram á að hann hefði möguleika á því að standa að myndun meiri hl. um aðrar ráðstafanir sem kæmu að sama haldi um sinn eins og þær sem þá var verið að ræða. Hér er ólíkt aðhafst. Vil ég í upphafi máls míns benda á þetta, sem ég tel vera nokkurt meginatriði í sambandi við þetta frv. og afstöðu flokka til þess.

Eins og eðlilegt er hafa umr. um frv. orðið nokkuð almennar. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flutti nokkuð almenna ræðu um stjórnmál, stjórnmalastöðuna, aðdraganda og framtíðarhorfur frá sínum bæjardyrum séð. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Ég hafði því hugsað mér að gera nokkuð almennt grein fyrir því í stuttu máli sem hefur verið að ske í efnahagsmálunum s.l. 3–4 ár og rekja þráðinn í þeim efnum.

Eftir að Sjálfstfl. hafði farið með stjórnarforustu í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, sem Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu að á árunum 1974–1978, var ástandið þannig í efnahagsmálum, m.a. verðbólgumálum, að verðbólgan var yfir 50% þegar stjórnin lét af völdum seinast í ágústmánuði 1978. Það segir þó ekki alla söguna vegna þess að þá höfðu verið gerðar ráðstafanir, það hafði verið tekin ríkisábyrgð á vissum þáttum undirstöðuatvinnuveganna, t.d. frystihúsaframleiðslunni að vissu marki. Og það var geymdur vandi í kerfinu, sem þýddi auðvitað að þá var í raun og veru meiri verðbólga heldur en þetta í efnahagskerfinu. Ég held því að ekkert sé ofsagt og ekkert fullyrt, sem ekki fær sæmilega staðist, þótt staðhæft sé að þá hafi verðbólga í landinu verið nálægt 60% í raun og veru þegar allt er skoðað. Svo kom árið 1979 — (Gripið fram í: Svo kom niðurtalningin.) Ég kem síðar að henni, hv. þm., þú skalt ekki hafa áhyggjur af því. Ég kem síðar að henni og bið menn að hlusta þá.

Svo kom árið 1979 og þá skall olíukreppan hin síðari yfir og jók verðbólgu hér á landi að því er talið er um allt að 10%. Verðlag á olíuvörum þrefaldaðist þá og leiddi það til stórfelldrar verðhækkunar á mörgum lífsnauðsynlegum rekstrarvörum og öðrum vörum sem við þurfum að flytja til landsins.

Segja má að það hafi aðallega verið þrjár ástæður sem urðu þess valdandi, að áform ríkisstj. í verðbólgumálum fóru úrskeiðis á fyrsta starfsári hennar, árinu 1980. Í fyrsta lagi var geymdi vandinn, sem hafði hlaðist upp meðan verið var að rjúfa þing, kjósa og mynda nýja stjórn og sem þurfti að taka á, miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir. Í öðru lagi höfðu viðskiptakjör þjóðarinnar versnað á árunum 1979–1980 um 15% samanlagt, sem stafaði fyrst og fremst af olíukreppunni. Í þriðja lagi urðu almennar grunnkaupshækkanir, sem námu 11% að meðaltali, seinast á því ári þó að enginn raunverulegur grundvöllur væri fyrir slíkum hækkunum. Þess vegna var ekki von að ríkisstj. hefði aðstöðu til að minnka verðbólguna á sínu fyrsta starfsári 1980.

Laust fyrir áramótin 1980/1981 var það álit Þjóðhagsstofnunar að ef ekkert yrði að gert í verðbólgumálum mundi verðbólgan vaxa á árinu 1981 upp í a.m.k. 70–75%. Eftir talsverð átök innan ríkisstj. tókst samkomulag á gamlársdag um efnahagsaðgerðir. Þessar aðgerðir voru í fyrsta lagi fólgnar í aðhaldi í verðlagsmálum vöru og þjónustu, í skerðingu verðbóta á laun um 7% 1. mars 1981 — það var meiri skerðing á hærri launum en lægri eins og menn muna — samsvarandi lækkun fiskverðs og landbúnaðarvara, lækkun vaxta og lækkun skatta á lægri tekjum og lækkun aðflutningsgjalda ásamt miklu aðhaldi í peningamálum, gengismálum og fjármálum ríkisins. (Gripið fram í: Niðurtalning í gang.) Já, þá fór niðurtalningin í gang og nú skulum við fylgja henni eftir næstu mánuðina. (Gripið fram í.)

Framsfl. lagði í öndverðu áherslu á að þessar aðgerðir væru fyrsta skrefið til raunhæfrar niðurtalningar verðbólgu. Í viðtölum sem ég átti við fjölmiðla strax 3. jan. lagði ég áherslu á að nauðsynlegt væri að þessar aðgerðir væru fyrsta skrefið í þeim efnum. Og í útvarpsumr. frá Alþingi hinn 19. maí sagði ég orðrétt: „Framsfl. leggur ríka áherslu á að þessum ráðstöfunum verði fylgt eftir með aðgerðum síðar á árinu 1981 til að tryggja áfram hjöðnun verðbólgu.“ Því miður, segi ég, var það ekki gert og þess vegna jókst verðbólga á nýjan leik í árslokin í fyrra.

Tímabilið frá áramótum til haustsins 1981 er í rauninni eina samfellda tímabil niðurtalningar verðbólgu, þó sú niðurtalning hafi ekki verið útfærð nákvæmlega eins og við framsóknarmenn hefðum kosið. Og hver varð árangurinn þennan tíma? Árangurinn varð sá, að í stað þess að spáð hafði verið 70–80% verðbólgu þegar kæmi fram á mitt ár og upp úr miðju ári, þá lækkaði verðbólgan sannanlega niður í 40% í ágústmánuði. Það var enginn ágreiningur um það. Það var álit Seðlabanka, það var álit Þjóðhagsstofnunar, það var ekki umdeilt. Af þessu mega hv. þm. Sjálfstfl. sjá það, að ef niðurtalning er í gangi tekst að vinna gegn verðbólgunni. En hún verður að vera í gangi, hún verður að halda áfram til þess að svo verði. Vegna þess að niðurtalningu var ekki fylgt nægilega eftir haustið 1981 jókst verðbólga seinast á síðasta ári, þótt hún yrði rúmlega 41% frá upphafi til loka árs.

Í janúarmánuði á þessu ári gerði ríkisstj. síðan skammtíma ráðstafanir til að hamla gegn verðbólgu og reyna að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuvega og kaupmátt launa. Í skýrslu ríkisstj. til Alþingis voru ýmsar yfirlýsingar eins og menn muna. Sú langsamlega merkasta að mínu mati var um nýtt viðmiðunarkerfi á þessa leið:

Ríkisstj. mun nú þegar stofna til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi, sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir. M.a. verði reynt að finna leið til þess að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu.

Þá mun ríkisstj. hefja viðræður við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar um breytingar á skipan þeirra mála, sem stuðlað gætu að hjöðnun verðbólgu, en tryggt um leið afkomu í þessum greinum.“

Þá var einnig athyglisverð yfirlýsing um verðlagsmál, svohljóðandi:

„Í verðlagsmálum verður við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu, samkv. frv. sem lagt verður fram á Alþingi á næstu dögum. Tekið verður upp nýtt fyrirkomulag sem miðar að því að verðgæsla komi í vaxandi mæli í stað beinna verðlagsákvæða. Stuðlað verði að hagkvæmari innkaupum til landsins.“

Í raun og veru hefur ekki enn orðið önnur breyting á störfum verðlagsráðs um verðlagsákvarðanir en sú, að ákvarðanir verðlagsráðs eða samþykktir þurfa ekki lengur staðfestingu ríkisstj. Áætlun var gerð um það í ágústmánuði s.l. hver framfærsluvísitalan mundi verða 1. nóv. Því var spáð, að hún mundi verða 17%. Nú er komið á daginn að hún er 17.51 %, aðeins hærri en spáð var í ágúst. En það stafar ekki af því að verðlagsráð hafi tekið ákvarðanir sem settu þessa áætlun að neinu leyti úr skorðum. Hún hækkaði aðeins um 0.51 % og ástæðurnar fyrir hækkuninni voru tvær: Í fyrsta lagi að dollarinn hækkaði meira í verði gagnvart íslensku krónunni en gert hafði verið ráð fyrir. Menn höfðu reiknað með því að hann mundi fremur fara lækkandi heldur en hitt á þessu tímabili, en í stað þess hélt hann áfram að styrkjast og það hafði þau áhrif að framfærsluvísitalan hækkaði um 0.4% á þessu tímabili. Síðan hafa verðákvarðanir á opinberri þjónustu valdið því, að þessi áætlun hækkaði um 0.1%. Í þessu efni er það því ekki rétt að ákvarðanir verðlagsráðs á þessum tíma hafi haft áhrif umfram það sem gert var ráð fyrir þegar áætlunin var gerð um þetta mál í ágústmánuði.

Að öðru leyti voru ráðstafanir ríkisstj. fólgnar í stórauknum niðurgreiðslum til að hamla gegn hækkandi verðbólgu, lækkun aðflutningsgjalda, lækkun launaskatts í iðnaði og ennfremur lækkun stimpilgjalda í atvinnulífinu. Jafnframt voru áætluð útgjöld ríkissjóðs á árinu 1982 lækkuð um 120 millj. kr. með ýmiss konar sparnaði og aðhaldsaðgerðum.

Frá mínum bæjardyrum séð var hér um að ræða biðleik, sem ég játa að var heldur veikur og aðeins til stutts tíma. En með tilliti til yfirlýsinga, sérstaklega um nýtt viðmiðunarkerfi, töldum við í Framsfl. rétt að standa að þessum aðgerðum.

Um það leyti sem þessi skýrsla var lögð fram í janúarmánuði s.l. var áfram verið að fjalla um nýja kjarasamninga í landinu og 30. júní 1982 tókust samningar í kjaradeilu Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Samningar voru framlengdir til 31. ágúst 1983 þannig, að grunnlaun hækkuðu um 4% auk starfsaldurshækkana og flokkatilfærslna. Að meðtöldum samningum byggingarmanna frá 15. júní 1982 eru laun talin hafa hækkað um 6.3% í fyrsta áfanga samninganna. Jafnframt var samið um frekari starfsaldurshækkanir og flokkatilfærslur á samningstímanum. Er áætlað að samanlögð hækkun nemi um 9.3% á tímabilinu og er ég þá að tala um grunnlaunin. Hins vegar skyldi draga frá verðbótum 2.9% þann 1. sept. eins og gert var. Það er í sjálfu sér athyglisvert að aðilar vinnumarkaðarins skuli hafa viðurkennt í verki að sjálfvirknin í kerfinu væri orðin of mikil með því að samþykkja þennan frádrátt 1. sept.

Þegar samningar um launamálin hafa nú verið gegnumfærðir í öllu launakerfinu stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að heildarlaunin í landinu hafa hækkað um.a.m.k. 10%. Sumir segja meira, sumir segja 12% eða jafnvel meira. Ég skal ekki leggja á það dóm. En á sama tíma sem samið er um að hækka grunnlaun í landinu um a.m.k. 10% stöndum við frammi fyrir því að þjóðartekjur á mann munu minnka á samningstímabilinu einhvers staðar á bilinu 5–10%. M.ö.o., það vantar 15–20% til að brúa þetta bil. Þetta er augljóst hverjum manni, sem skoðar málið, og ég held að ekki verði um það deilt nú að atvinnuvegirnir eru ekki aflögufærir. Ég held að það verði ekki deilt um það. Þá kemur þessi spurning: Hvernig er hægt að standa að því að minnka verðbólgu í landinu á sama tíma sem slíkt gerist? Ég held að það muni standa í fleirum en núv. ríkisstj.

Á þessu ári hafa orðið ákaflega skjót umskipti í okkar þjóðarbúskap. Sú heimskreppa í efnahags- og atvinnumálum, sem herjar á efnahagslíf flestra þjóða, ekki síst nágrannaþjóðanna, hefur lagst með fullum þunga á okkar atvinnu- og efnahagslíf. Stjórnarandstaðan og þá alveg sérstaklega Morgunblaðið hefur reynt að gera lítið úr því, að það væri mikill samdráttur, sölutregða og stórfelldir erfiðleikar í alþjóðaviðskiptum, verðlækkanir o.s.frv.

Fríverslunarbandalag Evrópu, EFTA, hefur sent frá sér skýrslu um framvindu efnahagsmála á alþjóðavettvangi. Hún er nokkuð fróðleg og ástæða til að gera grein fyrir henni. Skal ég gera grein fyrir helstu niðurstöðum þeirrar skýrslu. Hún er dags. 22. sept. s.l.

Þar segir að sá samdráttur og sú kreppa, sem ríkt hefur í alþjóðlegum efnahagsmálum, haldi áfram þrátt fyrir gagnstæða spá og hafi reynst hin lengsta og alvarlegasta kreppa eða samdráttur í efnahagsmálum síðan í heimskreppunni 1930.

Þar segir áfram: Eftir áfallið af fyrstu olíukreppunni árið 1973 varð stöðnun meðal þeirra þjóða, sem eru meðlimir Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um tveggja ára skeið, árin 1974 og 1975, þar til hagvöxtur fór að aukast á nýjan leik.

Eftir aðra olíukreppuna á árinu 1979 varð ekki eins skarpur samdráttur og 1974, en batinn hefur látið á sér standa. Þegar nú nálgast árslok 1982 virðist þriðja ár samdráttar og kreppu blasa við. Það eru fá merki á lofti um að samdrátturinn og lægðin líði fljótt hjá og ástandið rétti fljótlega við eins og eftir fyrstu olíukreppuna.

Það sem einkennt hefur framvindu efnahagsmála síðan 1978 er þreföldun olíuverðsins ásamt almennum samdrætti. Hin fyrstu áhrif olíuverðshækkananna eru nú liðin hjá. Olíuverð hefur jafnvel staðið í stað eða lækkað og OPEC-ríkin hafa misst niður hagstæðan viðskiptajöfnuð. En stefnumörkunin er hin sama. Samhliða veikri framþróun efnahagsmála hefur atvinnuleysi farið vaxandi. Nú eru 30 millj. manna atvinnulausar innan OECD-landanna og jafnvel er talið að atvinnuleysi muni fara vaxandi á þessu og næsta ári.

Horfur varðandi verðbólguna eru betri. Hún hefur lækkað úr 11% 1980 í 9.6% árið 1981 í OECD-löndunum og er spáð 7.5–8% á þessu og næsta ári. Þá yrði hún svipuð og hún var fyrir fyrri olíukreppuna. Enn er þó mikill munur á verðbólgu. Hún er meiri í Frakklandi, Ítalíu, Kanada og í fleiri Evrópulöndum. Mikil breyting hefur átt sér stað hvað snertir viðskiptajöfnuð. Hagstæður viðskiptajöfnuður OPEC-ríkjanna um ca. 100 milljarða dollara hefur horfið og OECD-ríkin hafa sæmilegan jöfnuð en ákaflega misjafnan.

Fyrsta árið eftir olíukreppuna 1979 vegnaði EFTA-ríkjunum sæmilega nema Svíum. Full áhrif kreppunnar komu þó fram á árinu 1981, sérstaklega seinni hluta þess. Hagvöxtur hefur stöðvast og verður sáralítill á næsta ári eða yfirleitt innan við 2%. Atvinnuleysi fer vaxandi í EFTA-löndunum nema á Íslandi og er hlutfallslega um það bil helmingur af því sem er hjá OECD-ríkjum, nema hjá Portúgal, þar sem atvinnuleysi er svipað.

Þetta er dálítill útdráttur úr þessari skýrslu sem um margt er mjög fróðleg og ítarleg. Ég taldi ástæðu til að rekja þetta hér þegar verið er að ræða um þessi mál.

Við stöndum frammi fyrir miklum vandamálum og verðbólgan er auðvitað eitt af þeim. En það eru fleiri þjóðir en við sem standa frammi fyrir erfiðum vandamálum, í löndum þar sem atvinnuleysi tröllríður þjóðfélögum. 30 milljónir manna, 10% af öllum vinnukrafti, öllum vinnandi mönnum í OECD-löndunum, eru atvinnulausar. Við erum því engan veginn einir á báti og skal ég þó ekkert gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem við eigum við að stríða, og þeim vanda sem fylgir því að leysa úr þeim málum. En fyrsta skilyrðið til að leysa málin er að viðurkenna vandann og jafnframt að viðurkenna það, að fleiri þjóðir eiga við stórfelldan vanda að etja en við Íslendingar.

Eins og ég vék að áður stuttlega hefur öll framvinda efnahagsmála hér á Íslandi versnað mjög snögglega á þessu ári. Veldur auðvitað mestu að sjávarafli, sem var 76–77% af heildarútflutningi okkar á síðasta ári, hefur stórlega dregist saman. Og loðnuaflinn, sem var fyrir fjórum árum um 20% af heildarútflutningsverðmætum okkar er enginn á þessu ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur þorskafli verið nærri 25% minni en hann var í fyrra. Til viðbótar við þetta höfum við orðið fyrir gífurlegum skakkaföllum á Nígeríumarkaðnum, en Nígería var á síðasta ári þriðja mesta útflutningsland Íslendinga. Sama er að segja um álframleiðsluna. Hún hefur vaxið en verðið hefur stórkostlega lækkað. Núna mun verðið vera um helmingi lægra en það var fyrir nokkrum árum og þar að auki er mikil sölutregða.

Það sem hér hefur skeð og ekki verður með neinni sanngirni skrifað á reikning ríkisstj. er aðallega tvennt: annars vegar alvarleg efnahagskreppa í okkar viðskiptalöndum, með fallandi verði á útflutningsvörum og sölutregðu á mörkuðum, og hins vegar alvarlegur samdráttur í sjávarafla og horfur á að verðmæti sjávarafurða verði a.m.k. 16% minna á þessu ári heldur en var í fyrra. Þetta hvort tveggja ásamt verðbólgunni veldur 10–11 % greiðsluhalla á viðskiptum við útlönd, sem er auðvitað gífurlega mikill greiðsluhalli. Þó höfum við staðið frammi fyrir meiri greiðsluhalla eða svipuðum. Það eru þó ekki öll kurl komin til grafar, þannig að þetta kann að breytast þegar upp verður gert. En árin 1974 og 1975 var greiðsluhalli við útlönd um 11% hvort ár um sig, eftir olíukreppuna 1973.

Eins og komið hefur fram hér áður í umr. og vitað er munu þjóðartekjur á mann lækka stórlega. Þess vegna er að sjálfsögðu meiri ástæða til að gæta hófs í kröfugerð, þar sem þjóðarframleiðslan dregst svo mjög saman. Það verður að viðurkenna að það dróst úr hófi fram að ná samkomulagi innan ríkisstj. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Eftir verulegar sviptingar í vor og sumar tókst að lokum samkomulag í ríkisstj. um þær ráðstafanir. Ráðstafanirnar voru tilkynntar, eins og menn muna, 21. ágúst í sumar. Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir þeirri yfirlýsingu sem þá var gefin út af hálfu ríkisstj.

Að mínu mati voru eftirtalin atriði þýðingarmest: 1. Gengislækkun til að bæta stöðu útflutningsatvinnuveganna og draga úr viðskiptahalla. 2. Skerðing verðbóta á laun 1. des. til þess að draga úr víxlgangi verðlags og launa og forða allt að 80% verðbólgu á næsta ári og þar með algerri upplausn og atvinnuleysi að mínu mati. 3. Að verja lægstu laun eins og unnt er fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í þjóðartekjum. 4. Að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál, þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982. 5. Hægja á fjárfestingu í landinu og auka sparnað hjá ríkinu. 6. Halda uppi aðhaldsstefnu í peningamálum, fjármálum ríkisins og gengismálum.

Ég tel að þessi atriði hafi verið þýðingarmest í sambandi við viðleitni til að sporna gegn frekari verðbólgu og tryggja áframhaldandi rekstur útflutningsatvinnuveganna.

Ég álít að það teljist til verulegra tíðinda í stjórnmálunum að viðurkenning hefur fengist á því með aðilum að ríkisstj. að hið mjög svo verðbólguhvetjandi og gallaða vísitölukerfi skuli endurskoðað og nýtt viðmiðunarkerfi tekið upp. Nýtt og breytt viðmiðunarkerfi ásamt hliðarráðstöfunum til að verja kaupmátt launa, sérstaklega lægri launa, og samræmdari stefnu í efnahagsmálum að öðru leyti er að mínu mati alger forsenda þess að hægt sé að draga úr verðbólgu. Niðurtalningarstefna Framsfl. gerir ráð fyrir breyttu vísitölukerfi. Án þess er að mínu mati vonlaust að niðurtalning geti náð árangri. Áður en samkomulag náðist í ágústmánuði s.l. um efnahagsaðgerðir ríkisstj. var því spáð, að verðbólga stefndi í 75–80% á næsta ári ef ekkert væri að gert.

Það kann vel að vera að gera þurfi fleiri breytingar á hinni almennu stefnu í efnahagsmálum. En ég vil vekja athygli á því, sem ég nefndi meginatriði í upphafi máls míns, að með því að samþykkja og staðfesta þau brbl. sem hér eru til umr. er verið að stíga þýðingarmikið spor í þá átt að sporna gegn ennþá meiri, verulega meiri verðbólgu heldur en annars mundi ríkja. Mér finnst það mikið ábyrgðarleysi, ég verð að segja hróplegt ábyrgðarleysi af Sjálfstfl. að hann skuli lýsa því yfir, að þessari ráðstöfun geti hann ekki einu sinni fylgt. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það breytir engu um það að ríkisstj. hefur ekki meiri hl. í Nd. Alþingis. Sú staðreynd verður eftir sem áður. En að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu skuli ganga fram fyrir þjóðina blákalt og segja: Við greiðum atkv. gegn þessu, það skiptir engu máli hvort verðbólgan verður 10, 15 eða 20% meiri eða minni, það skiptir engu máli. Það finnst mér vera langt gengið, svo að ég segi ekki meira. Ég held að það séu einhver annarleg sjónarmið, ekki málefnaleg sjónarmið, sem ráða þeirri afstöðu flokksins.

Ég held að þetta eigi í sjálfu sér ekkert skylt við það hvað núv. ríkisstj. lifir lengi. Þetta er spurning um aðgerðir á hættulegum tíma. Þetta er spurning um nauðsynlegar aðgerðir til viðnáms gegn verðbólgu á erfiðum tímum í efnahags- og atvinnumálum. Og þá kemur Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og segir: Okkur er alveg sama hvort verðbólgan verður 5, 10, 15 eða 20% hærri eða lægri, okkur er alveg sama. (EKJ: En hefur Sjálfstfl. sagt það?) Ja, hv. þm. talaði fyrir hönd Sjálfstfl. hér áðan. Ég man ekki hvaða tölu hann nefndi, 10% a.m.k. nefndi hann, ef það var ekki meira. Það er hægt að ganga úr skugga um það með því að lesa ræðu hans, en hann nefndi tölur í þessu efni, sem voru þannig, að manni skildist að afstaða hv. þm. — og ég hygg að hann hafi talað fyrir hönd síns flokks — væri þessi: Ja, það skiptir nánast ekki máli hvort verðbólgan verður þarna meiri eða minni. Það kann að vera að það skipti ekki öllu máli. En það skiptir máli, það er ljóst. Og ég held að þetta verði ekki til þess að auka traust þjóðarinnar á ábyrgum vinnubrögðum Sjálfstfl.

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt að ríkisstj. stendur frammi fyrir erfiðum vanda og hún hefur ekki meiri hl. á Alþingi, sem þarf til þess að takast á við þann vanda að mínu mati. (Gripið fram í.) Ég skal ekkert um það segja. A.m.k. sér maður ekki fram á það að stjórnarmyndun liggi á borðinu ef þessi ríkisstj. segði af sér t.d. í dag. (Gripið fram í: Eyjólfur Konráð var að bjóða Framsfl. að stjórna með honum.) Jafnvel þó að hv. þm. Eyjólfur Konráð bjóði stjórnarmyndun, þá er öllum viðræðum á milli þessara tveggja hv. þm. lokið. Það var mikið um það talað hér um daginn að miklar viðræður hafi verið m.a. á milli þessara hv. þm. Ég las það í einhverju blaði. En það er nú ekki allt rétt sem stendur í blöðum. Þeim er þá líklega lokið. Ég skoðaði þetta nú ekki þannig hjá hv. þm. að hann væri að gera tilboð um stjórnarmyndun. En án gamans, þá liggur það auðvitað alveg á borðinu að það verður ekki mynduð ríkisstj. í fljótheitum til að takast á við þessi mál þessar vikur. Og þörfin fyrir að staðfesta brbl. er fyrir hendi.

Ég álít að Sjálfstfl. hafi orðið sér til hreinnar skammar í afstöðunni til þessa máls, og ég veit að fjöldamargir sjálfstæðismenn um allt land eru gáttaðir á afstöðu flokksins til þess. (SalÞ: Er ráðh. í góðu sambandi við sjálfstæðismenn?) Ég er í nógu góðu sambandi við sjálfstæðismenn til þess, t.d. ýmsa sjálfstæðismenn í atvinnurekendastétt. (EgJ: Vill þm. ekki segja fréttir af landsþinginu hjá sér?) Það var nú allt opið í báða enda, landsþingið, þannig að þar gátu menn fylgst með öllu. Ég vil bara vísa til þess sem t.d. Morgunblaðið skrifaði um það. Les hv. þm. ekki Morgunblaðið? Ég hélt að hann læsi Morgunblaðið og tryði öllu sem í því stendur.

Ég taldi ástæðu til þess við 1. umr. þessa máls að ræða nokkuð almennt um efnahagsmálin og þróun þeirra s.l. 3–4 ár og gera síðan að umræðuefni það sem undrar mig mest í sambandi við þetta mál sérstaklega. Það er það að Sjálfstfl. skuli snúast gegn því.

Ég held að þingflokkur Alþfl. hafi ályktað í sumar, líklega seinni partinn í ágúst, eftir að ráðstafanirnar voru auglýstar, að þessar tillögur væru nákvæmlega þær sömu — formaður Alþfl. getur leiðrétt mig ef ég fer með rangt mál — væru nánast nákvæmlega þær sömu og ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hefði beitt sér fyrir 1978. Ég held að það hafi beinlínis verið tekið fram í ályktuninni. Þess vegna var þinglokkur Alþfl. undrandi á því og lét það í ljósi, að Sjálfstfl. snerist nú gegn frv. sem var nákvæmlega sama eðlis og ráðstafanir sem ríkisstjórn Sjálfstfl. beitti sér fyrir 1978.

Lárus Jónsson: Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er til staðfestingar á brbl. sem ríkisstj. gaf út í sumar og hafa verið mikið til umr. í þjóðfélaginu. Það er út af fyrir sig fróðlegt að hlýða á þær umr. sem hér hafa farið fram um þetta fræga mál. Hæstv. forsrh. las upp úr þjóðhagsáætlun, sem hann lagði fram í upphafi þings og rædd var ítarlega við umr. um stefnu eða stefnuleysi núv. hæstv. ríkisstj. Hæstv. ráðh. Tómas Árnason gerði þó tilraun til að verja ríkisstj. í þeirri stöðu sem hún er í nú.

Hans meginniðurstaða er sú, að það sé, ábyrgðarleysi af Sjálfstfl. að bregðast við þessu máli eins og alþjóð veit að hann hefur gert.

Hvað gerði nú Sjálfstfl.? Hann óskaði eftir því að þegar í stað yrði kvatt saman þing og þessi mál rædd þar þannig að það gæfist tækifæri fyrir 1. des. að gera aðrar og betri ráðstafanir en hæstv. ríkisstj. hefur gert. Hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson hefur viðurkennt opinberlega að Sjálfstfl. hafi haft rétt fyrir sér í þessu efni, það hefði átt að kveðja saman þing þegar í sumar í þeirri stöðu sem þjóðarbúið er nú í og hæstv. ráðherrar hafa málað dekkstum litum í þjóðfélaginu hvað sé hættulegt. Þeir segja í öðru orðinu: Við búum nú við hættulegasta ástand í efnahagsmálum og hættu á stórfelldasta atvinnuleysi sem komið hefur yfir þjóðina í áratugi. Þetta er að vísu rangt, en þetta segja hæstv. ráðherrar. (Viðskrh.: Ekki sagði ég það.) Þetta hafa aðrir hæstv. ráðh. sagt. En þeir segja jafnframt: Ríkisstj. er komin að þrotum. Það sagði einn hæstv. ráðh., hæstv. menntmrh. Er það ábyrgð, hæstv. ráðh., að sitja áfram rólegur í stólnum vitandi að hættuástand er skollið yfir þjóðina og vitandi að hæstv. ráðherrar geta ekkert gert í málinu? Var það ábyrgðarleysi af Sjálfstfl. að krefjast þess að Alþingi kæmi saman í sumar? (Gripið fram í: Ekki segir Steingrímur það.) Ekki segir Steingrímur það, það er rétt.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Hann sagði, að þessar ráðstafanir væru svipaðar því sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar gerði í febr. 1978. Þetta er rangt hjá hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. veit þetta og á að vita það manna best því að hann stóð að þeim ráðstöfunum líka. 1978 var verðbótaskerðing miklu minni. Hún kom í kjölfar 20–30% grunnkaupshækkana í þjóðfélaginu. Verðbótaskerðing á laun var þann veg háttað, að hlíft var lægstu launum, hækkaðar voru bætur almannatrygginga og engir skattar á lagðir. Þvert á móti var gert ráð fyrir að ríkissjóður gengi á undan í sparnaði í þjóðfélaginu með því að draga saman seglin fremur en hitt. Getur hæstv. ráðh. staðið á því að þetta séu sambærilegar ráðstafanir? Það getur hann ekki. Hann sagði að verðbólga hefði þá verið komin í 50% í ágúst, og má vel vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., en verðbólga var komin niður í 26% sumarið 1977. Þá voru gerðir kjarasamningar, svokallaðir sólstöðusamningar, sem hækkuðu kaup á einu bretti um á milli 20 og 30%, og af því stafaði sá verðbólguvandi, sem við var að etja fyrst á árinu 1978, fyrst og fremst.

Hæstv. ráðh. gerði mikið úr því að það hefðu náðst fram ýmsar ráðstafanir í ríkisstj., og raunar voru gerð sérstaklega að umtalsefni brbl. sem sett voru í sjónvarpi á gamlársdag 1980. Um það sagði hann, að það hefði verið eftir verulegar sviptingar sem það samkomulag hefði náðst. Og hann sagði að um ráðstafanirnar núna hefði náðst samkomulag eftir talsverð átök innan ríkisstj. Fram að þessu hafa hæstv. ráðherrar viljað halda því fram, að núv. ríkisstj. væri eitthvert sérstakt kærleiksheimili, (Gripið fram í: Hann sagði ekki innan ríkisstj.) þar sem ráðherrar Framsfl. og Alþb. hafa 10 ráðuneyti af 13 og hafa aldrei ráðið jafnmiklu á Íslandi, hvorki fyrr né síðar. Þeir hafa haldið því fram, að samkomulagið milli þeirra væri svo gott að það væri til sérstakrar fyrirmyndar. Það er því mjög athyglisvert að heyra þessar játningar hæstv. ráðh. nú, að það hafi orðið stórkostleg áflog innan ríkisstj. í þau einu skipti sem hún hefur gert eitthvað að marki til að reyna að stjórna efnahagsmálum landsins, það hafi gerst eftir stórkostleg áflog, verulegar sviptingar, sagði hæstv. ráðh., og „talsverð átök“ voru hans óbreyttu orð. (Gripið fram í: Hann átti við innan Framsfl.) Það má vel vera að það hafi líka verið.

Þetta frv., sem hér er til umr., ber yfirskriftina: Frumvarp til laga um efnahagsaðgerðir. Nú hefur hæstv. ráðh. sagt það, og ég spyr hann hvort það sé rétt skilið hjá mér, að Framsfl. hafi fallist á að styðja þetta frv. vegna þess að samtímis var gerð ályktun í ríkisstj. um að það yrði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi við laun. (Gripið fram í: Hann sagði það.) Er þetta rétt skilið? Hvar er þetta frv., hæstv. ráðh., um nýtt viðmiðunarkerfi? Liggur það á borði hv. þm. núna, þegar verið er að ræða hinar svokölluðu efnahagsráðstafanir, sem Framsfl. féllst á með því skilyrði að nýtt viðmiðunarkerfi næði fram að ganga? Hvar er þetta frv.? Hvar eru frumvörp um nýjar láglaunabætur á laun? Þetta frv. til staðfestingar brbl., sem bar að sjálfsögðu enga brýna nauðsyn að leiða í lög í ágúst, hefur ekki komið fram fyrr en nú á Alþingi og þá fá hv. þm. ekki að sjá þau frumvörp sem eru skilyrði einstakra ráðh. í ríkisstj. að nái fram að ganga með frv. sem hér er til umr.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur sagt: Mín afstaða til þessara brbl. fer eftir því hvort í gegn fari frv. um láglaunabætur og orlof. Hefur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson tryggingu fyrir því að Framsfl. fylgi því án þess að fá í gegn frv. um breytt vísitölukerfi?

Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Liggur fyrir að hæstv. ríkisstj. standi að því að afgreiða þessi brbl.? Hafa þau skilyrði, sem einstakir þm. sem styðja ríkisstj. og einstakir ráðh. hafa sett, verið uppfyllt?

Ég held að svarið liggi í augum uppi. Hæstv. ríkisstj. er alls ekkert einhuga um þetta mál. Þar eru augljóslega mjög margir lausir endar. Ég fæ ekki séð að hv. Alþingi geti afgreitt þetta mál öðruvísi en að fá þau frumvörp á borðið sem eiga að fylgja þessu frv. til staðfestingar brbl. og fái það á hreint hver afstaða hæstv. ríkisstj. er yfir höfuð í þessum málum. Á meðan slíkt er ekki kemur það úr hörðustu átt að menn ásaki Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu fyrir ábyrgðarleysi í þessum efnum, sérstaklega þegar á það er litið að hans tillaga var nr. 1, 2 og 3 að Alþingi yrði kvatt saman þegar í sumar, þegar það var ljóst í hvers konar skötulíki efnahagsráðstafanir ríkisstj. yrðu, sem þá voru afgreiddar. Auðvitað verður að ræða þessi atriði öll í samhengi, enda krafa einstakra ráðh. og hv. þm., sem styðja ríkisstj., að svo sé gert.

Ég vil þá aðeins víkja að því, hver áhrif þessara brbl. eru í raun og veru og hver sé stefna þeirra, ef stefnu skuli kalla. Það liggur ljóst fyrir, að kjaraskerðing samkv. þessum brbl. og svonefndum Ólafslögum verður nálægt 10% núna 1. des. Það liggur hins vegar líka ljóst fyrir, að verðbólga verður mjög svipuð og hún er nú á næsta ári ef ekki verða gerðar aðrar ráðstafanir. Meiri er árangurinn ekki af þessum brbl. Í þjóðhagsáætlun, sem hæstv. forsrh, lagði fyrir Alþingi, segir svo, með leyfi forseta:

„Venjubundinn framreikningur á ferli framfærsluvísitölu eftir þessar aðgerðir bendir til að heldur geti dregið úr ársfjórðungshækkun framfærsluvísitölunnar á fyrra hluta næsta árs, en hækkun hennar yrði þó enn svipuð og í lok þessa árs eða um 60%. Er þá miðað við að á næsta ári verði fylgt óbreyttu verðbótakerfi samkv. gildandi lögum og ekki reiknað með sérstökum efnahagsaðgerðum er hafi áhrif á verðlagsþróunina. Þá er gert ráð fyrir virku aðhaldi í peninga- og lánamálum og ríkisfjármálum.“ Það er sem sagt reiknað með því — Þjóðhagsstofnun segir það í þeirri þjóðhagsáætlun sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram — að áhrif brbl. verði þau að það verði sama 60% verðbólgan á næsta ári og er í ár. Á öðrum stað í þessari þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að ríkisstj. stefni að því að verðbólga verði 40–45% og þar er talað um áhrif nýs viðmiðunarkerfis á laun. Nú þekki ég ekki þetta nýja viðmiðunarkerfi. Hv. Alþingi hefur ekki verið upplýst um með hvaða hætti eigi að breyta því gamla, en augljóslega er gert ráð fyrir að það dragi verulega úr verðbólgu, þ.e. það hafi þau áhrif á verðbætur á laun að úr verðbólgu dragi. En hvar er þetta merka mál statt? Mér sýnist að um það sé bullandi ágreiningur í ríkisstj. og það er alveg ljóst að þessi brbl. hafa ekki meiri áhrif en kemur fram í sjálfri þjóðhagsspá hæstv. forsrh.

Þá kemur fram í þessari þjóðhagsspá, að áhrif brbl. á viðskiptahallann verða ekki meiri en svo, að hann er talinn verða óhagstæður um 6% á næsta ári, en milli 10 og 11 % á þessu ári, en þegar áætlaður er viðskiptahalli á næsta ári er gert ráð fyrir margháttuðum öðrum aðgerðum en brbl. þannig að það er ljóst að brbl. hafa ekki meiri áhrif á viðskiptajöfnuð en að draga kannske um 2% úr þeim gífurlega viðskiptahalla sem nú er og þá er ég að miða við hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Hæstv. ríkisstj. hefur talað mikið um að það sé höfuðmarkmið að draga mikið úr þessum viðskiptahalla og erlendum lántökum. En hvaða áhrif hafa nú brbl. á þetta? Í þjóðhagsáætlun segir svo um þetta:

„Erlendar skuldir nema nú um 45% af þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði er 23% af útflutningstekjum. Jafnvel þótt viðskiptahallinn minnki verulega á næsta ári eru líkur á að þessi hlutföll hækki enn.“

Þetta eru nú öll áhrifin, sem þetta frv. á að hafa á viðskiptahallann og erlendar skuldir.

Annars staðar kemur fram, í gögnum sem Seðlabankinn hefur látið í té, að greiðslubyrði fastra erlendra lána fari upp í 25% af útflutningstekjum á næsta ári. Eftir að brbl. eru komin fram er þetta áætlun Seðlabankans. Einnig er áætlað að erlendar nettóskuldir fari upp í það að vera 48,5% af þjóðarframleiðslu á næsta ári. Áhrif þessara merku efnahagsaðgerða eru nú ekki meiri en þetta. Það heldur áfram að stóraukast vandi okkar varðandi eyðsluskuldasöfnun erlendis og almenna skuldasöfnun.

Hver eru svo áhrif þessara brbl. á afkomu atvinnuveganna og aukið atvinnuöryggi? Það er ljóst, að atvinnurekstur í landinu er rekinn með bullandi halla þrátt fyrir þessi brbl. og stórfellt hrap gengisins. Mér skilst að dollarinn hafi hækkað í verði gagnvart íslenskri krónu um meira en 100% á einu ári. Samt sem áður er nú svo illa komið, að atvinnuvegirnir eru reknir með bullandi halla. Skipin sigldu í land eftir að þessi brbl. voru samþykkt vegna þess hve afkoma þeirra var slæm og enn syrtir þar í álinn.

Þessi brbl. hafa sem sagt þau áhrif, ef áhrif skyldi kalla, að verðbólgan verður áfram 60% á næsta ári, að viðskiptahallinn heldur áfram, verður kannske 1–2% minni eða kannske 3, viðskiptajöfnuður verður það óhagstæður að erlendar skuldir halda áfram að stórhækka, greiðslubyrðin að aukast og afkoma atvinnuveganna er svo slæm að ekki verður betur séð en að þeir stöðvist innan skamms. Þetta er í sem skemmstu máli sá árangur sem er af þessum efnahagsaðgerðum.

Herra forseti. Ef þú vilt gera hlé núna er ég reiðubúinn. (Forseti: Ef það hentar hv. þm. að gera hlé á sinni ræðu þætti mér það æskilegt.) — [Fundarhlé.