22.11.1982
Neðri deild: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

78. mál, söluskattur

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Mér er það nokkurt ánægjuefni að eiga þess kost hér að lýsa yfir stuðningi við þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. Það munu líklega vera orðin ein 7 ár síðan ég fyrst hreyfði við þessu máli á Alþingi og vakti athygli á því misrétti sem gerð er tilraun til að leiðrétta með þessu frv. Er þetta kannske sýnishorn af því að afgreiðsla góðra mála getur oft og tíðum tekið nokkuð langan tíma í þessari stofnun.

Mér sýnist að þó muni komið að nokkrum málalokum með því að nú hefur það gerst, að þeir tveir menn sem raunverulega hindruðu að þetta mál fengi endanlega afgreiðslu á síðasta löggjafarþingi hafa nú tekið málið upp á arma sína og gerst flm. að því. Hv. 1. flm. Páll Pétursson lagðist gegn þessu frv. einn manna í umr. sem fram fóru um hliðstætt frv, á Alþingi fyrir tæpu ári og síðan gerðist það, að félagi hans úr kjördæminu, sem sæti átti í þeirri nefnd sem fjallaði um frv., hindraði að frv. fengi endanlega afgreiðslu eins og það var þá flutt af mér og Skúla Alexanderssyni. Það er reyndar rétt, að fleiri þm. hafi látið í ljós áhuga á að þessi leiðrétting næði fram að ganga, m.a. hv. þm. Þorvaldur Garðar, sem hafði einnig tekið þetta mál hér upp, en eins og ég segi eru 7 ár síðan ég hreyfði fyrst við þessu máli hér á þinginu og vakti athygli á að þarna væri nauðsynlegt að fram færi lagfæring.

Fyrirsláttur framsögumanns um að þetta frv. sé gjörólíkt því sem hér var flutt fyrir tæpu ári er auðvitað ekki marktækur, því að sú breyting sem hann hefur gert á frv. sem þá var flutt er að fella niður eina forsetningu, eitt atviksorð og tvö nafnorð. Það er nú öll stóra breytingin sem Páll hefur gert. Síðan kemur hann hér og flytur þetta frv. sem sitt málefni ásamt þeim manni sem aðstoðaði hann við að hindra framgang þess í fyrra.

Mér er að vísu ekki svo kunnugt um vinnubrögð á hv. þingi að ég geti um það dæmt hvort hér sé um algengar aðferðir að ræða. Mér er þó nær að halda að svo sé ekki. Ég á t.d. ekki von á að aðrir þm. úr kjördæmi okkar Páls taki nú upp þann hátt að leggjast gegn framgangi þessa máls til þess að taka það upp í sínu eigin nafni og reyna að koma því svoleiðis í gegn. Ég efast um að þau vinnubrögð tíðkist hér þó að hv. þm. Páll Pétursson hafi nú notað þessa aðferð. Mér er reyndar nær að halda að þetta hugmyndahnupl hv. þm. stafi af málefnafátækt og athafnaleysi þm., sem núna er að reyna að verma sitt grey við annan eld. En ef sú tilgáta mín er rétt vil ég leyfa mér að nota þetta tækifæri, af því að ég mun hverfa af þingi eftir að þessum fundi er lokið, til að vekja athygli hv. þm. á verkefni sem vissulega bíður hans og félaga hans úr kjördæminu fyrir norðan og reyndar úr eystra kjördæminu líka.

Ég hef lagt fram á þinginu fyrirspurn, sem mér gefst ekki kostur á að fylgja eftir, og ég vil fela Páli það verkefni að fylgja eftir þessari fsp., sem nú liggur fyrir, og það er algjörlega reiðilaust af minni hendi að hann leggi sig allan fram um að vinna að úrlausn þeirra vandamála sem þar er fjallað um. Þessi fsp. mín fjallar um hugsanlegan bótarétt þeirra aðila á Siglufirði sem hvað eftir annað hafa orðið fyrir verulegu tjóni af völdum náttúruhamfara og veðragangs — og reyndar miklu víðar en á Siglufirði í síðasta veðraham, sem gekk yfir landið þann 16. nóv. s.l.

Rannsóknir og athuganir hafa leitt í ljós að varðandi tjón það sem varð í Siglufirði 16.–18. ág. s.l. af völdum aurskriðufalla, tjón sem varð í Siglufirði 26. okt. af völdum óveðurs og tjón sem varð á Siglufirði og miklu víðar í því kjördæmi og einnig í Norðurlandskjördæmi eystra, það gildir það sama um þessi tjón, að það eru ákaflega hæpnar líkur á að þeir aðilar, hvort heldur einstaklingar, félög eða bæjarfélög, sem þarna hafa orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni, eigi nokkurn bótarétt samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru í landinu.

Alþingi hefur að vísu fjallað um þessi vandamál. M.a. voru á síðasta þingi samþykkt lög um Viðlagatryggingu Íslands þar sem gert er ráð fyrir að tjón af því tagi, sem hafa orðið að undanförnu, verði gerð bótaskyld. En það er sá hængur á þessum lögum að þau taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót, þannig að tjón sem verða á því tímabili, sem líður frá því að lögin voru samþykkt og þangað til þau taka gildi, falla að öllum líkindum niður sem bótaskyld. Ef í ljós kemur, og það mun koma í ljós í svari hæstv. félmrh., að þessi tjón séu ekki bótaskyld, þá verður hv. þm. Páll Pétursson og væntanlega Alþingi allt að taka ákvörðun um hvernig með þessi mál skuli fara. Það liggur fyrir viljayfirlýsing um að bæta þessi tjón í framtíðinni, en á þeim tíma sem líður frá því að lögin voru samþykkt og þangað til þau öðlast gildi geta orðið tjón og ekkert liggur fyrir um hvernig með þau tjón skuli farið. Mér sýnist að þarna muni hugsanlega verða ærið verk fyrir hv. þm. Pál Pétursson að vinna og ég vil sem sagt nota þetta tækifæri til að gefa honum leyfi og biðja hann um að fylgja eftir því máli sem ég hef hreyft með fyrirspurn minni til hæstv. félmrh.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að lýsa þeirri skoðun minni, að tjón þau sem ég hef gert hér að umræðuefni og sem minnst er á í margnefndri fsp. minni eru ef til vill sá skattur sem við Íslendingar verðum að greiða fyrir að búa í harðbýlu, en gjöfulu landi. Þennan skatt á þjóðin öll að sameinast um að greiða, en ekki þeir einstaklingar, bæjarfélög eða fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á veðurguðunum og náttúruhamförum hverju sinni samkvæmt ófyrirsjáanlegum tilviljunum.