22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

9. mál, atvinnulýðræði

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 9 er flutt af þm. Alþfl. í þessari hv. deild. Efni frv. varðar einn mikilvægasta þáttinn í stefnu okkar Alþfl.-manna um virkara lýðræði og aukna valddreifingu. Með því er lagt til að launþegar öðlist beina stjórnunaraðild að atvinnulífinu og meðákvörðunarrétt um allar ákvarðanir sem þar eru teknar á vegum einstakra fyrirtækja. Nái meginefni þessa frv. fram að ganga á Alþingi yrði stigið stærsta skref í átt til virkara lýðræðis og aukinnar valddreifingar í þjóðfélaginu sem stigið hefur verið um margra ára skeið. Þetta eina mál gæti gerbreytt öllum aðstæðum í atvinnu- og félagsmálum landsmanna og stóraukið virka þátttöku fólks í ákvörðunum sem varða hag hvers og eins og samfélagsins í heild.

Það er ekki nýtt mál hér í sölum Alþingis að Alþingi fjalli með einhverjum hætti um atvinnulýðræði. Fyrst mun till. til þál., um að Alþingi skipi nefnd til að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn fyrirtækja, hafa verið flutt af Ragnari Arnalds þegar árið 1965. Till. fékkst ekki afgreidd á því þingi, né heldur þegar hún var endurflutt árið eftir. Allt frá því að sú till. var á dagskrá árið 1965 og 1966 hafa þm. Alþfl. haft hér á þinginu alla forgöngu malsins á hendi.

Fyrsta þingmál Alþfl.-manna um þetta efni kom þannig fram á Alþingi árið 1967 er Benedikt Gröndal, þáv. alþm., flutti till. um breyt. á lögum um Sementsverksmiðju ríkisins þess efnis að til viðbótar við stjórnarmenn kjörna af Alþingi skyldu starfsmenn verksmiðjunnar kjósa tvo úr sínum hópi. Það frv. fékkst ekki afgreitt og ekki heldur er það hefur verið endurflutt síðan.

Næsta þingmál Alþfl. var frv. til l. um hlutdeild starfsmanna í stjórn atvinnufyrirtækja sem þáv. þm. Alþfl., þeir Jón Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson, fluttu í Ed. Alþingis árið 1970. Þetta frv. fékk jákvæðar viðtökur og því var vísað til ríkisstj. að fengnum umsögnum Alþýðusambandsins og Sambands ísl. samvinnufélaga sem voru jákvæðar en umsögnin frá Vinnuveitendasambandi Íslands var neikvæð. Ríkisstj. aðhafðist hins vegar ekkert í málinu, þó svo að þessu frv. hafi verið vel tekið á Alþingi.

Það varð svo til þess að árið 1973 fluttu allir þingmenn Alþfl. undir forustu Benedikts Gröndals till. til þál. um að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að skipa nefnd til þess að semja frv. til l. um atvinnulýðræði þar sem launþegum yrðu tryggð áhrif á stjórn fyrirtækja og hlutdeild í arði af rekstri þeirra. Þessi till. var samþykkt á Alþingi. Þannig liggur nú fyrir samþykkt Alþingis þar sem hæstv. félmrh. er falið að sjá til þess að umrætt frv. verði samið á vegum ríkisstj. Þáv. félmrh. Björn Jónsson skipaði þann 10. ágúst 1973 nefnd þá sem fjallað var um í samþykkt þingsins að skipuð skyldi til þess að vinna að þessari frumvarpssmíð.

Nefndina rak hins vegar fljótlega í strand. Hún hélt aðeins tvo bókaða fundi, auk óbókaðra viðræðufunda og í októbermánuði árið 1973, aðeins skömmu eftir að nefndinni hafði verið komið á fót ákvað hún raunar með formlegum hætti að leggja sig niður og hefur ekki verið endurreist.

Ég spurðist fyrir um það á Alþingi í fyrra hjá hæstv. félmrh. Svavari Gestssyni hvort tekist hefði að vekja nefndina eða málið í heild. Svo virtist ekki vera. Og aðalástæðan er nú sem fyrr tregða vinnuveitenda sem vilja alfarið gera þetta mál um meðákvörðunarrétt launþega í atvinnulífi að samningsatriði í tengslum við kaup og kjör. En einnig virðist því miður áhugi landssamtaka launþega á málinu lengi vel hafa verið meiri í orði en á borði.

Reynsla okkar Íslendinga staðfestir sem sé reynslu flestra annarra þjóða sem hafa með einhverjum hætti fjallað um skyld málefni. Það kemur m.a. fram í ítarlegri skýrslu um atvinnulýðræði sem lögð var fyrir breska þingið árið 1977 og ég hef í mínum fórum. Þar kemur fram sú reynsla allra þjóða þar sem launþegar hafa með einhverjum hætti öðlast meðákvörðunarrétt í atvinnulífi, að slíkt hefur ekki gerst fyrir tilverknað frjálsra samninga í tengslum við kaup og kjör, heldur hefur ávallt þurft að koma til atbeini löggjafarvalds.

Um atvinnulýðræði hefur aldrei verið hægt að semja. Um það hefur alltaf þurft að setja lög eins og um svo fjölmörg önnur mannréttindamál. Það er ekki samið milli aðila vinnumarkaðarins um kosningarrétt og kjörgengi. Það er ekki samið á milli aðila vinnumarkaðarins um ýmis mannréttindi sem menn telja rétt að þegnar þjóðfélagsins hafi. Það er hlutverk Alþingis að veita slík réttindi en ekki hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um þau. Og með sama hætti er það hlutverk Alþingis að taka ákvörðun um hvort rétt sé að veita íslenskum launþegum þennan meðákvörðunarrétt. Þann rétt eiga þeir ekki að þurfa að kaupa fyrir einhverjar prósentur í kaupgjaldi í samningum um kaup og kjör við viðsemjendur sína.

Í skýrslunni, sem lögð var fyrir breska þingið árið 1977 og er mjög ítarleg eins og ég sagði áðan, er einmitt tekið fram að þetta sé reynsla allra þeirra þjóða sem hafa tekið með einhverjum hætti upp meðákvörðunarrétt í atvinnulífinu. Um það hefur ávallt orðið að setja löggjöf. En það er einnig mjög athyglisvert að í þessari skýrslu er einnig rætt við forustumenn vinnumarkaðar, launþega og atvinnurekendur í þeim ríkjum þar sem upp hefur verið tekinn meðákvörðunarréttur með einhverjum hætti, þar sem upp hefur verið tekið atvinnulýðræði af einhverjum toga. Og það undarlega er að samkv. þessari skýrslu er það samdóma álit forsvarsmanna bæði atvinnufyrirtækja og launafólks að þessi breyting, meðákvörðunarréttur í málefnum atvinnulífsins, hafi reynst til mikilla bóta, bæði fyrir atvinnulífið í heild, fyrir launþega og starfsfólk og fyrir fyrirtækin sjálf. Þeir atvinnurekendur t.d., sem voru andvígir því þegar rætt var um málið á frjálsum samningsgrundvelli að meðákvörðunarréttur yrði veittur í atvinnulífinu, virðast hafa sannfærst um það, eftir að löggjafinn hafði tekið þá ákvörðun að veita slík réttindi, að hann hafi orðið þeim og fyrirtækjum þeirra til góðs. Í þessari skýrslu frá 1977, sem ég hef gert hér að umræðuefni þar sem fjallað er um öll þau lönd og allar þær aðstæður þar sem meðákvörðunarrétturinn hefur verið tekinn upp, er athyglisvert að það er samdóma álit allra aðila vinnumarkaðarins sem leitað er til í öllum þessum löndum að þessi breyting hafi orðið til mikilla bóta og bæði atvinnurekendur og launþegar eru sammála um þann rétt beri ekki að afnema.

Er vakin sérstök athygli á því að þetta er einnig álit stjórnenda atvinnufyrirtækja. Vegna þessarar stöðu, sem raunar var orðin ljós fyrir allmörgum árum, að ekki væri hægt fremur hér á landi en annars staðar að semja um mál af þessu tagi, brugðu þm. Alþfl. á það ráð árið 1977 að flytja mjög ítarlegt frv. til I. um atvinnulýðræði. Það frv. var mjög svipað því sem hér er flutt en miklum mun ítarlegra og nákvæmara í smáatriðum um hvernig framkvæma skyldi, t.d. var mun ítarlegar fjallað um það í frv. hvernig standa skyldi að kosningum fulltrúa starfsfólks á vinnustöðum.

Með því frv. fylgdi mjög yfirgripsmikil grg. um stöðu þessara mála í nálægum löndum eins og hún var árið 1977 svo og samantekt um rök með og móti atvinnulýðræði og um sögu málsins hér á landi. Við höfum ekki valið þann kostinn að endurprenta allar þessar upplýsingar í grg. með frv. því sem hér er flutt en látum okkur nægja að vísa til frv. á þskj. 315 sem flutt var árið 1977 til frekari upplýsinga um þessi mál. Flestar upplýsingar, sem þar eru gefnar, eiga við enn, þó svo að nokkur ár séu liðin frá því að sú samantekt var gerð. Meginefni þessa frv. var endurflutt árið eftir, árið 1978, af sömu flm. en hver kafli þess þá sem sjálfstætt þingmál. Ekkert þeirra frv. hlaut hins vegar afgreiðslu.

Frv. það, sem hér er flutt, er að meginefni hið sama og frv. frá 1977. Það hefur þó verið aðlagað nýrri hlutafélagalöggjöf sem samþykkt var á Alþingi 12. maí 1978, þ.e. lög nr. 32, auk þess, eins og ég sagði áðan, sem hið upphaflega frv. hefur verið stytt og einfaldað. Ástæðan fyrir endurflutningi málsins nú er m.a. sú að Alþb., sem á umliðnum árum hefur verið á báðum áttum í aðstöðu til aðildar starfsfólks að stjórn atvinnufyrirtækja, hefur nú lýst sig fylgjandi málinu og í yfirlýsingu ríkisstj., sem fylgdi brbl. frá því í ágúst s.l., er m.a. vikið að því að ríkisstj. muni athuga um framgang slíks máls. Ég tel að tími slíkra athugana sé raunar löngu liðinn og kominn tími framkvæmda. Það er því rétt og eðlilegt að þingmál um framkvæmd atvinnulýðræðis sé lagt fram á Alþingi og látið reyna á raunverulegan vilja þm. og þingflokka í því að koma málinu frá með því að afgreiða frv. breytt eða óbreytt. Það kostar ákaflega lítið að gefa almennar yfirlýsingar um góðan hug og góðan vilja. Á þær almennu yfirlýsingar verður að reyna hér á þingi með flutningi ákveðinna mála um hvernig þessum góða vilja eigi að koma í framkvæmd.

Við flm. þessa frv. látum okkur að sjálfsögðu ekki til hugar koma að menn eigi aðeins um það eitt að velja að annaðhvort samþykkja eða hafna þeim till. sem við gerum í frv. þessu. Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir til samkomulags við þá, sem hugmyndina vilja styðja, um hvers konar breytingar á okkar till. um framkvæmd atvinnulýðræðis sem samkomulag gæti náðst um. Það er ekki mergurinn málsins hvaða breytingar gerðar eru í þessu efni heldur hitt að á það sé látið reyna hér á Alþingi hvort ekki sé vilji til þess að færa íslenskum launþegum mannréttindi sem launþegar í ýmsum nálægum löndum hafa löngu hlotið. Ef sá vilji er fyrir hendi hlýtur að nást samkomulag á milli þm. um framkvæmd málsins. Það á að vera minna atriði. Hitt á að vera meira atriði að vilji manna um slík mál nái fram að ganga. Til þess að láta reyna á það er þetta frv. flutt.

Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til að fjalla mjög ítarlega um frv., ekki frekar en hér hefur þegar verið gert. Frv. skýrir sig sjálft að verulegu leyti. Ég vil þó aðeins fara örfáum orðum um annan kapítula frv. sem fjallar um samstarfsnefndir.

Sá vandi er okkur á höndum í sambandi við löggjöf af þessu tagi að hér á landi eru aðeins gildandi sjálfstæð lög um tvö félagaform, þ.e. atvinnurekstur sem annars vegar er rekinn af samvinnufélögum og hins vegar atvinnurekstur sem rekinn er af hlutafélögum. Það eru engin lagaákvæði til nema í skattalögum um fyrirtæki eða atvinnurekstur sem t.d. er rekinn af einstaklingum eða sameignarfélögum. Einu lagaákvæðin, sem finnanleg eru um slík fyrirtæki, eru mjög takmörkuð ákvæði í skattalögum. Að öðru leyti hefur löggjafinn ekki skipt sér af starfrækslu slíkra fyrirtækja. Þau fyrirtæki geta þó verið mjög stór og umfangsmikil og dæmi um eitt slíkt er t.d. stórfyrirtækið Hagkaup í Reykjavík. Það er fyrirtæki sem rekið er af einkaaðila og um fyrirtæki af slíku tagi gilda raunar engin lög nema takmörkuð lagaákvæði í skattalögum. Þetta er auðvitað atriði sem þarf að skoða sérstaklega hvort ekki sé ástæða til að setja sérstök lög um atvinnufyrirtæki af þessu tagi til að veita þeim sem við þau skipta og hjá þeim starfa svipaða lagavernd og veitt er þessum aðilum hjá annars vegar samvinnufélögum og hins vegar hlutafélögum.

Þessi skortur á lagasetningu um önnur rekstrarform en hlutafélagsrekstur og samvinnurekstur gerir það að verkum að mjög erfitt er að koma því við að veita starfsfólki slíkra fyrirtækja sambærileg réttindi og frv. þetta fjallar um að veitt skuli starfsmönnum hlutafélaga og samvinnufélaga. Eina leiðin virðist vera sú að stofna samstarfsnefndir með tilteknu verksviði við þessi fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki, sem rekin eru t.d. af einkaaðilum, af sameignarfélögum, af sveitarfélögum og ríkinu og ekki lúta sérstakri kjörinni eða skipaðri stjórn. Það er sú leið sem valin hefur verið í þessu frv. og II. kafla fjallar um. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er alls ekki ánægður með hvernig málum er fyrir komið í þeim kafla og vænti þess að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, skoði þann kafla sérstaklega ef komið gætu fram einhverjar nýjar hugmyndir um lausn málsins. Vegna þessara takmarkana, sem ég ræddi um hér áðan, á íslenskri löggjöf um slík fyrirtæki þá er þetta eina hugmyndin að lausn sem við flm. frv. duttum ofan á ef svo má segja.

Ég vil aðeins í þessu sambandi taka það fram að í febrúarmánuði s.l. gaf hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds út reglugerð um samstarfsnefndir í opinberum fyrirtækjum og stofnunum. Sú reglugerð er mjög lofsvert og þarft nýmæli sem samið var um milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Er vissulega ástæða til að fagna því að slík reglugerð hafi loks verið gefin út um að veita opinberum starfsmönnum tiltekinn meðákvörðunarrétt á vinnustað.

Sú reglugerð gerir því miður samt ekki þennan kafla laganna óþarfan, m.a. vegna þess að reglugerðin nær ekki til annarra fyrirtækja og stofnana en þeirra sem eru í eigu ríkisins. Hún nær t.d. ekki til fyrirtækja og stofnana í eigu sveitarfélaga og hún nær heldur ekki til fyrirtækja og stofnana sem rekin eru af einstaklingum eða sameignarfélögum. Ég hef borið reglugerðina, saman við þennan kafla, II. kafla frv., og í reglugerðinni eru ekki nein ákvæði sem stangast á við þær greinar sem í kaflanum eru. En ég bið sem sé þá nefnd — sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar ef hún er fáanleg til þess að reyna að afgreiða málið, sem ég hvet mjög til — að skoða sérstaklega II. kafla frv. og reglugerðina sem gefin var út í febrúar s.l. um samstarfsnefndir í opinberum fyrirtækjum og stofnunum.

III. kafli frv. fjallar síðan um þá breytingu á lögum um hlutafélög sem gera þarf til þess að starfsfólk hlutafélaga öðlist meðákvörðunarrétt í atvinnulífi og er lagt til að sérstakur kafli, IX. kafli, komi nýr í þau lög og fjalli eingöngu um aðild starfsmanna að stjórn hlutafélaga. Eins og frá frv. þessu er gengið er aðeins um það að ræða að starfsfólk slíkra fyrirtækja sem í lögunum er fjallað um þ.e. starfsfólk fyrirtækja sem rekin eru af hlutafélögum eða samvinnufélögum og telja 50 starfsmenn eða fleiri, fái ákveðinn rétt. Þeir öðlist rétt til þess að geta kosið fulltrúa sína með fullum réttindum í stjórn þessara fyrirtækja á móti þeim fulltrúum sem kjörnir eru af svokölluðum eignaraðilum. Það er hins vegar mál tveggja hópa að ákvarða hvort þessi réttindi verða notuð. Það er annars vegar starfsmannanna sjálfra — ef þeir kjósa að nota þennan rétt þá geta þeir tekið sér hann og hins vegar þeirra verkalýðsfélaga sem eiga trúnaðarmenn á viðkomandi vinnustöð. Ef þau verkalýðsfélög óska eftir að rétturinn til að kjósa fulltrúa í stjórnir viðkomandi fyrirtækja sé nýttur þá ber að nýta hann.

Ákvæðin, sem eru sett í þetta frv. um sjálfa framkvæmd málsins, eru hins vegar frekar opin þannig að hægt er að koma við og svara sérþörfum hvers fyrirtækis og hvaða vinnustaðar sem er, innan þess víða ramma sem markaður er í frv. Hins vegar er lagt til að félmrh. geti í reglugerð sett nánari fyrirmæli um hvernig að kjöri starfsmannafulltrúa í stjórnir fyrirtækjanna sé staðið og rísi ágreiningur innan fyrirtækis um slík mál þá sé félmrh. veitt vald til að skera þar úr. Sama má segja um IV. kafla frv. sem fjallar um sambærilegar breytingar á lögum um samvinnufélög.

Að lokum eru svo tveir kaflar frv. sem fjalla sérstaklega um Áburðarverksmiðju ríkisins og Sementsverksmiðjuna sem hafa séraðstöðu sem ríkisfyrirtæki. Þar er gert ráð fyrir því að starfsmenn fái stjórnaraðild að þeim verksmiðjum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara mjög ítarlega út í þetta mál þar sem þegar hefur verið mjög mikið um sambærileg málefni fjallað og ætla ekki að gera í því sambandi annað en að ítreka tvennt.

Í fyrsta lagi: Það liggur nú þegar fyrir viljayfirlýsing frá Alþingi sem hefur falið hæstv. félmrh., að vísu ekki núv. félmrh. heldur félmrh. almennt hver sem því starfi gegnir, að láta semja frv. um atvinnulýðræði. Hæstv. félmrh. Svavar Gestsson hefur sem sé vald til þess samkv. samþykkt Alþingis að gera nákvæmlega það sama og félmrh. í stjórn Harold Wilsons á Bretlandi gerði. Hann hefur vald til þess að fela nefnd, sem hann ræður hvernig skipuð er, ekki að ná samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um eitthvert tiltekið frv. heldur að semja frv. um atvinnulýðræði. Hann getur gert það að verkefni nefndarinnar, falið nefndinni í krafti samþykktar Alþingis að semja frv. um atvinnulýðræði. Náist ekki samkomulag í nefndinni um slíkt frv. þá klofnar hún að sjálfsögðu og skilar meirihluta- og minnihlutaáliti og hæstv. félmrh. getur ráðið því með skipun nefndarinnar hvort sjónarmiðið verður þar ofan á. Þetta gerði félmrh. í ríkisstj. Harold Wilsons árið 1977 varðandi þessa margfrægu Bulloch-skýrslu sem ég hef oft vikið að. Sá félmrh. fól stjórnskipaðri nefnd ekki að leita samkomulags um mál af þessu tagi heldur að semja frv. til l. um atvinnulýðræði. Sú nefnd var skipuð fulltrúum bæði frá verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum en félmrh. breski skipaði sjálfur sinn oddamann sem skapaði meirihluta í nefndinni með sjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar. Nefndin klofnaði síðan að sjálfsögðu og skilaði tveimur álitum, meirihlutaáliti og minnihlutaáliti. Meirihlutaálitið var frv. sem lagt var fyrir breska þingið en náði því miður ekki samþykki vegna þess að stjórnarskipti fylgdu í kjölfarið.

Annað atriði, sem ég ætla sérstaklega að leggja áherslu á, og hið síðara er að Alþýðusamband Íslands hefur nú tekið við sér í málum af þessu tagi og nú er starfandi nefnd á vegum Alþýðusambandsins sem er að vinna að því að koma saman stefnu, einhverri afdráttarlausri stefnu Alþýðusambandsins um framkvæmd atvinnulýðræðis. Ég vara mjög við því að sú staðreynd sé notuð til að tefja framgang máls af þessu tagi því hluturinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing hefur haft ákaflega rúman tíma til að koma sér niður á einhverja tiltekna tillögugerð í þessum efnum. Verkalýðshreyfingin hefur haft mjög rúman tíma til þess en hefur því miður ekki á öllum þeim tíma enn getað gert upp við sig hvort hún er fylgjandi eða andvíg atvinnulýðræði.

Auðvitað ber okkur hér á Alþingi að hafa hliðsjón af vilja og niðurstöðum fjölmennra almannasamtaka í okkar landi en ef við erum sannfærðir um það, meirihluti alþm., að rétt sé og nauðsynlegt að veita þegnum landsins einhver tiltekin mannréttindi, sem þeir hafa ekki haft, getum við ekki notað það sem afsökun fyrir aðgerðaleysi að aðili í þjóðfélaginu, sem er búinn að fjalla um málið í bráðum tvo áratugi, hafi ekki ennþá komið sér niður á hvernig hann ætlar að leysa það. Það er auðvitað okkar hlutverk sem hér erum, sem eigum að setja landinu lög, að sýna vilja okkar í verki með lagasetningu og það er sem tilraun til þess sem frv. þetta er flutt. Ég vænti þess fastlega að fá stuðning frá áhugamönnum um þetta mál, um framkvæmd frv., með einhverjum hætti á þinginu í vetur. Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.