22.11.1982
Efri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Mér þykir vænt um að heyra það að hæstv. forsrh. telur að staða atvinnuveganna sé nokkuð þolanleg um þessar mundir. En það er sjálfsagt að fá upplýsingar um það frá Þjóðhagsstofnun í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég býst við að ýmsum, sem eru kunnugir atvinnuvegunum og hér sitja inni í þessari hv. deild, blöskri þessar fullyrðingar hæstv. ráðh. Ég skal þó ekki fjölyrða um þær, aðeins benda á að núna fyrir örskömmu síðan hækkaði olía verulega til fiskiskipa. Það er talið að sú hækkun kosti útgerðina 180–200 millj. yfir árið. Menn vita að það hefur orðið lítil fiskverðshækkun. Það er því alveg ljóst að t.d. fiskveiðarnar eru reknar með mjög miklum halla og hafa verið síðustu mánuði og ár. Það er kannske hægt að benda á það að 6skvinnslan eða einhverjir þættir hennar hafi einhverja daga, rétt áður en skellur á hækkun á hinum og þessum aðföngum o.s.frv., verið rekin rétt yfir núllinu, en það vita allir menn sem vilja vita að atvinnuvegirnir hafa verið reknir með bullandi halla undanfarin misseri. Ég skal ekki elta frekar ólar við þær fullyrðingar hæstv. ráðh. að svo hafi ekki verið. En það er sjálfsagt að óska eftir upplýsingum þar til bærra aðila um það.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði farið rangt með þegar ég hefði haldið því fram að verðbólga yrði samkv. mati Þjóðhagsstofnunar 60% yfir árið 1983 ef ekkert yrði frekar að gert en nú með þessum brbl. Ég skal endurtaka það sem ég las hér. Það stendur hér á bls. 29 í þjóðhagsáætlun hæstv. forsrh.: „Venjubundinn framreikningur á ferli framfærsluvísitölu eftir þessar aðgerðir bendir til að heldur geti dregið úr ársfjórðungshækkun framfærsluvísitölunnar á fyrri hluta næsta árs, en hækkun hennar yrði þó enn svipuð og í lok þessa árs eða um 60%.“ Þetta er tekið orðrétt, herra forseti, upp úr sjálfri þjóðhagsáætlun hæstv. forsrh.

Fleira sem hann taldi hér að ég hefði fullyrt og væri rangt var í sama dúr. Ég sagði ekki að erlendar skuldir mundu aukast meira en þær hefðu gert í ár, heldur að greiðslubyrði mundi aukast á næsta ári vegna þess að viðskiptahallinn yrði þrátt fyrir allt mjög verulegur. Hann mundi ekki vegna þessara ráðstafana minnka nema um kannske 1–3% eftir öðrum aðstæðum í þjóðfélaginu. Það er nefnilega talað um alls konar aðgerðir, sem enginn veit í hverju eru fólgnar, sem eiga að ná honum niður í 6% af þjóðarframleiðslu. En þótt það markmið náist, þá eykst greiðslubyrðin á næsta ari. Og ég vona að hæstv. ráðh. taki rétt eftir því sem ég er að segja, að það er greiðslubyrðin sem ég á við. Seðlabankinn áætlar að greiðslubyrðin aukist úr 23% af útflutningsverðmæti á þessu ári í 25% á næsta ári og að nettóskuldastaða okkar fari versnandi á næsta ári, enda þótt gefið sé í þessu dæmi að viðskiptahallinn náist niður í 6%, sem er alls útilokað að sjá með hvaða hætti eigi að gerast, nema til komi einhverjar allt aðrar ráðstafanir á næsta ári heldur en við erum að fjalla um hér nú.

Eins og ég sagði áðan tel ég brýna nauðsyn bera til að þetta mál gangi sem allra fyrst til nefndar. Ég ætla þess vegna ekki að orðlengja hér um þetta nú, enda gefst tækifæri til að skoða það í nefnd og hér þá síðar við 2. umr.