22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

78. mál, söluskattur

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. til I. á þskj. 80 um breytingu á lögum nr. 10 frá 1960, um söluskatt, með síðari breytingum, en frv. þetta flytjum við Ingólfur Guðnason. Það hljóðar þannig:

„Við 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein: Heimilt er að endurgreiða söluskatt af kostnaði sveitarfélaga við snjómokstur. Ráðh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar og tiltekur gögn er sveitarstjórnir þurfa að leggja fram til að öðlast rétt til endurgreiðslu.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. því þetta er gamall kunningi, en þó í nokkuð breyttri mynd. Það verður ekki deilt um að það er mjög óeðlilegt að ríkið hagnist á söluskatti af þeim kostnaði sem sveitarfélög verða fyrir vegna snjómoksturs eða annarra óþæginda af náttúruöflunum. Þessi skattheimta kemur mjög ójafnt niður á sveitarfélögin. Það verður ekki séð að það sé sæmandi að nota erfiðleika einstakra sveitarfélaga, sem skapast vegna ótíðar, sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er nokkuð reynt að jafna ýmis skilyrði til búsetu hvar sem er á landinu.

Ég sagði að þetta frv. væri með nokkrum hætti gamall kunningi. Þetta mál hefur verið til umr. hvað eftir annað hér í þinginu. Á 104. löggjafarþingi kom fram frv. um endurgreiðslu söluskatts af snjómokstri af götum í þéttbýli. Flm. þess voru hv. þm. Hannes Baldvinsson og Skúli Alexandersson. Það frv. náði ekki fram að ganga, m.a. vegna þess að mönnum sýndist það ganga of skammt þar sem einungis var fjallað um snjómoksturinn í þéttbýlinu. Hv. þm. Þorvaldur Garðar hefur flutt frv. svipaðs eðlis og margir hafa komið auga á þennan vanda. Hér er sem sagt lagt til að þetta verði leyst í einni lotu og þessi heimild fengin fyrir snjómokstur sveitarfélaga hvar sem er á landinu. Ég tel að það sé engin goðgá að fara fram á að sveitarfélögin öll sitji við sama borð.

Ég vil geta þess að ég tel að hæstv. fjmrh. sé málinu hlynntur, a.m.k. vildi hann kenna mér um það í fyrra að málið náði ekki fram að ganga. Það er mesti misskilningur því ég get vitnað til umr. um að mér þótti málið gott og nauðsynlegt, þó að ég liti hins vegar svo á að í þeim búningi sem málið er í núna sé það ennþá betra. Ég vona bara að menn geti, bæði allir flm. svipaðra mála og svo þeirra flokksbræður, sameinast um þetta sanngirnismál.