22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

9. mál, atvinnulýðræði

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er hreyft æði stóru máli sem hefur verið á dagskrá hér á hv. Alþingi af og til í 17 ár, í raun og veru frá því fyrst að núv. hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, flutti till. til þál. um atvinnulýðræði, þar sem gert var ráð fyrir að Alþingi fæli 11 manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launamanna á stjórn fyrirtækja. Sú till. var ekki afgreidd á því þingi og var endurflutt 1968. Svo flutti hv. þm. Benedikt Gröndal frv. til l. um breytingu á lögum um Áburðarverksmiðjuna árið 1967 og síðan hefur þetta mál, atvinnulýðræði, af og til verið hér á döfinni, annaðhvort í frv.-búningi eða till., þannig að þetta er orðið æði þekkt hér í þinginu.

Það er rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan, að þeir sem kallaðir eru aðilar vinnumarkaðarins hafa hins vegar ekki rætt jafnmikið um þetta mál á liðnum árum. Þar hefur verið tregða, að ég segi ekki andstaða, við þetta mál m.a. af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands. Sú tregða hefur m.a. birst í starfsleysi nefndar, sem skipuð var 1973, og hún birtist einnig í svari Vinnuveitendasambands Íslands við bréfi sem ég skrifaði þeim 20. apríl s.l. Í svarinu kemur fram að Vinnuveitendasambandið telur að þetta mál eigi að vera samningsmál, samningsatriði á milli aðila vinnumarkaðarins. Í svarbréfi Alþýðusambands Íslands um þetta mál kom það hins vegar fram að Alþýðusambandið taldi æskilegt að hefja sem fyrst undirbúning að samningu frv. til l. um atvinnulýðræði og lýsti sig reiðubúið að tilnefna menn til að vinna að undirbúningi slíks frv. Það liggur því fyrir bréflega að verkalýðshreyfingin er í sjálfu sér tilbúin til að taka á þessu máli. M.a. hefur það reyndar gerst með formlegum hætti hjá æðstu stofnun alþýðusamtakanna, á Alþýðusambandsþingi, þar sem 34. þing ASÍ lagði áherslu á þá kröfu að á næstu árum verði knúið á um aukin áhrif og völd verkafólks í atvinnulífinu.

Í því sambandi minnti þingið á fjöldamörg atriði m.a. þetta: „Að verkalýðssamtökin og starfsfólkið á hverjum vinnustað fái skilyrðislausan aðgang að öllum upplýsingum um stöðu fyrirtækja og framtíðaráform þeirra. Að verkalýðssamtökunum og starfsfólkinu á hverjum vinnustað verði tryggð aðstaða til áhrifa á þær ákvarðanir sem teknar eru í fyrirtækjunum um breytingar á starfsfyrirkomulagi og rekstri fyrirtækjanna og uppbyggingu nýrra vinnustaða. Að verkalýðssamtökin og starfsfólkið á hverjum vinnustað fái aðstöðu til áhrifa á stefnu fyrirtækjanna varðandi starfsmannahald og atvinnuöryggi, einkum eldri starfsmanna, og öryggi eldri starfsmanna verði betur tryggt en nú er.“

Það er augljóst að ASÍ, stærstu samtök verkafólks í landinu, hefur á vegum sinnar æðstu stofnunar þ.e. á Alþýðusambandsþingi, þegar tekið alveg af skarið í þessu efni og ASÍ talar fyrir ekki lítinn hóp manna þegar þing þess kemur saman. Sú ályktun 34. þings ASÍ, sem ég vitnaði hér til, var gerð með samhljóða atkv.

Þrátt fyrir þetta viðhorf alþýðusamtakanna hefur talsverður hópur manna í áhrifamiklum stöðum innan verkalýðssamtakanna þó ekki talið rétt að fara út á hefðbundnar leiðir við að koma á svokölluðu atvinnulýðræði, fyrst og fremst vegna þess að menn hafa óttast að þetta yrði notað sem aðferð til að ánetja verkafólkið hagsmunum þeirra sem eiga fyrirtækin á hverjum stað. Þarna væri m.ö.o. verið að draga verkafólkið inn í ábyrgð á öllum rekstri fyrirtækjanna og þar með í rauninni líka á hagsmunum þeirra sem verkafólkið á að berjast við, þ.e. þeirra sem eiga framleiðslutækin. Þetta sjónarmið er gott og gilt og ber að virða það og taka tillit til þess þegar ákvarðanir eru teknar á næstu árum, vonandi fyrr en seinna, um atvinnulýðræðið. Það ber auðvitað að haga ákvörðunum um atvinnulýðræði þannig að verkafólkið hafi betri möguleika til að hafa áhrif á allt sitt starfsumhverfi og betri möguleika til baráttu, þegar því býður svo við að horfa, en ekki lakari. Atvinnulýðræði, sem er notað til þess að keyra niður baráttuvilja verkalýðsstéttarinnar, er ekki sú tegund atvinnulýðræðis sem menn vilja hér stuðla að.

Þessi mál hafa verið til umr. víðar en á hv. Alþingi og hjá Alþýðusambandinu. Á undanförnum árum hefur verið gerð mjög athyglisverð tilraun í þá átt að ýta undir atvinnulýðræði í ákveðnu rekstrarformi alveg sérstaklega. Þar á ég við framleiðslusamvinnufélögin. Ég tel að framleiðslusamvinnufélögin, sem hafa verið stofnuð hér á liðnum áratug, séu ákaflega merkileg nýjung og merkilegt innlegg í þessa umr. og athyglisverð tilraun með rekstrar- og starfsform, einkum fyrir samvinnufélögin í landinu. Það er nokkuð merkilegt að þó samvinnuhreyfingin, sem er 100 ára á þessu ári, hafi í rauninni verið brautryðjandi í þessum málum, brautryðjandi með mjög afgerandi og myndarlegum hætti á liðinni öld, þá hafa nýmæli varðandi þessi atriði ekki verið fyrst og fremst þar á ferð, heldur hafa þau sprottið upp annars staðar á vegum starfsmannanna sjálfra, t.d. í svokölluðum framleiðslusamvinnufélögum. Mér finnst í raun og veru ekki hægt að ræða þessar hugmyndir um atvinnulýðræði öðruvísi en fjallað sé um leið um framleiðslusamvinnufélögin og þá athyglisverðu tilraun sem þar er gerð til að fá alla starfsmennina, sem vinna að tilteknu verki, til þátttöku á hverjum tíma.

Á síðasta hv. Alþingi, 104. löggjafarþinginu, voru þessi mál til umr. hér í fsp.-tíma og einnig trúi ég að þeir Alþfl.-menn hafi þá flutt þetta frv. (Gripið fram í: Ekki þá.) Ekki á síðasta þingi, nei. En að minnsta kosti kom þetta mál til umr. hér í Sþ. þegar flutt var till. til þál. um aukin áhrif starfsmanna á málefni vinnustaða af hv. þm. Skúla Alexanderssyni og hv. þm. Guðrúnu Hallgrímsdóttur. Till. var á þessa leið: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja viðræður við samtök launafólks um aukin áhrif starfsmanna og samtaka þeirra á málefni vinnustaðar. Jafnframt verði í framhaldi af samningum ríkisins við BSRB og BHM um starfsmannaráð í ríkisstofnunum könnuð viðhorf þeirra samtaka og ASÍ til lögbindingar á rétti starfsmanna til að tilnefna fulltrúa í stjórnir ríkisfyrirtækja.“

Eins og menn heyra á þessari till., sem flutt er af tveimur þm. Alþb., þá miðar hún í raun og veru við að þetta frumkvæði komi í fyrstu svo að segja einvörðungu frá samtökum launamanna, málinu sé í raun og veru vísað þangað í mjög veigamiklum atriðum, vegna þess að það eru auðvitað þeir sem hafa þarna mestra hagsmuna að gæta. Ég er þeirrar skoðunar að enda þótt verkalýðssamtökin hljóti auðvitað að hafa mest um þetta mál að segja eigi einnig flokkarnir á Alþingi að fjalla um það og ríkisstj. á hverjum tíma. Og það var af þeirri ástæðu, sem við beittum okkur fyrir því þegar ríkisstj. gaf út efnahagsyfirlýsingu sína í ágústmánuði s.l., að þar yrði sett inn ákvæði um ákvörðunarrétt starfsmanna, þátttöku starfsmanna í stjórn fyrirtækjanna. Það var fallist á þetta sjónarmið og þar er inni sá liður sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði til um þessi efni.

Ég hef í framhaldi af þessari ákvörðun lagt til í ríkisstj., það hefur verið rætt þar og mér heyrist að menn séu um það sammála, að það verði farið þannig með þetta mál, að það verði til nefnd allra flokka, það verði kallaðir til fulltrúar þingflokkanna og aðilar vinnumarkaðarins, til þess að semja frv. í þessu skyni. Skipunarbréf hugsanlegrar nefndar í þessu efni verði ekki opið, þannig að hún eigi að kanna þetta mál sérstaklega heldur verði henni beinlínis falið að semja frv. í þessu skyni. Og þá er auðvitað mikilvægt að þeir Alþfl.-menn hafa lagt þetta frv. hér fram. Ég veit að þeir ætlast ekki til að það verði samþykkt óbreytt í öllum atriðum eins og það lítur út hér. Það verður að reyna að ná um það víðtækara samkomulagi. Og sérstaklega verður verkalýðshreyfingin að koma þar til. Nú hefur ekki verið mjög mikið fjallað um þessi mál sérstaklega á vettvangi ASÍ fyrir utan það að rætt var um þau á Alþýðusambandsþingi. Ég hygg að ekki hafi mjög miklar umr. verið um þetta annars staðar, t.d. hafi menn ekki gert upp við sig hvernig hugsanlegt frv. ætti að líta út. Engu að síður þykist ég þess fullviss að Alþýðusambandið sé tilbúið til þess að tilnefna menn í vinnu um þessi mál, vinnu sem mundi leiða til þess að samið yrði frv. Ég vil sem sagt skýra frá því hér að við gerum ráð fyrir að það verði til nefnd frá ríkisstj. með aðild stjórnarandstöðuflokkanna líka, sem er auðvitað eðlilegt af öllum ástæðum, og aðila vinnumarkaðarins, og þessi nefnd hafi það hlutverk að semja frv.

Það er tvennt í sambandi við það frv. og þessi mál sem ég vil nefna hér efnislega án þess að fara mjög ítarlega út í frv. sem slíkt. Í fyrsta lagi að frv. taki mjög glöggt mið af hvernig megi verja verkafólk í landinu fyrir svokallaðri örtölvubyltingu. Þar er greinilega um að ræða vandamál sem verður að taka á með lögum. Það er nauðsynlegt að verja verkafólk fyrir hugsanlegum áhrifum örtölvubyltingarinnar með lögum. Auðvitað getur þessi örtölvubylting og mun vonandi skila okkur bættum lífskjörum í framtíðinni. Þessi breyting má ekki komast á með þeim hætti að hún leiði til þess að verkafólki verði í stórum stíl hent út á atvinnuleysisskrá. Hér þarf að taka alveg sérstaklega með í reikninginn tæknilegar breytingar í fyrirtækjunum á hverjum tíma. Hitt atriðið, sem ég vil leggja mikla áherslu á að þurfi að vera í svona löggjöf, er um aðgang verkafólksins og fulltrúa þess að bókhaldi fyrirtækjanna, að þar verði mjög ákveðin og ströng krafa í lögum á þann veg að menn geti krafist þess að fá grundvallarupplýsingar um rekstur fyrirtækjanna.

Á flokksráðsfundi Alþb., sem var haldinn um síðustu helgi, voru þessi mál til umr. og þar var lögð mjög mikil áhersla á það atriði sem ég nefndi hér síðast.

Þó að umræðan um þetta mál hafi verið löng, og ekki ennþá orðin til lög um atvinnulýðræði, þá er ekki svo að skilja að ekkert hafi gerst í þessum efnum á liðnum árum annað en það að menn hafi haldið ræður á Alþingi og flutt hér inn þingmál. Það sem hefur gerst og skiptir máli efnislega er náttúrlega í fyrsta lagi sú reglugerð um rétt opinberra starfsmanna sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat hér um, reglugerð sem hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds gaf út í febrúarmánuði s.l. Í öðru lagi tel ég að það sé beint innlegg í þessa umr. að sett voru lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög nr. 46 frá 1980, þar sem kveðið er mjög skýrt á um rétt verkafólksins til að hafa áhrif á öryggis- og heilbrigðisstarfsemi innan fyrirtækjanna. Í þessum lögum, sem eru mjög ítarleg, er heill kafli um samskipti atvinnurekenda og starfsmanna og þar eru verkafólkinu tryggð viðbótarréttindi við það sem áður var í þeim efnum. Ég tel að þessi lög og sú nefndaskipun sem þar er gert ráð fyrir, öryggisnefndir og slíkt hljóti að ýta undir áhuga hjá starfsmönnunum að hafa áhrif á sitt daglega starfsumhverfi. Ég er raunar þeirrar skoðunar að það sé eitt það mikilvægasta í sambandi við atvinnulýðræðismálin að okkur takist að skapa þann hug meðal starfsmannanna að þeir sjálfir séu brennandi í andanum við að hafa áhrif á starfsumhverfið, rekstur og eignarform fyrirtækjanna. Ég tel að slíkur áhugi hjá verkafólki almennt í landinu sé kannske einn besti hornsteinn lýðræðisins þegar allt kemur til alls. Það er m.a. af þeim ástæðum sem Alþb. leggur mikla áherslu á mál af þessum toga.

Ég vil að lokum, herra forseti, óska eftir því að hv. þingnefnd kanni hvort hún getur ekki fengið efnislegar umsagnir um það frv. sem hér liggur fyrir. Að ekki verði einvörðungu um það að ræða að frv. verði sent út til umsagnar svo komi einhverjar stuttaralegar umsagnir, almennt jákvæðar kannske, heldur verði óskað eftir því að menn sendi inn efnislegar umsagnir um einstakar greinar og ábendingar um það sem betur mætti fara eða mætti fella niður eða bæta við. Þá hefðu menn í höndunum dálítið efni eftir að aðilar vinnumarkaðarins hefðu fjallað um málið og ekki látið sér nægja að senda inn almennar athugasemdir, sem eru ekki mikið annað en almenn viljayfirlýsing.