22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

21. mál, almannatryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971 með síðari breytingum, sem hér liggur fyrir á þskj. 21 og er 21. mál þingsins.

Frv. hef ég lagt fram ásamt hv. þm. Pétri Sigurðssyni, Magnúsi H. Magnússyni og Guðmundi G. Þórarinssyni. Í því felst breyting á 34. gr. laga um almannatryggingar sem varðar bætur vegna örorku sem orsakast hefur af slysi. Í fyrri gr. frv. er um að ræða lagfæringu sem hefði átt að vera búið að gera fyrr, en það er að breyta aldursmarkinu 16 ára sem enn stendur í lögunum, í 18 ára, og er það einungis leiðrétting til samræmis við barnalög nr. 9/1981 sem voru samþykkt hér í fyrra.

En meginatriði þessa frv. er fyrst og fremst það, að samkv. núgildandi lögum fær maður sem metinn er 75% öryrki af völdum slyss, sem er bótaskylt samkv. ákvæðum um slysatryggingar almannatrygginganna, aðeins greiddan barnalífeyri með þeim börnum sem hann átti þegar slysið varð. En þau börn sem fæðast eftir þann tíma njóta ekki barnalífeyris eins og börn annarra öryrkja. Þetta fyrirkomulag mun eiga rætur sínar að rekja til þess, að slysatryggingar bera einkenni skaðabótaréttar og því skyldi aðeins bætt það tjón sem tjónþegi varð fyrir á þeirri stundu sem slys átti sér stað. Þetta skaðabótasjónarmið á þó fyrst og fremst við um þær bætur slysatrygginga sem greiddar eru í einu lagi. Allt öðru máli gegnir um slysabætur sem greiddar eru mánaðarlega eins og annar örorkulífeyrir.

Það verður ekki annað séð en að örorkulífeyrir slysatrygginga gegni í stórum dráttum sams konar hlutverki og annar örorkulífeyrir vegna veikinda. Því þykir okkur eðlilegt að sams konar reglur gildi um greiðslu barnalífeyris til allra örorkulífeyrisþega í landinu, hvort sem örorkan er til komin vegna slysa eða almennra veikinda.

Ég held að hér sé óþarfi að halda langa ræðu. Grg. sem hér liggur fyrir með frv. skýrir sig sjálf. Ég treysti því að hv. þm. fallist á réttmæti þessa litla frv. og veiti því brautargengi. Ég legg til að þetta mál fari til meðferðar hjá hv. heilbr.- og trn.