22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

5. mál, Útvegsbanki Íslands

Albert Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkomnu frv. til l. um breytingar á lögum um Útvegsbanka Íslands nr. 12/1961. Það er fyllilega tímabært að lög um Útvegsbanka Íslands séu endurskoðuð. Ekki bara að því leyti sem fram kemur í þessu frv., eins og 1. flm., hv. 10. landsk. þm. hefur kynnt það, heldur er full ástæða til að endurskoða lög um banka, bæði þennan banka og alla hina bankana, og gera þær breytingar sem telja verður nauðsynlegar miðað við breytta tíma.

Ég vil taka vel undir þær breytingar sem hér er farið fram á að gerðar verði. Eins og kom fram hjá hv. 1. flm. þá liggja þessir liðir nokkuð ljóst fyrir, það er hægt fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust að gefa upplýsingar um þá alla og sundurliðun á þeim í Útvegsbanka Íslands, eftir því sem ég best veit, svo að það á ekki að vera neitt vandamál. En það er annað, sem kemur hér fram í 1. gr., sem ég vil gera athugasemd við. Það er starfsár Útvegsbankans og starfsár bankanna almennt. Það er löngu úrelt að miða það við almanaksárið. Almanaksárið er ekki rétt viðmiðun og skapar óeðlilegt ástand um áramót og í desembermánuði þegar viðskipti eru hvað mest og umsvif í þjóðfélaginu. Auðvitað ætti starfsárið að miðast við mitt ár, 30. júní eða eitthvað slíkt, en alls ekki við það reikningstímabil sem nú er miðað við.

Þá er annað atriði í máli hv. 1. flm. sem er rétt að nefna. Það er Seðlabankinn og bankaeftirlitið. Að sjálfsögðu á að aðskilja bankaeftirlitið og Seðlabankann. Bankaeftirlitið á að sjálfsögðu að vera eftirlit með Seðlabankanum eins og öllum öðrum bönkum, sér í lagi þegar Seðlabankinn er nú orðinn einn stærsti viðskiptabankinn, og má segja eini viðskiptabankinn þó hann noti hina ríkisbankana sem einhvers konar útibú. Þá er ennþá meiri ástæða til þess að bankaeftirlitið sé sjálfstæð stofnun. Að því leyti vil ég líka taka undir með 1. flm. frv.

Ég fagna framkomu þessa frv. og mun áskilja mér rétt til að gera frekari breytingar á lögum um Útvegsbanka Íslands en hér eru tilgreindar.